Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:54:32 (740)

1996-10-31 16:54:32# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:54]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið um heildstæðan skóladag. Að minnsta kosti eins og ég þekki til í Reykjavík þá eru þess dæmi að börn eru í skóla og gæslu eða það sem kallað hefur verið heildstæður skóli hér í Reykajvík allt frá því kl. átta til klukkan fimm og jafnvel lengur á daginn. Það sjá það náttúrlega allir að slíkt er óhæfilega langur vinnutími fyrir lítil börn. En ég get ekki ímyndað mér að að skilgreining Evrópusambandsins yfir vinnutíma nái almennt yfir skólann, sem sagt að skólinn sé skilgreindur sem vinna. Þetta þurfum við auðvitað að kanna. Hér er verið að tryggja að þegar börn eða unglingar eru ráðnir í vinnu umfram þann tíma sem þau eru í skóla þá megi vinnudagurinn ekki fara yfir ákveðna tímatölu. En ég minni á það að formaður skólanefndar í Reykjavík, sem stendur nú hæstv. félmrh. nálægt, minnti einmitt á að það yrði að koma til móts við þarfir barna með styttingu vinnutíma með breytingu á vinnutíma fjölskyldna þannig að þessi gríðarlega langi tími sem börn eru í skóla og gæslu styttist. Hér er verið t.d. að tala um það þegar verið er að ráða börn í vinnu og launavinnu og ég get ekki ímyndað mér að sú skilgreining nái yfir skólatíma.