Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:26:01 (707)

1996-10-31 14:26:01# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem hafa komið fram í ræðum þeirra sem hér hafa talað í dag um óskir mínar og viðhorf okkar jafnaðarmanna til beiðni Eystrasaltsþjóðanna um stuðning við inngöngu þeirra í NATO. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé mál sem við þurfum að taka talsvert fastara á. Það hefur komið fram í máli hæstv. utanrrh. að hann telur eðlilegt að áður en gengið er til lokaákvörðunar af hálfu Íslendinga verði þetta mál rætt, fyrst innan utanrmn. og síðan hér í þessum þingsölum. Ég fagna því. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst ekki að hæstv. utanrrh. hafi talað nógu skýrt hér í dag. Ég held að það sé ekki hægt að ásaka mig um tilraun til útúrsnúninga þegar ég segi að það er ekki hægt að orða það öðruvísi en svo að það er a.m.k. áherslumunur annars vegar á viðhorfum hans og hins vegar Sjálfstfl. Ég tala nú ekki um ef við lítum svo á að talsmaður Sjálfstfl. í þessu tiltekna máli sé hv. þm. Geir Hilmar Haarde. Hann hefur lýst því mjög afdráttarlaust að það eigi að styðja inngöngu Eystrasaltsþjóðanna í NATO sem allra fyrst eins og hann orðaði í morgun. Hins vegar sló hann úr og í fannst mér í einhverri ræðu sinni í morgun og taldi að það yrði að gerast með trúverðugum hætti. Hann skilgreindi sjálfur í fyrra hvað það væri að vera trúverðugur í slíkri umræðu. Hann sagði að það væri ekki hægt að setja fram svona kröfu nema fyrir lægi hver væri afstaða Bandaríkjaþings og hann skilgreindi það enn frekar. Nú veit ég ekki hvort þingmenn Bandaríkjanna hafa hvíslað um afstöðu sína í eyru hv. þm. Geirs Hilmars Haardes. Ég veit ekki til þess að hún liggi skýrar fyrir en í fyrra. En það sem hefur breyst er afstaða hans. Hann hefur fyrir hönd hægri manna í Norðurlandaráði lagt fram tillögu sem ég get stutt að öllu leyti og hann hefur líka tekið fram að það eigi að styðja óskir þeirra um inngöngu í Evrópusambandið, mál sem hann hafði allt aðra skoðun á í fyrra. Ég nefndi það hérna vegna þess að hann hefur það fyrir sið í umræðum um utanríkismál að sproksetja menn fyrir að þeir hafi skipt um skoðun, eins og ég. Ég hef skipt um skoðun. En það er nú óvart þannig að í þessu tiltekna máli hefur hann skipt um skoðun líka og það er lofsvert. Það er afskaplega heppilegt fyrir þingið að hafa svona sveigjanlegan formann utanrmn. sem getur skipt um skoðun. Ég vil ekki segja að það gerist eftir því í hvaða landi hann er staddur, en þarna eigum við samleið eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði. Ég held að hér sé mjög sterkt samþykki við þessari kröfu Eystrasaltsþjóðanna. Ég held að það sé nauðsynlegt að áður en íslenska ríkisstjórnin kemur sínum viðhorfum á framfæri innan NATO þá verði látið á það reyna á einhvern hátt hvort íslenska þingið vill ekki styðja þetta afdráttarlausara en kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh.

Ég vil aðeins víkja orðum mínum að hv. þm. Svavari Gestssyni og félaga hans Steingrími J. Sigfússyni. Mér þótti þeir bregðast undarlega við ræðu minni í morgun. Ræða mín var að því leyti til framrétt hönd til Alþb. að ég sagði það fyrstur þingmanna Alþfl. í þessum sölum að ég lít á þingmenn Alþb. sem jafnaðarmenn. Og ég tel að þær breytingar og gerjun sem er í gangi varðandi utanríkismálin sé að má burt helsta ásteitingarsteininn í samvinnu og e.t.v. samruna þessara tveggja flokka í framtíðinni. Ég segi það alveg skýrt og skorinort að ég tel að framtíðin hljóti að bera það í skauti sér að þessir tveir flokkar nái aukinni samvinnu og verði jafnvel einhvern tímann að einum flokki og þar með verði bætt fyrir það sögulega slys sem henti hreyfingu jafnaðarmanna fyrr á þessari öld. Það er ekkert sem undirstrikar jafnskýrt þá hættu sem aðrir flokkar sjá í þessu og einmitt viðbrögð hv. þm. Geirs H. Haarde sem eyddi talsverðum hluta ræðu sinnar í morgun í að reyna að sýna fram á að það eru ýmsir agnúar á þessari samvinnu. Hvers vegna er sjálfstæðisþingmaðurinn að eyða tíma sínum í það? Vegna þess að hann er hræddur. Hann er hræddur við að hérna myndist stór og breiður flokkur jafnaðarmanna. Ég skil vel þann ótta, sér í lagi vegna þess að það er líklegt að sá flokkur jafnaðarmanna yrði í ýmsum efnum miklu frjálslyndari en Sjálfstfl. er nú, sá Sjálfstfl. sem á landsfundi læsti að sér.

[14:30]

Hv. þm. Svavar Gestsson vék nokkrum orðum að Framsfl. og hæstv. utanrrh. og var hálfvegis að skamma hann fyrir að vera að heimila og örva endurmat og afstöðu Framsfl. til utanríkismála, sérstaklega Evrópumála. En nú er það svo að það skýtur hálfvegis skökku við að heyra þetta úr munni hv. þm. Svavars Gestssonar vegna þess að Alþb. hefur líka endurmetið sína afstöðu til Evrópumála. Við skulum ekki gleyma því að tveir flokkar voru með algjörlega hreina afstöðu þegar hér voru greidd atkvæði um aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það var Alþfl., þar sem allir voru með og það var Alþb. þar sem hver einasti þingmaður greiddi atkvæði gegn. Í kosningabaráttunni voru bornar brigður á að þau sóknarfæri fælust í aðildinni sem Alþfl. hafði sagt. Ef afstaða Alþb. væri enn hin sama og hún var þá, mundi ég ætla að þessir ágætu þingmenn hefðu verið sjálfum sér samkvæmir og lagt fram tillögu um að við segðum okkur úr Evrópska efnahagssvæðinu. Það hafa þeir ekki gert. Þvert á móti hafa a.m.k. nokkrir þeirra talað í þá veru að þeir skilji núna þá nytsemd sem við höfum af aðildinni. Ég dreg þetta fram til að sýna fram á að hv. þm. Svavar Gestsson getur ekki verið að agnúast út í menn þó þeir leyfi sér þann munað að endurmeta afstöðu sína þegar það liggur fyrir að hann sjálfur hefur endurmetið sína stöðu til mjög mikilvægra þátta í utanríkismálum Íslendinga.

Ég segi það líka að þær breytingar sem eru í gerjun eru að vissu leyti mjög sögulegar. Þær eru t.d. sögulegar að því leyti til að það er líklegt að ágreiningsefnin milli Alþfl. og Alþb. sem áður vörðuðu Evrópska efnahagssvæðið sérstaklega og líka Atlantshafsbandalagið séu ekki eins mikil og þau voru áður. Það er merkilegt í sjálfu sér. Og það liggur líka fyrir að þróunin sem er núna að birtast sýnir að það er ekki heldur sami ágreiningurinn, ekki eins djúpristur, milli Alþfl. og Framsfl. og áður var. Við erum stödd á óþekktum punkti í þessari þróun en það hljóta allir menn að sjá eins og ég sagði í morgun að þetta getur leitt til þess að hér breytist algjörlega landslag í íslenskum stjórnmálum. Við skulum ekki heldur gleyma því að í þjóðfélaginu er að myndast krafa um uppstokkun á flokkakerfinu. Þessi umræða um utanríkismálin tengist henni vegna þess að hún er að leiða í ljós að þar hafa orðið breytingar á afstöðu sem gerir það að verkum að auðveldara er að svara þeim kröfum sem við verðum vör við í þjóðfélaginu. Við sem erum oddvitar þessara flokka í sölum Alþingis eigum auðveldara í dag heldur en áður að ræða saman og reyna að ná einhvers konar málamiðlun einmitt í þessum málum. Ég segi að það er þörf fyrir það í íslenskum stjórnmálum í dag. Það er þörf fyrir að stokka upp flokkakerfið. Það er þess vegna sem ég fyrir mitt leyti hef rétt fram hönd til Alþb. og sagt: Ég lít á þingmenn flokksins sem jafnaðarmenn. Í þessu felst einfaldlega að ég tel að breytingarnar í utanríkismálunum séu þess eðlis að það sé auðveldara fyrir okkur að tala okkur fram til samstöðu nú en áður.