Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:48:49 (736)

1996-10-31 16:48:49# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Hann fór yfir allar þær spurningar sem ég lagði fyrir hann. Ég legg mjög mikla áherslu á það og ég mun auðvitað skoða það líka að slysatryggingarnar nái til barna og unglinga og ég treysti því að ráðherrann skoði einnig að tryggilega sé frá því gengið.

Ráðherrann svaraði því kannski ekki nægilega með sjómannalögin og heildstæðan skóladag hvort menn hafi ekki skoðað fyllilega hvaða áhrif þessi ákvæði hafa á stöðuna hjá börnum og unglingum eins og hún er í dag, hvaða breytingar verða þegar ákvæðin verða að lögum. Ég hrökk við þegar ráðherrann nefndi að tilskipunin gæti stangast á við það að við gætum komið á hér heildstæðum skóladegi. Það finnst mér mjög alvarlegt ef rétt er og ég veit og treysti því að í félmn., sem fær málið til umfjöllunar, verði þetta skoðað sérstaklega. Ég trúi því varla að ákvæðið stangist þarna á við tilskipunina.

Eins get ég tekið undir með ráðherra að það væri töluverð breyting ef unglingum frá 16--18 ára væri meinað að fara á sjóinn. Mér finnst slæmt við þessa umræðu að ekki skuli liggja skýrt fyrir að menn hafi lagt mat á þau tvö mikilvægu atriði sem ég nefndi hér.