Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 15:17:20 (723)

1996-10-31 15:17:20# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[15:17]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það líður að því að þessari umræðu ljúki. Hún hefur að mörgu leyti verið athyglisverð eins og umræður um utanríkismál eru jafnan á hinu háa Alþingi, bæði vegna þess sem kemur fram í umræðunum og ekki síður vegna hins sem ekki kemur fram í umræðunum, sem ekki er talað um. Það á kannski einkum og sér í lagi við um þann flokk sem einna harðast berst nú fyrir því um þessar mundir að við nálgumst Evrópusambandið, að við stillum strengi okkar eftir því hvernig málin þróast þar. Ég sé að enginn fulltrúi þessa ágæta flokks er í þingsalnum núna og harma það því að ég ætla að koma örlítið inn á þessi atriði sem lítið er talað um.

Ég reyndi fyrir ári að færa umræðuna svolítið inn á það hvernig Evrópusambandið er að þróast, hvaða vandamál er rætt um þar sem brennandi vandamál og hvernig umræðan á hinu háa Alþingi sneiðir eiginlega hjá þessum vandamálum.

Við verðum vör við það að ESB er að þróast nokkuð hratt frá efnahagssamstarfi yfir til pólitísks samruna. Í þessu þróunarferli eru sett fram markmið hvert á fætur öðru sem eru í innri mótsögn hvert við annað. Ég tek nokkur dæmi sem ég varpaði ljósi á í umræðum í fyrra en ekki vottar fyrir að menn vilji ræða nú í þessari umræðu.

Stefnan um að víkka út ESB gengur þvert á yfirlýsta stefnu ESB um að draga úr styrkjastefnu sinni og draga úr markaðstruflandi aðgerðum. Útvíkunin gengur þvert á þetta. Það er alveg ljóst að ef menn víkka út ESB, þá neyðast menn til að taka fleiri ríki sömu tökum og Grikkland hefur verið tekið. Þar hefur ESB veitt ómældum fjármunum án þess að það hafi verið viðurkennt innan ESB að þeir fjármunir hafi runnið til nytsamlegra hluta. Það er viðurkennt innan ESB að þeir hafi glatast. Það er því ljóst að það verður þörf á meira styrkjakerfi í ESB eftir útvíkkun og sú staðreynd að menn munu með þessum hætti auka styrkjastarfsemi ESB vegna útvíkkunarinnar kemur til með að hafa áhrif á það sem við höfum verið að semja um við ESB, við höfum verið að semja um á EES-svæðinu. Þar höfum við einmitt verið að semja um það að reyna að láta viðskiptalögmál gilda, samkeppnisreglur, og verið að reyna að draga úr áhrifum truflandi aðgerða á þetta. Þarna er sem sagt verið að vinna að tveimur markmiðum, annars vegar draga úr styrkjastefnu og hins vegar víkka út sambandið. Og þetta bara gengur ekki upp. Um þetta eru menn að ræða í ESB sem mikið vandamál. En það er miklu minna rætt um þetta hér og ekki talað um þetta sem sérstakan vanda, ekki síst af hálfu Alþfl.

Ég vil einnig geta þess að útvíkkunin sem slík gengur náttúrlega beint gegn markmiðinu um einn gjaldmiðil í Evrópu. Hún er mjög skiljanleg hin mikla áhersla sem ESB leggur nú á einn gjaldmiðil og hefur marga athyglisverða fleti fyrir okkur Íslendinga. En þetta gengur beint gegn hugmyndinni um útvíkkun. Þetta eru markmið sem eru ósamrýmanleg nema þá að menn vilji ganga nokkru lengra í því að búa til styrkjakerfi vegna þess að einn gjaldmiðill fyrir margar þjóðir sem eru með afar mismunandi efnahag og sum meira að segja svo veikan að hann er nánast varla til að tala um, kallar á styrkjakerfi ellegar þá að það kallar á Evrópu sem er tveggja þrepa eða jafnvel þriggja eða fjögurra þrepa og er það ekki lengur sú sameinaða Evrópa sem menn eru að tala um. Þetta vildi ég færa í tal.

Ég ætla að nefna enn eitt dæmi sem menn ræða mjög lítið um hér. Það er hin nýja umræða um öryggismál í Evrópu sem er mjög sérkennileg. Hún kemur mér þannig fyrir sjónir að hún fari fram af talsverðum óheiðarleika. Menn ræða þar um hlutina með svolítið sérkennilegum formerkjum. Það er alveg ljóst að hluti af Evrópusambandsríkjunum eru í NATO og tryggja öryggi sitt með því að vera í NATO. Þar byggist tryggingin á þátttöku Bandaríkjamanna í NATO. En á sama tíma er ljóst að ákveðin ríki hafa gengið í ESB, ekki í NATO, til að tryggja öryggishagsmuni sína og eru Finnarnir besta dæmið um það. Þeir gengu í ESB til að tryggja öryggishagsmuni sína og þeir telja öryggishagsmunum sínum borgið með því að vera inni í ESB. Engu að síður eru engar beinar hernaðarlegar tryggingar fólgnar í þeirra aðild þar. Þar af leiðandi er komið upp einhvers konar einskis manns land þar sem menn telja öryggishagsmunum sínum borgið. En það er engan veginn útfært hvernig á að bregðast við ef upp koma vandamál. Og auðvitað er ekkert spursmál að Eystrasaltslöndin ætla sér nákvæmlega sömu leið. Þarna eru komin ýmiss konar grá svæði í umræðunni og m.a. þeir sem hafa sótt mest á það hér að ræða þessi mál, þ.e. að Íslendingar nálguðust ESB, virðast forðast að tala um þetta.

Ég hef hins vegar óskað eftir því að umræðurnar um tengsl Íslands við ESB færu meira inn á svið t.d. ríkjaráðstefnunnar þar sem einmitt er verið að tala um framtíð ESB. Afstaða okkar til ESB hlýtur að ráðast mjög verulega af því í hvaða átt ESB er að þróast eða hvort umræðan innan ESB er að þróast í margar áttir og mótsagnakenndar. Ég vildi því aðeins vekja athygli á því að mér finnst að þó að þessi umræða hafi á margan hátt verið mjög gagnleg og merkileg, er hún ekki síst merkileg fyrir það sem ekki er rætt um hér í þingsölum.