Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:51:42 (738)

1996-10-31 16:51:42# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að völd ráðherrans eru mikil og ég vona svo sannarlega að það standist að þetta gangi ekki gegn heildstæðum skóladegi eða að ungmenni geti farið á sjóinn. En ég held að ósk ráðherrans dugi ekki ef tilskipunin gengur gegn þessu. Þess vegna þarf þetta náttúrlega að vera alveg klárt. Eitt af því sem ég spurði ráðherrann um er hvort ákvæðin í frv. séu með líkum hætti og gerist hjá öðrum ESB-löndum sem þurfa að gangast undir þessa tilskipun og ég spurði þar sérstaklega um Noreg. Við þurfum náttúrlega að vera alveg klár á þessu, það má ekki vera óljóst þegar við afgreiðum málið frá þinginu hvort þetta stangast á við heildstæðan skóladag eða hvort ungmennum sé bannað að fara á sjóinn eftir að frv. er samþykkt. Það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvað menn eru að samþykkja.