Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:11:30 (753)

1996-11-04 16:11:30# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegur forseti. Það er einfalt hvað brýnast er að gera í jafnréttismálum kynjanna. Það er að fara frá orðum yfir til athafna. Við höfum jafnréttislög sem við höfum búið við í 30 ár sem segja skýlaust að launamisrétti hér á landi er bannað. En þau eru þverbrotin og engin lög eru jafnmikið brotin og jafnréttislögin. Við höfum alþjóðasamþykktir sem kveða m.a. á um launajafnrétti kynjanna. Við þverbrjótum hverja alþjóðasamþykktina á fætur annarri í þessu efni. Við höfum gert framkvæmdaáætlanir til að ná fram jafnrétti kynjanna og það er sorgleg lesning að lesa það í skýrslu sem var lögð fram á Alþingi í maí 1996 að nánast engu hefur verið framfylgt af þessum áætlunum. Jú, í félmrn. að töluverðu leyti, en í þessari skýrslu --- það er farið yfir öll verkefnin --- segir yfirleitt: ,,Framkvæmd ekki hafin.`` ,,Upplýsingar liggja ekki fyrir.`` ,,Áætlanir liggja ekki fyrir.`` O.s.frv. Ég skora á félmn. og formann hennar, sem er málshefjandi, að taka fyrir þessa skýrslu ráðuneyti fyrir ráðuneyti og kalla þá alla inn á teppið til að fara yfir þessi atriði í framkvæmdaáætluninni. Það er það eina sem dugar til þess. Þeir hafa eitt ár núna til að framfylgja þessari áætlun. Látum þá nýta þetta ár til þess að framkvæmdaáætlunin komist í gagnið. Þetta er dæmi um það hvernig framkvæmdarvaldið hunsar vilja Alþingis sem kemur fram í framkvæmdaáætluninni.

Ég spyr líka: Væri það ekki verkefni fyrir félmn. að fara yfir 3. gr. jafnréttislaganna sem heimilar sértækar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna? Þetta ákvæði hefur ekki verið notað. Það var byrjað að skoða það í tíð minni sem félmrh. Ég tel að þingið eigi að skoða hvort ekki sé hægt að ná samstöðu um það hvernig hægt er að beita 3. gr. jafnréttislaganna.

Síðan eru það kjarasamningarnir sem eru fram undan. Mér finnst verkalýðshreyfingin hafa verið allt of stikkfrí í launamálum við að jafna launamun kynjanna. Hún skýlir sér á bak við það að ekkert misrétti sé í þeim töxtum sem hún semur um en lítur algjörlega fram hjá því og lokar augunum fyrir því að það segir ekki nema hluta sögunnar. Við vitum að launamisrétti felst í duldum greiðslum og hlunnindagreiðslum sem eru alltaf undir borðið. Þess vegna bíð ég eftir því hvort verkalýðshreyfingin taki nú á málinu og verði við þeirri áskorun sem kom frá jafnréttisþingi um að málið verði sérstaklega tekið upp í kjarasamningum. Það snýr auðvitað líka að ríkisvaldinu og fjmrh. sem er einn stærsti atvinnurekandinn. Hið opinbera hefur nefnilega ákveðnar skyldur í þessum málum, þær skyldur að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég spyr hæstv. félmrh.: Mun hann beita sér fyrir því og beita sér þá gagnvart fjmrh., að það verði tekið á launamisréttinu hjá hinu opinbera í komandi kjarasamningum? Við höfum það fyrir okkur að kynbundinn launamismunur er 11--16%. Það ætti því að vera hægt að taka á þessu. Starfsmatið sem menn horfa nú mikið til er góðra gjalda vert. Hvenær liggur það fyrir? Væri hægt að nota það núna í komandi kjarasamningum?

Það hefur verið hreyft hugmynd sem lýtur að 3. gr. jafnréttislaganna, sem ég nefndi áðan, um að beita sérstökum tímabundnum aðgerðum til að bæta stöðu kvenna. Hvað með ákveðna forgjöf í launamálum sem hefur verið nefnd til þess að jafna launamuninn? Er það atriði sem væri rétt að skoða í kjarasamningunum? Þó að við höfum gert framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna, þó við höfum gert jafnréttisáætlanir í stofnunum, þó við höfum skýlausa löggjöf þá miðar mjög hægt í þessu máli. Ég veit að þetta mál er ekki auðvelt viðfangs. Ég hef setið sem félmrh. Ég kom á þessum jafnréttisáætlunum, kom á þessum framkvæmdaáætlunum, skerpti ákvæðið í jafnréttislöggjöfinni. En allt kemur fyrir ekki. Það virðist ekkert duga. Það er sama hvað gert er í þessum málum. Ég beini því til félmn. að fara sérstaklega yfir þessa skýrslu. Nota nú ákvæðið í þingsköpum og skila skýrslu um þetta til Alþingis þannig að hægt sé að taka á málinu. Ég skora á verkalýðshreyfinguna, ég skora á ríkisstjórnina og ekki síst fjmrh. að í komandi kjarasamningum verði sérstaklega tekið fyrir launamisrétti kynjanna. Verkalýðshreyfingin getur ekki verið stikkfrí í þessu máli og ekki heldur stærsti vinnuveitandinn, fjármálaráðherrann.