Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:43:26 (714)

1996-10-31 14:43:26# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:43]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Þetta fer nú að verða spurning um það hvort það verða þúsund blóm sem blómstra eða þúsund ormar sem skríða upp í eyrað á hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar hann reynir að hlusta eftir ómnum í grasrót Framsfl.

Það kann auðvitað að skipta máli fyrir forustu Alþfl. hvort formaðurinn á sér fortíð í grassverði Alþb. eða ekki. Að því leytinu til ætti það kannski að vera gleðifregn fyrir Sjálfstfl. að tilvonandi formaður eða hinn smurði krónprins hefur, svona a.m.k. manna á meðal, verið kallaður hægri- og viðreisnarkrati. Þess vegna er það kannski sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar öðruvísi hér úr ræðustól heldur en leiðarahöfundur málgagnsins ritar í Alþýðublaðinu. Þess vegna er það hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem leitar eftir samstarfi við Alþb. en einhverjir aðrir sem leita eftir samstarfi við Framsfl.

Hins vegar held ég að það sé algjör rangtúlkun og algjör misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að Sjálfstfl. sé að skjóta einhverjum slagbröndum fyrir einhverjar dyr hvað varðar utanríkismál. Það held ég að sé algjör misskilningur. Flokkurinn er jafnopinn fyrir því að standa í samstarfi við erlendar þjóðir og hann hefur alltaf verið enda er það grundvöllur sjálfstæðis okkar að við eigum frjáls viðskipti við aðra. Það er hins vegar alltaf spurningin hversu hollt það er fyrir okkur að bindast böndum sem erfitt gæti verið að leysa úr þegar hlutirnir breytast á hinum alþjóðlega vettvangi. Ég minni á að í aldaraðir hefur Evrópa verið að renna saman í stærri heildir og síðan brotna upp aftur í minni heildir. Því er skynsamlegt að við hugsum okkar gang vel áður en við tengjumst þeim enn sterkari böndum en við höfum gert hingað til. En það er þó alls ekkert útilokað að við gerum það í framtíðinni.