Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:03:48 (730)

1996-10-31 16:03:48# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umræðu um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem sett er vegna ákvæða í tilskipun Evrópusambandsins, hefur verið nokkuð til umræðu utan þings og einmitt á þeim nótum sem hæstv. ráðherra gat um í upphafi máls síns. Það virðist hafa verið svo að margir hafi verið hræddir við þá tilskipun og kannski ekki síst ráðherrann sjálfur um að þessi tilskipun mundi hafa í för með sér verulegar þjóðfélagsbreytingar sem ég tel ekki vera, ekki síst eftir lestur þessa frv. sem við ræðum hér.

Vissulega er það svo að þessi tilskipun á fullan rétt á sér og ekki síst þar sem barnaþrælkun viðgengst. Maður veltir fyrir sér eins og síðasti ræðumaður hvaða raunveruleg áhrif þessi tilskipun og þá þetta frv. sem við hér ræðum og ákvæði þess hafi, hvort þetta hafi í för með sér einhverjar raunverulegar breytingar frá því ástandi sem við búum við núna. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að mér finnst vanta í greinargerð frv. að fram komi ítarlegri úttekt eða skýringar á því hvaða mat nefndarmenn og flutningsmaður þessa frv. leggja á það, hvort þetta hafi einhverjar raunverulegar breytingar í för með sér.

Vissulega hlýtur að vera kappsmál hverrar siðaðrar þjóðar að búa sem best að börnunum og það á auðvitað líka við um vinnumarkaðinn, að aðbúnaður barna sé sem bestur, vinnutími hóflegur, ákveðnar reglur settar um næturvinnu, hvíldartíma o.s.frv. sem hér er gert.

Ég vil segja að þegar ég las þetta yfir kom upp í hug mér að frv. styður mjög það frv. sem ég og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir höfum lagt fram. Það felur í sér að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 ára í 18 ár og ég spyr hæstv. ráðherra að því af því að mér er ekki kunnugt um skoðun hans á því máli hvort hann styðji það að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Ég held að það auðveldaði t.d. framkvæmd á ýmsum ákvæðum í þessu frv.

Ég rek líka augun í það að í nokkrum greinum frv. er kveðið afdráttarlaust á um ýmis atriði en síðan er í a.m.k. fjórum greinum talað um frávik frá þessum ákvæðum og Vinnueftirlitinu er ætlað að setja reglur með stoð í sjö af tíu greinum þessa frv. Það sem mér finnst vera sett í einni grein eru svo aftur frávik annars staðar að finna sem hægt er að opna á, bæði varðandi vinnutímann og fleiri ákvæði. Það segir mér út af fyrir sig að það er kannski ekki svo mikil breyting sem þessi ákvæði hafa. Ég vildi gjarnan fá fram í umræðunni mat ráðherrans á því hvaða raunverulegar breytingar þetta hafi í för með sér.

Ég ætla aðeins að fara í nokkur atriði í frv. Ég ætla að nefna 8. gr. Þar er talað um að heimilt sé í óviðráðanlegum tilvikum sem atvinnurekandinn fær ekki stjórnað að víkja frá ákvæðum laga þessara um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga að því tilskildu að um sé að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið, ekki sé unnt að fá fullorðna starfsmenn til starfans og unglingar fái samsvarandi uppbótarhvíldartíma á næstu þremur vikum. Þetta er eitt af þeim ákvæðum þar sem ýmislegt er tekið til baka það sem búið er að banna áður. Mér segir svo hugur um að erfitt verði að framfylgja þessu. Hver á að sanna og þá hvernig á að sanna að ekki sé hægt að fá fullorðinn starfsmann til starfans sem kallar á vinnu á næturnar og gengur á þann hvíldartíma unglinga sem kveðið er á um í frv.? Þetta finnst mér eitt dæmi um að erfitt verði að hafa eftirlit með þessu og framkvæma það.

Ég spyr líka um eitt: Ef unglingur er í tveimur störfum, ég tala nú ekki um þremur störfum, sem gæti vel verið, er að bera út blöð á morgnana og í einhverri vinnu annarri yfir daginn og hv. síðasti ræðumaður nefndi vinnu á börum o.s.frv., hver á þá að hafa eftirlit með þeim hvíldartíma sem hann á rétt á? Ég spyr um framkvæmd á þessu og hvort það hafi eitthvað verið hugsað út í það.

Síðan finnst mér ákaflega furðulegt það ákvæði í 1. gr. þar sem kveðið er á um til hverra ákvæðin eigi að ná og til hverra ákvæði þessa frv. ná ekki. Þau ná ekki t.d. til vinnu í fjölskyldufyrirtækjum, stendur hér. Ef maður les um þessa 1. gr. er talað um að orðið fjölskyldufyrirtæki mætti skýra þannig að það taki til rekstrar sem er að verulegum hluta í höndum einstaklinga eða einstaklings sem er skyldur eða mægður barni eða unglingi í beinan legg eða öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti og vegna ættleiðingar. Þetta er í fyrsta lagi spurningin um skilgreininguna á fjölskyldufyrirtækjum hér og ég spyr: Hvers eiga þau börn að gjalda sem eru í fjölskyldufyrirtækjum og vinna þar? Hvíldartímaákvæðið á ekkert að ná yfir þau. Þau mega vinna alla nóttina og þar fram eftir götunum. Mér finnst ákaflega furðulegt að það eigi að gilda önnur ákvæði um börn þeirra sem eiga fjölskyldufyrirtæki en hjá öðrum. Það má vel vera að það sé til einhver skýring á þessu en ég gríp hana a.m.k. ekki strax að það eigi að undanskilja aðbúnað og ákvæði um vinnutíma og hvíldartíma, af hverju það eigi ekki að gilda um börn þeirra sem eiga fjölskyldufyrirtæki. Mér finnst þetta ekki ganga upp en þetta er í tilskipuninni sjálfri og væntanlega hafa nefndarmenn lent í einhverjum erfiðleikum með þetta en ég sé ekki fyrir mér hvernig þetta getur gengið upp.

Á bls. 5 kemur fram að í skýrslu sinni setur nefndin fram ábendingar um breytingar á öðrum lögum, t.d. grunnskólalögum. Hvaða ákvæði eru þetta í grunnskólalögunum? Síðan er talað um að auk þess sé vakin athygli á því að vera kunni að breyta þurfi ákvæðum sjómannalaga líka um lágmarksaldur við vinnu á skipum. Vera kunni að breyta þurfi ákvæðum sjómannalaga. Hefur þetta ekki verið skoðað sérstaklega og í hvaða veru þarf þá að breyta þessu? Er von á frv. þar sem lagt er til breytingar á ákvæðum sjómannalaganna?

Ég held að á margan hátt megi segja að skynsamlega hafi verið að þessu staðið hjá nefndinni þannig að við séum ekki að þrengja frá því sem nú er réttur barna og unglinga til að vinna hóflegan vinnutíma með námi en það eru ýmis ákvæði eins og ég hef hér bent á sem ég tel brýnt að nefndin skoði og fari ofan í sérstaklega.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, spyrja hæstv. ráðherra um tilskipun Evrópusambandsins um vinnuvernd barna og ungmenna. Hefur það verið skoðað alveg sérstaklega að öll þau ákvæði sem eru sett fram í frv. sem hér er til umræðu falli að þeirri tilskipun, stangist ekki á við ákvæði hennar? Erum við að fjalla um sambærileg ákvæði í þessu frv. varðandi þessa tilskipun, t.d. í EES-löndum eins og í Noregi? Eru það svipuð ákvæði sem við erum að taka upp og svipuð ákvæði og gilda í EB-löndunum?

Í heild held ég að megi segja að skynsamlega sé að þessu staðið. Ég hef komið fram með ýmsar ábendingar sem þarf að skoða, sumar stórar að mínu viti, sumar smærri, en ég treysti nefndinni til þess að skoða ákvæði frv. vel. Við þurfum að vanda vel til verka þegar við erum að fjalla um mál eins og aðbúnað barna á vinnumarkaðnum og ég treysti nefndinni til þess að gera það sem best.