Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 15:53:28 (750)

1996-11-04 15:53:28# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[15:53]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir þessa umræðu og tel það vel við hæfi að nýloknu jafnréttisþingi og 20 ára afmæli jafnréttislaganna að meta stöðuna, líta yfir farinn veg og e.t.v. að velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að leggja nýjar áherslur í framtíðinni.

Það má segja að jafnréttisumræða síðustu áratuga hafi einkennst af tveimur megináherslum. Í fyrsta lagi hefur verið unnið mikið starf á sviði lagasetningar og regluverks þar sem leitast hefur verið við að tryggja jafnrétti kvenna og karla á sem flestum sviðum þjóðlífs. Má segja að því verki sé að mestu lokið ef frá eru skilin ákvæði laga um fæðingarorlof þar sem karlar búa við ákveðna mismunun. Alltaf má þó betrumbæta reglurnar sem fyrir eru, einkum ef reynsla þeirra og beitingin fyrir dómstólum sýnir fram á að þörf sé á endurbótum.

Í öðru lagi hefur jafnréttisumræðan undanfarin ár snúist um leiðir til þess að breyta viðhorfum sem ríkjandi eru um hlutverk karla og kvenna og sem ýta undir misrétti. Ég vil taka það sérstaklega fram að slagorðið ,,viðhorfsbreytingar er þörf`` er ekki fundið upp af sjálfstæðum konum í Sjálfstfl. eins og ætla mætti af umræðunni undanfarið ár, heldur hefur þessi staðreynd verið ljós öllum þeim sem hafa leitt hugann að jafnréttismálum og stöðu kvenna í samfélaginu á öldinni sem nú er að líða.

Margt hefur óneitanlega áunnist frá því að rödd kvenréttindakvenna fór að heyrast upphátt á Íslandi í upphafi aldarinnar. Þá snerist umræða um jafnréttismál fyrst og fremst um stjórnmálaleg réttindi kvenna og Kvenréttindafélag Íslands var t.d. beinlínis stofnað í kringum það baráttumál árið 1907. Konur fengu síðan kosningarrétt árið 1915 og önnur réttindi fylgdu í kjölfarið.

Segja má að þrátt fyrir það sem áunnist hefur á lagalega sviðinu sé enn nokkuð langt í land með að staða kvenna og karla se jöfn. Kynbundið launamisrétti er staðreynd sem erfiðlega hefur gengið að útrýma, karlar njóta ekki réttar til að taka fæðingarorlof. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og í stjórnmálum bendir til að þar halli verulega á konurnar og við höfum nýlega fengið að heyra niðurstöður könnunar þar sem kemur fram að meginábyrgð á fjölskyldu og uppeldi barna hvílir enn á konum sem þýðir einfaldlega að þær hafa minni möguleika á að láta til sín taka á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Hins vegar er ástæða til ákveðinnar bjartsýni því að kannanir sem hafa verið gerðar á viðhorfum fólks til kynjanna og hlutverka kynjanna benda til þess að þar séu viðhorf yngra fólksins mun meira í jafnréttisátt en þeirra sem eldri eru sem túlka má sem svo sem viðhorfsbreytingin sé að eiga sér stað. En spurningin er kannski sú hvert við eigum að beina athyglinni á komandi árum. Ég tel eitt mikilvægasta verkefnið í jafnréttisbaráttunni vera að fara vandlega yfir þær skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist um jafnrétti og meta á hvern hátt þeim hefur verið framfylgt og vinna síðan að endurbótum þar á. Þar hef ég grun um að ýmislegt vanti upp á að þeim skuldbindingum sé komið í framkvæmd í raun.

Annað mikilvægt verkefni er að gera rannsóknir á stöðu kvenna og karla í samfélaginu og nota slíka niðurstöðu sem grundvöll að nýrri stefnumótun til að koma á viðhorfsbreytingunni margumræddu. Það þýðir lítið að henda peningum í að auglýsa breytt viðhorf ef viðhorfin eru ekki þekkt og ef markhópurinn er óljós. Þannig ræðst maður ekki til atlögu við sjúkdóma. Maður byrjar á greiningu, síðan koma aðgerðir þar sem ráðist er á meinið.

Ef horft er til skuldbindinga stjórnvalda sem tengjast jafnréttismálum, þá ber kannski hæst jafnréttislöggjöfina sjálfa, en einnig hafa íslensk stjórnvöld skyldur að þjóðarétti á þessu sviði.

Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna leggur t.d. mikla aðgerðaskyldu á stjórnvöld sem felst m.a. í því að tryggja konum og körlum jafna stöðu, ekki aðeins að forminu til heldur einnig í framkvæmd, þar með talið fyrir dómstólum landsins. Í 3. gr. sáttmálans er eftirfarandi ákvæði, með leyfi forseta:

,,Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á öllum sviðum, sérstaklega á sviði stjórnmála, félagsmála, efnahags- og menningarmála, þar á meðal með lagasetningu, til þess að ábyrgjast fulla þróun og framfarir til handa konum í þeim tilgangi að tryggja að þær geti á grundvelli jafnréttis við karla framfylgt og notið mannréttinda og grundvallarfrelsis.``

Í 4. gr. er síðan tekið fram að sérstakar bráðabirgðaráðstafanir, sem miða að því að flýta fyrir að raunverulegu jafnrétti karla og kvenna sé náð, skuli ekki teljast mismunun þannig að það er viðurkennt að stjórnvöld geti haft aðgerðaskyldu og að þau eigi að hafa aðgerðaskyldu og beita aðgerðum.

Þegar horft er á það hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn og því miður allir forverar hennar hafa valið t.d. ráðherra er augljóst að þar hefur konum verið mismunað. Það leyfir sér enginn stjórnmálaflokkur í siðmenntuðu þjóðfélagi í dag að stilla upp ríkisstjórn með níu körlum og einni konu nema á Íslandi.

Við getum litið til nýskipaðrar ríkisstjórnar Noregs og til annarra Norðurlanda um dæmi og meira að segja standa menn sig mun betur í því sem ég vil kalla sjálfu vígi karlrembunnar, í Frakklandi. En þar er hlutur kvenna mun betri en hér á landi. Ég vil taka undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að engum árangri verður náð nema stjórnvöld axli ábyrgð og beiti sér fyrir aðgerðum. Má þar vísa til góðs árangurs slíkra vinnubragða á Norðurlöndum og reyndar tel ég að slík skylda hvíli nú þegar á ríkisstjórninni samkvæmt fjölda alþjóðasamþykkta og áætlana sem við erum bundin af.

Auk kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna má minna á samstarfsáætlun Norðurlanda í jafnréttismálum 1995--2000 og jafnréttisáætlun ESB, sem Íslendingar eru nú aðilar að í fyrsta skipti, Peking-áætlunina og samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, svo eitthvað sé nefnt sem snýr að þessum málaflokki. Það gengur ekki endalaust að tala um hlutina. Það eru aðgerðirnar sem skipta máli og þær skortir. Þar hvílir mikil ábyrgð á stjórnvöldum, ekki síst við skipan í embætti, nefndir og ráð á vegum stjórnvalda. Við höfum dæmi um jafnréttisstefnu í reynd hjá R-listanum í Reykjavík þar sem jafnréttissjónarmiðið einkennir allar ráðningar í stöður og nú þegar eftir aðeins tveggja ára setu í borgarstjórn hefur R-listinn ráðist í að kanna umfang launamisréttis hjá borginni og áætlaðar eru leiðir til úrbóta. Sjálfstfl. beið þar eftir hinni frægu viðhorfsbreytingu í áratugi og launamisréttið blómstraði á meðan stjórnendur borgarinnar neituðu að takast á við vandann.

Íslenska ríkisstjórnin mætti taka þessi vinnubrögð til fyrirmyndar og sýna meintan vilja sinn í verki með því að fela konum fleiri sæti en eitt í ríkisstjórninni, eins og venja stendur orðið til hér á landi, með því að fela konum embætti á borð við forstjóra ríkisstofnana, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra o.s.frv., með því að skipa þær seðlabankastjóra og fela þeim ábyrgð með þátttöku í nefndarstörfum á vegum ríkisins í mun meira mæli en verið hefur.

Beri hv. ríkisstjórn því við að hún viti ekki um konur sem vilja gegna slíkum stöðum, eins og maður heyrir mjög oft, þá býðst ég hér með til að finna þessar konur því ég þekki þær og ég veit að þær eru til.