Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:39:10 (712)

1996-10-31 14:39:10# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:39]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég er að reyna að átta mig á málflutningi Alþfl. og hv. talsmanna hans þessa dagana. Ég ætla ekki að gera hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þann greiða að sleppa seinni hluta ræðu hans um tilhugalíf hans og Alþb. því það er einmitt sá þátturinn sem ég er að reyna að átta mig á, þ.e. hvort um raunverulegan áhuga Alþfl. sé að ræða á því að ná sambandi og samstarfi við Alþb. og á hvaða grundvelli það er, hvort það sé á grundvelli þess að þeir eigi eitthvað sameiginlegt í utanríkismálum. Auðvitað er það ljóst að núv. formaður Alþfl. var á sínum tíma í Alþb. og það sama á við um hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann var á sínum tíma í Alþb. Það er kannski afturhvarf til þeirrar stefnu sem ríkti í þeim flokki þegar Alþb. var á móti inngöngunni í EFTA. Þá var hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson formaður Alþfl. meðlimur í Alþb. Síðan er maður að lesa einhvern umsvifamesta leiðara sem maður hefur séð í nokkru dagblaði í langan tíma, í Alþýðublaðinu, með stækkuðu letri þar sem Alþfl. er að biðla til Framsfl. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé þá á grundvelli einhverrar samstöðu í utanríkismálum á milli þessara tveggja flokka, hvort þarna séu einhverjir leyndir strengir því fram til þessa hef ég ekki séð þessi tengsl svona a.m.k. ekki augljóslega. Mér virtist á þessum leiðara að það væri vegna þess að Sjálfstfl. væri að breytast, að Alþfl. væri að hrekjast í faðminn á Framsfl., vegna þess að Sjálfstfl. og Alþfl. ættu ekki lengur samleið þá ættu Alþfl. og Framsfl. samleið.