Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 15:10:47 (746)

1996-11-04 15:10:47# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:10]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Á þessu ári eru 20 ár liðin frá því að jafnréttislög voru sett. Á þeim tíma hafa konur sótt sér sífellt meiri menntun og þær hafa streymt út á vinnumarkaðinn í ýmiss konar störf. Atvinnuþátttaka kvenna hér á landi er einhver hin mesta í heimi. Konum fjölgaði verulega í sveitarstjórnum og á Alþingi, ekki síst eftir tilkomu Kvennalistans, þótt við séum enn þá nokkuð á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum hvað varðar hlut kvenna í stjórnmálum.

Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar tóku saman fyrir kvennaráðstefnuna í Kína var Íslands að engu getið en þegar betur var að gáð kom í ljós að Ísland er efst á blaði þeirra þjóða sem tryggja konum mest og best formleg réttindi. Löggjöf okkar er um margt góð og ríkisstjórnin hefur gert framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. En þegar kemur að framkvæmdinni kemur babb í bátinn. Launamunur milli kynja er mikill og eykst með aukinni menntun. Konur vantar nær algjörlega í raðir stjórnenda fyrirtækja, fjármálastofnana og stjórnkerfis ríkisins. Konur eru fáar í röðum aðila vinnumarkaðarins hvort sem litið er til atvinnurekenda eða verkalýðshreyfingarinnar þótt heldur hafi ástandið skánað meðal hinna síðarnefndu. Hlutur kvenna í ríkisstjórn Íslands er með eindæmum og við horfum enn þá fram á það að náms- og starfsval kvenna er afar hefðbundið. Reyndar má hið sama segja um karla og ráða launamál þar miklu. Það er afar víða sem taka þarf til hendinni hvað varðar jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna til að konur sitji við sama borð og karlar jafnframt því sem bæta þarf réttindi karla svo sem til fæðingarorlofs og til að þeir geti betur komið til móts við þarfir heimila og barna.

Í könnun sem Jafnréttisráð lét Gallup vinna fyrir nýafstaðið jafnréttisþing kom í ljós að viðhorf fólks hefur breyst verulega, einkum meðal þeirra sem yngri eru. Fólki finnst sjálfsagt að konur afli sér menntunar og vinni utan heimilis en telja þó æskilegt að annað foreldra geti verið heima hjá ungum börnum. Bæði karlar og konur vilja sjá breytingar í átt til aukins jafnréttis.

Sú viðhorfsbreyting sem Sjálfstfl. vill hrinda af stað og gerði um samþykkt á sínum síðasta landsfundi er löngu hafin. Það er einkum meðal stjórnenda, stjórnvalda og eldri karla sem gamaldags viðhorf í garð kvenna og karla eru enn við lýði. Því til sönnunar vil ég vitna í skýrslu hæstv. félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð var fram hér á þingi síðasta vor en komst því miður aldrei til umræðu á Alþingi. Þar segir í kaflanum þar sem fjallað er um launamál, á bls. 11, með leyfi forseta:

,,Í viðtölunum kom fram að konur væru álitnar ótryggari starfskraftur og væru því síður ráðnar en karlar. Þetta var einkum skýrt með því að konur dyttu út af vinnumarkaði vegna barneigna og væru meira fjarverandi vegna veikinda barna.``

Þarna er eitt dæmi um viðhorf sem kom fram einkum hjá stjórnendum og þarf að breyta. Síðan segir á sömu bls., með leyfi forseta:

,,Ungir menn sem rætt var við töldu litlar líkur á að karlmenn gætu sinnt börnum og heimili í ríkara mæli fyrr en kynslóðaskipti hefðu orðið meðal stjórnenda, sem flestir hefðu mjög gamaldags viðhorf.``

Þetta var álit ungra karlmanna um viðhorf stjórnenda. Síðar segir á bls. 12 í þessari sömu skýrslu þar sem verið var að spyrja um viðhorf til jafnréttismála:

,,Flestir karlanna, einkum innan opinberu stofnananna`` --- nú bið ég hæstv. fjmrh. að hlusta --- ,,töldu slíka stefnu [þ.e. að gera jafnréttisáætlanir] með öllu óþarfa þar sem jafnrétti væri í fyrirrúmi. Konur væru farnar að sækja meira í stjórnunarstöður og því færi launamunur minnkandi. Niðurstöður könnunarinnar stangast þó á við þetta viðhorf þar sem mesti launamunur á körlum og konum er einmitt meðal stjórnenda og sérfræðinga. Konurnar töldu hins vegar flestar mikilvægt að ákveðin jafnréttisstefna væri mótuð. Allmargir viðmælenda höfðu orð á því að erfitt væri að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði nema með því að auka ábyrgð karla á börnum og heimili og slíkt væri erfitt að gera nema með því að auka rétt þeirra til fæðingarorlofs.``

[15:15]

Hæstv. forseti. Það sem ég hef hér vitnað til tel ég vera mjög sterkt dæmi um skoðanir fólks á ástandi jafnréttismála. Annars vegar er kvartað yfir því að stjórnendur séu tregir í taumi og hamli breytingum. Hins vegar kemur í ljós að viðhorf bæði karla og kvenna, einkum þeirra sem yngri eru, eru á þá leið að fólk vill sjá breytingar. Það sýnir og sannar að breyta þarf viðhorfum meðal ákveðinna þjóðfélagshópa. En fyrst og fremst skortir á pólitískan vilja til þess að hrinda lögum í framkvæmd og að fylgja því eftir sem Alþingi hefur samþykkt og íslensk stjórnvöld skrifað undir til að mynda í samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum og framkvæmdaáætluninni frá Peking 1995 þar sem kveðið er á um aðgerðir sem grípa þarf til til þess að bæta rétt kvenna.

Síðasta vetur voru íslensk stjórnvöld kölluð fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem kannað var hvernig þau standa við þessa samninga sem ég minntist á. Í fyrrnefndri skýrslu sem jafnréttisráðherra lagði fram og við höfum tekið fyrir í félmn. er vikið að ýmsum þáttum, bæði því sem jákvætt má telja og hinu sem þarf að bæta. Þar er vakin sérstök athygli á því, sem við verðum nú að telja eitt okkar stærsta vandamál, sem er staða launamála og það mikla og óþolandi launamisrétti kynjanna sem hér viðgengst. Við það er gerð afar sterk athugasemd.

Jafnframt vil ég nefna að í fyrirspurn, sem ég lagði fram í fyrra varðandi úttekt á barnasáttmálanum og hvernig Íslendingar stæðu við hann, kom líka fram athugasemd frá nefnd Sameinuðu þjóðanna sem varðaði það atriði hve launamisrétti hér á landi bitnaði á börnum, ekki síst börnum einstæðra mæðra. Það er alveg ljóst að í þessum efnum eru gerðar athugasemdir við stöðuna og nefnd Sameinuðu þjóðanna sem áður lét álit sitt í ljós komst svo að orði að hér væri nánast um mannréttindabrot að ræða og ég tek svo sannarlega undir það.

Hér skortir mjög á að lögum sé framfylgt og að við stöndum við þá samninga sem við höfum gert og snerta stöðu kvenna og jafnrétti kynjanna. Það vekur auðvitað upp spurningar um hvað hægt er að gera. Við sjáum einmitt dæmi um það þessa dagana að Reykjavíkurborg hefur tekið mikið og sterkt frumkvæði í jafnréttismálum. Þar hefur verið gerð launakönnun. Þar er verið að skikka allar stofnanir til að gera jafnréttisáætlanir. Þar hafa stjórnendur verið teknir á námskeið til að vekja athygli þeirra á því hver þeirra skylda er og það er meiningin að taka á launamálum borgarinnar. Konur hafa markvisst verið ráðnar í áhrifastöður eða stjórnunarstöður hjá borginni þannig að þetta sýnir og sannar að það sem fyrst og fremst skortir eru aðgerðir og pólitískur vilji. Og mín stóra spurning til hæstv. félmrh. er um þennan pólitíska vilja. Hvernig ætlar hann að fylgja eftir lögum og samþykktum þannig að við komumst úr þessu fari sem við erum að hjakka í á mörgum sviðum? Hvað ætlar hann að gera til þess að fylgja málum eftir?

Fyrsta spurning mín til hæstv. félmrh. er sú hvort að fyrirhuguð er úttekt á áhrifum jafnréttislaganna og þar með að fram fari mat á því hvernig og hvort þurfi að styrkja þau.

Í öðru lagi fýsir mig að vita hvort fyrirhuguð er heildarendurskoðun á jafnréttislögunum. Ég þykist vita að hæstv. félmrh. hefur það í huga og væri forvitnilegt að fá fram í hvaða átt sú endurskoðun á að stefna.

Á nýafstöðu jafnréttisþingi komst hæstv. félmrh. einhvern veginn þannig að orði að hann hefði nú ekki mikla trú á því fyrirbæri sem kallað hefur verið jákvæð mismunun og er reyndar mjög slæm þýðing. Ég vildi miklu frekar að við töluðum um jákvæðar aðgerðir eða hvetjandi aðgerðir eins og er hin raunverulega þýðing á þessu hugtaki úr ensku og getur auðvitað náð bæði til karla og kvenna. Ég spyr hæstv. félmrh.: Telur hann þá aðferð að grípa til sérstakra aðgerða úrelta eða óréttlætanlega? Í því samhengi vil ég minna á að konur í Noregi hafa náð sínum mikla árangri ekki síst með því að þar hafa verið samþykktir kvótar, sem hafa tryggt að hlutur kvenna er þar mun betri en víðast hvar annars staðar þó reyndar hafi konur í Svíþjóð náð enn þá lengra.

Ég vil einnig spyrja hæstv. félmrh. hvernig hann ætlar að fylgja eftir hinum fjölmörgu samþykktum jafnréttisþings en í samþykktum þingsins er að finna ýmiss konar hvatningu til stjórnvalda m.a. varðandi fæðingarorlof, náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, endurskoðun aðalnámskrár, varðandi ofbeldi, framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum o.fl. sem ég hef ekki tíma til að tíunda hér. Hvernig ætlar ráðherrann að fylgja þessum samþykktum eftir? Og einnig hvernig ætlar hann að fylgja eftir þeirri samþykkt sem jafnréttisráðherrar Norðurlandanna gerðu hér á fundi í vor þess efnis að það bæri að flétta jafnréttissjónarmið inn í alla ákvarðanatöku? Þetta er það sem hefur verið kallað ,,mainstreaming`` á ensku. Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að framkvæma þetta?

Ég spyr ráðherrann einnig: Hvar er jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar stödd að hans mati? Það var lögð fram skýrsla hér sl. vor sem ég hef vitnað til en mig fýsir að vita hvort ráðherran er ánægður með stöðu mála og hvernig ætlar hann að sjá til þess að henni verði betur fylgt eftir. Ég vil nefna það sérstaklega og taka sem dæmi þar sem greint er frá þessu að þar segir t.d. landbrn., sem hefur tekið á sig ýmsar skuldbindingar, að þar hafi ekkert verið gert, ekki neitt. Ég hef hér í höndunum jafnréttisáætlun frá hollenska landbúnaðarráðuneytinu sem m.a. sýnir það hvað ráðuneyti geta gert í þessum málum.

Ég vil líka spyrja ráðherrann hvað líður aðgerðum til að draga úr launamun kynjanna og þeirri tilraun sem fyrirhuguð er til starfsmats í samvinnu borgar og ríkis og fyrirtækja. Hver er skoðun hæstv. félmrh. á því að flytja jafnréttismálin yfir til forsrn. eins og sjálfstæðismenn vilja?

Og loks lokaspurning, hæstv. forseti. Hvað (Forseti hringir.) þykir hæstv. félmrh. brýnast að gera í jafnréttismálum hér og nú?