Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:39:54 (733)

1996-10-31 16:39:54# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hafði ekki tíma til áðan að fara ítarlega út í þær spurningar sem eftir lágu. Varðandi sjómannalög og grunnskólalög, grunnskólalögin eru náttúrlega tvímælalaust á forræði annars ráðherra. (Gripið fram í.) Það hafa komið upp vangaveltur um það að heildstæður skóladagur og þar sem börnin eru með viðveru allan daginn kunni að stangast á við þessa tilskipun, þ.e. að það sé of mikið álag á börnin að hafa þau þetta lengi. Um þetta greinir menn á. Ég veit að fræðslustjórinn í Reykjavík var með vangaveltur um þetta. Sumir hafa hins vegar fullyrt í mín eyru að þetta eigi ekki við, ég þori ekki að skera úr því. Sjómannalögin eru e.t.v. líka á gráu svæði. Ég teldi það ákaflega illa farið ef þessi lög yrðu túlkuð þannig að strákum eða stelpum 16--18 ára væri meinað að fara á sjó, og guð almáttugur hjálpi okkur, hvernig endurnýjum við sjómannastéttina ef enginn færi á flot fyrr en e.t.v. eftir 18 ára aldur? Flestir okkar sjómenn hafa byrjað sína sjómennsku áður en þeir voru 18 ára og síðan farið í nám í sjómannafræðum.

Varðandi spurningarnar um samræmingu þá skal ég svara því þannig að ég tel að eftirlitsiðnaðurinn á Íslandi sé nú þegar orðinn það mikill að það sé ekki mikið á hann bætandi. Hvað fjölskyldufyrirtæki varðar þá er þetta bein þýðing, orðrétt þýðing upp úr enska textanum, og svarið las ég áðan frá Evrópusambandinu um að hverju ríki væri frjálst að túlka það með sínum hætti. Við getum auðvitað þrengt. Tilskipunin liggur fyrir. Sú túlkun sem kemur fram í frv. er rúm, eins rúm og okkur sýndist vera fært á ákvæðum tilskipunarinnar. Okkur er frjálst að setja strangari reglur ef við kærum okkur um. Ég vil hins vegar ekki beita mér fyrir því.

Það ekki mér að kenna að tillögur um fjölskyldustefnu voru ekki ræddar í fyrra. Geysilangur tími fór í umræður um breytingar á vinnulöggjöfinni og ég setti það á oddinn að það mál hlyti afgreiðslu. Þar af leiddi að mér vannst ekki tími til að mæla fyrir fjölskyldustefnunni. Hins vegar kom til tals hjá okkur hv. form. félmn. hvort tiltækilegt væri að vísa þáltill. til félmn. umræðulaust. Mér fannst nú dálítið snautleg afgreiðsla á góðu máli því mig langaði til að fá umræður um tillöguna og færðist heldur undan þó að ég hafi ekki aftekið það. Ég er búinn að leggja þetta fram á þskj., mig minnir að það sé 72. mál þingsins, og vænti þess að herra forseti lofi mér að tala fyrir því alveg á næstu dögum. Hv. þm. spurði hvort sátt væri hjá aðilum vinnumarkaðarins um þetta frv. Ég held að ég geti fullyrt að svo sé. Eins og sést í upptalningu í upphafi greinargerðar voru aðilar frá Bændasamtökum, Alþýðusambandi Íslands, Vinnumálasambandi og Vinnuveitendasambandi í nefndinni sem fór yfir tilskipun ESB.

Hvað slysatryggingar varðar er ég vanbúinn að svara því. Ég tel sjálfsagðan hlut ef ungmenni er að störfum að það sé tryggt eins og um fullorðinn væri að ræða. Ég veit hvernig þessu er háttað í landbúnaði því ég hef staðið í því sjálfur. Þar eru sams konar tryggingar á starfsfólki. Vinnutímatilskipunin fyrir fullorðna er upplagt kjarasamningaatriði, þetta er aftur ekki kjarasamningaatriði.

Í 9. gr. er átt við að ungmenni sem er í skóla megi ekki vinna allt sumarið, þ.e. það á rétt á að fá eitthvert sumarfrí, að lágmarki tvær vikur. Varðandi skilgreininguna held ég að þar sé átt við að ef um áhættusaman vinnustað er að ræða þá þurfi að meta það.