Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:47:19 (760)

1996-11-04 16:47:19# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:47]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hér hefur gríðarlega margt komið fram sem vert er að taka á og kannski fyrst það sem fram kom í máli hv. þm. Péturs Blöndals að í eðli sínu snýst barátta kvenna náttúrlega um það að þær geti notið sín sem einstaklingar, að hver einstaklingur geti notið sín og að konur séu ekki hamlaðar af lögum, hefðum og reglum og geti valið sér þann lífsfarveg sem þær vilja. En þær eru beittar ýmiss konar misrétti og verða fyrir mótlæti af ýmsu tagi, m.a. vegna viðhorfa. Það er hárrétt að viðhorfum þarf að breyta en viðhorfsbreytingin er hafin. Hún hefur orðið vegna þess að það hafa átt sér stað miklar umræður og það hefur verið gripið til aðgerða en betur má ef duga skal. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að beina því til okkar í félmn. að fylgja skýrslu ráðherra eftir og að kalla ráðuneytin inn á teppið. Við í félmn. höfum farið yfir þessa skýrslu og það var margt sem vakti athygli okkar en vissulega væri þörf á því að fylgja skýrslunni eftir vegna þess, hæstv. forseti, að staðan er einfaldlega þannig að ráðuneytin virða verkefni sín í jafnréttismálum á mjög mismunandi veg.

Ég nefndi landbrn. fyrr í ræðu minni þar sem staðan er sú að ef litið er á nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins að aðeins í 2% þeirra sitja konur. Það vill svo til að ég var á fundi með þessum 2% norður í landi því það er bara ein kona. Af því að hæstv. landbrh. er hér staddur ber vel í veiði að taka ráðuneyti hans sérstaklega. Það þarf verulega að taka sig á og ég vil sýna landbrh. þennan pappír sem ég vona að hann hafi séð frá hollenska landbúnaðarráðuneytinu sem er dæmi um jafnréttisáætlun ráðuneytis þar sem markmiðin eru skýrð og hér er langur listi yfir aðgerðir sem á að grípa til á vegum ráðuneytisins. Þetta er það sem er að gerast í flestöllum löndum og mér vitanlega eiga öll ráðuneytin eftir að gera þetta hér eins og þeim ber skylda til.

Ég vil líka nefna annað ráðuneyti sem er forsrn. sem skipaði nefnd fyrir nokkrum mánuðum sem átti að skoða framtíð Íslands í upplýsingaþjóðfélaginu. 20 manna nefnd forsrh. tók jafnréttismálin á dagskrá á landsfundi Sjálfstfl. og nefndina skipuðu 18 karlar og 2 konur, nefnd sem átti að skoða framtíð Íslands í upplýsingaþjónustunni. Þannig er hugarfarið því miður. En eins og hv. þingkonur Framsfl. hafa komið inn á er svo greinilegur munur hvað gerist þegar konur taka sæti sem ráðherrar og hafa vilja til þess að breyta þá verður auðvitað gagnger breyting. Ráðuneyti Ingibjargar Pálmadóttur sker sig algerlega úr og þetta ættu aðrir ráðherrar að hugleiða og taka hana sér til fyrirmyndar og að framfylgja þeim lögum sem gilda í landinu.

Aðeins var minnst á fjölskyldustefnu og ég get tekið undir að að sjálfsögðu þarf að móta fjölskyldustefnu og að gera vinnumarkaðinn, skólana og leikskólana þannig úr garði að þeir auðveldi fjölskyldum lífið og um leið og þær eru góðar stofnanir fyrir börn. En þetta er ekki aðeins spurning um fjölskyldur. Fjölskyldur eru af margvíslegu tagi og það þarf að sinna þeim öllum. Þetta er líka spurning um einstaklinga. Við megum ekki gleyma því að í stórum hluta fjölskyldna hér á landi er aðeins einn fullorðinn. Það eru fjölskyldur. En það eru líka mörg heimili þar sem eru fleiri fullorðnir, eingöngu fullorðnir, foreldrar með börnum. Fjölskyldan er svo gríðarlega breytt í samfélagi okkar eins og annars staðar.

Það var líka minnst á skólana og menntunina. Við skulum ekki gleyma því þó svo að menntunin hafi ekki skilað konum endilega hærri launum þá hefur hún skilað okkur miklum lífsgæðum og miklum möguleikum og það er ein sú mesta bylting sem hér hefur orðið hvað konur hafa sótt fram í menntun sem gefur þeim möguleika að bæta líf sitt.

En mergurinn málsins er þessi, hæstv. forseti. Við höfum lög og reglur, við höfum alþjóðlega sáttmála sem við eigum að standa við. Ég var svolítið undrandi að hlusta á hv. 4. þm. Austurl. sem virtist vera hálfargur yfir því að verið væri að gefa þennan sáttmála út núna og mikið verið að hampa honum en það var ekki gert þegar hann lagði fram tillögu 1985. Ég held að skýringin á því sé einfaldlega sú að árið 1985 hafi menn talið að þessi sáttmáli kæmi okkur ekkert við. Hér væri allt í himnalagi alveg eins og kemur fram í skýrslu jafnréttisráðherra, hæstv. félmrh., um stjórnendur í stofnunum sem ég vitnaði til áðan sem sögðu að jafnréttisáætlanir væru óþarfar af því að jafnrétti væri í fyrirrúmi. Ég hygg að sú skoðun sé því miður ansi víða að allt sé í himnalagi og þurfi lítið að gera en við vitum betur þó að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagt sem svo að hér væri ekki um að ræða misrétti milli kynjanna heldur mirétti milli einstaklinga. Það gæti þá verið kona með betri stöðu annars vegar og karl með verri stöðu. Auðvitað er mismunur ekki eingöngu kynjamismunur. Það er mismunur milli stétta, hópa o.s.frv. En allar félagslegar athuganir sýna að hér er munur, hér er gerður greinarmunur á fólki sem er ekki hægt að skýra með neinu öðru en kynferði. Það er hinn félagslegi veruleiki.

Hæstv. forseti. Tíma mínum er lokið en mig langar í lokin að taka undir þau ummæli frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrv. forseta Íslands, sem voru höfð eftir henni í tímariti, þess efnis að þar sem konur sitja ekki við sama borð og karlar við ákvarðanatöku í samfélaginu ríkir ekki lýðræði. Lýðræðið verður því aðeins virkt að kynin tvö standi jafnt að vígi og komi jafnt að mótun samfélagsins og þeirri ákvarðanatöku sem þar fer fram.