Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 13:59:37 (704)

1996-10-31 13:59:37# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[13:59]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hafa átt sér stað afar merkilegar umræður að mínu mati út frá skýrslu utanrrh. Ég tel að mjög margt athyglisvert hafi komið fram bæði í ræðu hæstv. utanrrh. og í ræðum annarra. Þessi umræða endurspeglar vel að mínu mati þá gífurlegu gerjun sem hér á sér stað, bæði í stjórnmálum almennt, á milli stjórnmálaflokkanna og ekki síður í afstöðu Íslendinga og einstakra flokka til utanríkismála, einkum og sér í lagi til NATO og ESB.

Það sem mér finnst athyglisverðast og reyndar hefur komið fram í máli annarra er hve fáir hafa verið viðstaddir umræðuna og ég velti því fyrir mér hvort það endurspegli þá staðreynd að innan flestra flokka á hinu háa Alþingi eru skiptar skoðanir um þessi mál.

Það eru nokkur atriði sem ég vil koma inn á. Í fyrsta lagi vil ég þakka það að ljóst verður hver þáttur þingsins verður í grundvallarákvörðunum varðandi þær breytingar sem fram undan eru á NATO, t.d. um stækkun þess. Hér hefur verið gerður skýr greinarmunur á því hvað er talið raunsætt samanber ræðu forsrh. og afstöðu Bandaríkjamanna og þá tillitssemi sem þeir og fleiri vilja sýna Rússum samanber orð hv. þm. Geirs H. Haarde áðan. Þ.e. gera greinarmun á því hvað er raunsætt og hins vegar hvers við óskum. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt að draga fram ekki síst vegna neitunarvalds okkar varðandi stækkun NATO. Þó að hv. þm. Kristín Ástgeirdóttir hafi gert það að umtalsefni áðan, kannski réttilega, að það mætti halda að stækkun NATO sé eitt aðalmálið í utanríkisstefnu Íslendinga má vel líta svo á að þetta sé stórmál. Ég tel að það séu fleiri en hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Geir Haarde sammála því að við mundum vilja styðja baltnesku löndin í ósk þeirra að ganga í NATO. En erum við tilbúin að beita neitunarvaldi gegn vilja Bandaríkjamanna og fleiri samstarfsaðila um að halda þeim fyrir utan a.m.k. í fyrstu atrennu? Ég held að við Íslendingar verðum að ræða þetta til botns og mjög gott að vita til þess að ætlunin er að taka þau mál til frekari umræðu innan þingsins hvort sem verður innan utanrmn. eða í þingsölum.

Það eru fleiri atriði sem ég vil koma inn á. Í öðru lagi vegna orða hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um Evrópusambandið vil ég ítreka nokkur orð úr stefnuskrá Kvennalistans, með leyfi forseta, og ég geri það bara til þess að vera ekki með neina sýndarmennsku. Ég held að flestir viti það að innan Kvennalistans, sem annarra flokka, eru skiptar skoðanir og ég held að sé rétt að smákafli úr stefnuskránni komi fram. Og með leyfi forseta ætla ég að vitna í stefnuskrána. Þar segir:

,,Evrópusambandið er að breytast og margt er óljóst um hvaða stefnu það mun taka. Evrópusambandið mun eftir sem áður byggjast á Rómarsáttmálanum sem gerir ráð fyrir sameiginlegri nýtingu og yfirráðum yfir auðlindum eins og fiskimiðum. Slíkt er Íslendingum afar óhagstætt, ekki síst í ljósi þess viðkvæma ástands sem ríkja mun næstu árin á fiskimiðum við landið. Þá er sú mikla miðstýring, embættismannaveldi og karlaveldi sem ræður ríkjum í Brussel þyrnir í augum kvenna en reyndar er nú hafin sókn gegn þessum ólýðræðislegu vinnubrögðum. Margt er gott að finna í lögum Evrópusambandsins svo sem um félags- og vinnumál svo og jafnrétti kynjanna en það breytir ekki því að konur eru enn mjög fáar í forustu ESB og atvinnuleysi í röðum kvenna, einkum ungra kvenna, gífurlega mikið. Því vill Kvennalistinn, að svo komnu máli, leggja áherslu á að Ísland standi utan Evrópusambandsins. Það er ekkert sem hindrar okkur í að lögleiða góðar breytingar ættaðar frá Evrópu nema vilja- og skilningsleysi íslenskra stjórnvalda.``

Ég tel að við gefum þrenns konar rök fyrir afstöðu okkar að vera utan við Evrópusambandið og þar er nefnd sjávarútvegstefnan númer eitt. Ég tel að ljóst sé þrátt fyrir orð dr. Genschers, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, síðast í gær að þeir væru tilbúnir að styðja það að Ísland fengi sérstaka meðhöndlun varðandi sín sjávarútvegsmál, þá held ég að sé alveg ljóst af allri umræðu að það getur aldrei orðið nema til bráðabirgða. Og frá sjónarmiði jafnréttismála sjáum við bæði kosti og galla við að ganga inn í Evrópusambandið. Það er annars vegar þetta kerfi og ákvarðanir teknar langt frá fólki á mörgum sviðum en hins vegar eru þeir á mörgum sviðum með ,,prógressíva`` löggjöf og ýmislegt jákvætt samanber styrkjakerfi þeirra og þá staðreynd að t.d. hefur Reykjavíkurborg nýverið fengið styrk frá Evrópusambandinu til að gera tilraun á sviði fæðingarorlofs feðra.

Þessi gerjun sem er í þjóðfélaginu um afstöðuna til Evrópusambandsins endurspeglast í okkar stefnuskrá og þess vegna er ég persónulega alveg sátt við þá skoðun, sem kemur fram hjá utanrrh. í skýrslu hans, að mjög mikilvægt sé að við fylgjumst vel með hvað er að gerast á þessum vettvangi og ekki síst að fylgjast með hvaða áhrif aðildin hefur haft fyrir Finna og Svía, því eins og við vitum þá er afstaða Svía núna frekar neikvæð gagnvart því að hafa gengið í sambandið. Ég mæli því með að við fylgjumst mjög vel með og lokum engum dyrum en ég get ekki séð að stefnubreyting sé skynsamleg á þessu stigi.

Að lokum langar mig að koma aðeins inn á hafréttarmál. Þar er mikið að gerast í heiminum eins og fram kemur í skýrslu utanrrh. Ég vil sérstaklega gera það að umtalsefni, sem kemur fram á bls. 12, að íslensk stjórnvöld fyrirhyggi að mótmæla aftur sóknarstýringu á rækjumiðunum á Flæmska hattinum. Það kemur líka fram í skýrslunni að við gerum okkur ljóst að rækjumiðin þar eru ekki ótakmörkuð. Mér finnst þarna koma fram ákveðinn tvískinnungur. Það er búið að ákveða takmörkun á þessu, reyndar með sóknarstýringu sem LÍÚ getur ekki fellt sig við, og þá á bara að leyfa frjálsar veiðar og um leið að heimila að okkar skip safni sér veiðireynslu og ég get að sjálfsögðu tekið undir það. En einhver innbyggð mótsögn er þarna sem ekki er svo auðvelt að ráða úr. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. hvort ætlunin sé að þessar veiðar verði stjórnlausar á næstunni eins og þær voru í vetur. Eða á að flýta því að setja lög um úthafsveiðar til að stýra þeim?

Á heildina litið vil ég fagna þessari umræðu um leið og ég lýsi aftur vonbrigðum með hvað fáir taka þátt í henni. Ég tek undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að vissulega hefði verið æskilegt að taka þessi mál í mun víðara samhengi. Fámennið hér bendir til að skýrsla utanrrh. sé ekki tekin alvarlega af þingheimi og ég velti því fyrir mér hvort að það sé viðkvæmni þessara mála sem veldur því að fleiri taka ekki þátt í umræðunni. Báðar skýringarnar eru að mínu mati slæmar því að þessi mál --- staða okkar í samfélagi þjóðanna --- er meginmál sem skiptir okkur öll mjög miklu. En þrátt fyrir þær væringar sem hafa birst í þessari umræðu þá tel ég að í heild ríki nokkur sátt um utanríksstefnu Íslendinga þó að ljóst sé að viðkvæmar ákvarðanir eru fram undan á ýmsum sviðum.