Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:06:13 (752)

1996-11-04 16:06:13# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:06]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir að það er leitt hvað það tala fáir karlmenn í þessari umræðu. Hér tala að mestu leyti konur og þær virðast vera sammála um flesta hluti sem eru ræddir hér í dag. Þær eru sammála um að staða jafnréttismála er slæm. Það er staðreyndin.

Hins vegar er ýmislegt jákvætt að gerast sem mig langar að koma inn á. Það er að sjálfsögðu jákvætt að konum hefur farið hægt og sígandi fjölgandi í stjórnunarstöðum, bæði í atvinnulífinu og í stjórnmálum. Að vísu gengur allt of hægt en það er í áttina. Hér hefur verið komið inn á að það sé algjör hörmung að það sé einungis ein kona ráðherra. Það er að sjálfsögðu rétt. En lítum á hvað sú kona hefur verið að gera, hæstv. heilbrrh. Hún hefur t.d. verið að stórauka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Hún er komin samkvæmt síðustu rannsókn vel yfir 40% hlutfallið. Trúlega er það hlutfall nú að nálgast 50% vegna þeirra sem hæstv. heilbrrh. hefur skipað í nefndir og ráð í sínu ráðuneyti. Það er ekki lítið ráðuneyti sem hæstv. heilbrrh. er með. Það eru 40% af fjárlögum ríkisins innan þess. Þarna eru konur komnar upp undir helming í nefndir og ráð. Þetta er að sjálfsögðu afar jákvætt. Það er líka jákvætt hvað karlmenn hafa, þó þeir treysti sér ekki til að taka þátt í umræðunni hér í dag, verið að taka meira á jafnréttismálunum. Þá á ég við að þeir eru farnir að krefjast þess nú að fá sjálfstætt fæðingarorlof sem er auðvitað mjög jákvætt. Ég veit að ríkisstjórnin er að skoða það mjög alvarlega núna að bjóða upp á sjálfstætt fæðingarorlof fyrir karlmenn.

En það eru mörg neikvæð atriði í jafnréttisumræðunni. Þar ber helst að nefna launamun kynjanna. Það er rétt sem kom fram hér í dag að það er svokallað bókstafsjafnrétti á Íslandi. Það er jafnrétti í lögunum en ekki í reynd. Hvað stendur í lögunum í sambandi við launamun og laun kynjanna? Það stendur að það eigi að greiða konum og körlum sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Það stendur ekki að það eigi að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu. Það stendur ekki. Það stendur: Sömu laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þá kemur spurningin: Hvað í ósköpunum er þetta: Jafnverðmæt og sambærileg störf? Það eru fáir sem hafa svar við því. En það er einmitt verið að skoða starfsmat núna eins og fram hefur komið og starfsmat er að sjálfsögðu tæki til að mæla og vigta störf, til að geta sagt hvað sé sambærilegt og hvað sé jafnverðmætt. Það er von okkar sem stöndum að vinnu í sambandi við kynhlutlaust starfsmat að það geti leitt til góðrar niðurstöðu og að verulegu leyti minnkað launamun kynjanna.

Það er einnig neikvætt hvað fáar konur hafa, eins og fram hefur komið, valist til áhrifa, bæði í fyrirtækjum, ábyrgðarstöðum úti í þjóðfélaginu, embættismannakerfinu og í stjórnmálum. Það hefur líka verið komið inn á viðhorfsbreytingu. Að hún sé ekki komin. Gagnvart konum í stjórnmálum held ég að viðhorfsbreytingin sé komin. Hún er komin. En kosningalöggjöfin leyfir okkur ekki að njóta þeirrar viðhorfsbreytingar sem er komin. (Gripið fram í.) Við getum séð t.d. að eins og kosningalöggjöfin er í dag þá komast oftast bara einn til tveir eða þrír þingmenn inn í hverju kjördæmi af hverjum lista. Og það eru karlmenn sem skipa efstu sætin. (Gripið fram í.) Og af því það komast svona fáir inn þá komast konurnar ekki inn á Alþingi í eins ríkum mæli og þær ættu að koma. En á þeim listum þar sem fleiri komast inn, eins og í Reykjavík og á Reykjanesi, hafa konurnar frekar komist að. (Gripið fram í: Fjölga þingmönnum.) Við getum skoðað það að ef við breytum kosningalöggjöfinni, t.d. með því að gera landið að einu kjördæmi, er alveg öruggt að ef listum yrði raðað upp af stjórnmálaflokkum mundi Sjálfstfl. ekki raða upp fjórum konum í efstu 25 sætin. Framsókn mundi heldur ekki raða upp þremur konum í efstu 15 sætin. Það er þetta sem ég er að tala um. Viðhorfsbreytingin er komin fram en kosningalöggjöfin leyfir þessari viðhorfsbreytingu ekki að njóta sín. Því miður erum við föst í gamla kerfinu.

Mig langar líka að lokum, herra forseti, að koma inn á skólakerfið af því að rætt var um það áðan. Skólakerfið hefur því miður ekki staðið sig nógu vel í jafnréttisfræðslunni. Það stendur að skólar eigi að gæta þess að jafnréttis sé gætt. En nýleg rannsókn sem hefur farið fram á vegum menntmrn. hefur sýnt að í grunnskólakerfinu er ekki í 85% tilfella farið í neina markvissa jafnréttisfræðslu. Í framhaldsskólunum er það í tæplega 90% tilfella sem skólarnir hafa ekki markvissa jafnréttisfræðslu. Það ber að sjálfsögðu að taka á þessu af því að við vitum að fólk mótast mest í skólakerfinu.