Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:55:40 (761)

1996-11-04 16:55:40# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ánægjulegar umræður. Hér hefur fólk talað af yfirvegun og lítið verið um ergelsi. Ég bendi á að ráðherrar eru ekki fullkomlega sjálfráðir að því hvernig þeir skipa nefndir. Langflestar nefndir eru skipaðar samkvæmt tilnefningu og venjulega ræður ráðherrann einum eða í besta falli tveimur í nefndinni. Ég hef stundum brugðið á það ráð, ég vil vekja athygli á því, að óska eftir tveimur tilnefningum þegar ég er að biðja um tilnefningar í nefndir.

Menn hafa með réttu deilt á ríkisstofnanir og ráðuneytin fyrir að sinna ekki framkvæmd jafnréttismála með skilvirkum hætti. Á sl. vetri boðaði ég ásamt Jafnréttisráði til fundar með ráðuneytisstjórum og yfirmönnum ráðuneyta og forstöðumönnum ríkisstofnana til þess að ræða jafnréttis\-áætlanir í viðkomandi stofnunum og sá fundur tókst að mínu mati vel. Ég mun fylgja því eftir með frekari fundahöldum af þessu tagi.

Ég átti mörgum spurningum eftir ósvarað og ég ætla að reyna að koma að þeim. Ein spurningin var hvar jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar er stödd. Er ráðherra ánægður með frammistöðu ráðuneytanna? Ég er ekki ánægður með frammistöðu ráðuneytanna og ég tel að það þurfi að gera miklu betur. Ég hef nýlega skipað nefnd til að gera tillögur um með hvaða hætti stjórnvöld geti framfylgt framkvæmdaáætlun ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, Peking-ráðstefnunni, í fyrra. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta sem og Jafnréttisráðs og ég vænti þess að störf hennar muni skila nýjum hugmyndum í nýja framkvæmdaáætlun jafnframt því sem þau hafi örvandi áhrif innan ráðuneytanna í jafnréttismálum. Ég mun einnig ræða nýja áætlun í jafnréttismálum í ríkisstjórninni þegar þar að kemur.

Spurt var hver væri skoðun mín á því að flytja jafnréttismálin yfir til forsrn. Með fullri virðingu fyrir forsrn. tel ég þessum málaflokki betur fyrir komi hjá félmrn., m.a. vegna þess að fjölskyldumál heyra undir það ráðuneyti. Mér er auk þess sérstök ánægja að því að vinna að jafnréttismálum. Þar eru mikil verkefni fram undan, þar eru möguleikar á að ná raunhæfum árangri og meðan ég er félmrh. þá mun ég, herra forseti, leggjast gegn því að flytja þennan málaflokk.

Fyrirspyrjandi spurði hvað ég teldi brýnast að gera í jafnréttismálum. Ég átti þess kost að mæta fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og fylgdi þar eftir skýrslu sem við lögðum fram og þar var yfirheyrsla. Þetta var mjög fróðleg upplifun og minnisstæð. Það kom í ljós eins og mönnum er vel kunnugt að þetta er í nokkuð góðu lagi hjá okkur. Það eru einkum tvö atriði sem stendur upp á að leysa og þau eru að leiðrétta þennan kynbundna launamun. Verkefnið um kynhlutlaust starfsmat á að geta skapað grundvöll til réttara gildismats á vinnuframlagi kynjanna og það er stórt skref til þess að fá rétta mynd af stöðunni og getur í framtíðinni orðið mjög mikilvægt tæki til þess að laga þessa mismunun.

[17:00]

Í öðru lagi stóð réttleysi sveitakvenna upp úr í mínum huga eftir að hafa kynnt mér athugasemdir sérfræðinganefndarinnar. Það er afar brýnt að leiðrétta það t.d. hvað varðar útilokun sveitakvenna frá því að þiggja atvinnuleysisbætur. Þá vil ég geta þess að í undirbúningi er að stofna sérstakan atvinnuleysistryggingasjóð fyrir einyrkja. Þar ætti að gefast tækifæri til þess að sveitakonur geti öðlast bótarétt. En það er reyndar margt fleira sem þarf aðgera. Það eru mörg brýn verkefni í jafnréttismálum og það hefur verið getið um þau í umræðunni þó að við hefðum að sjálfsögðu þurfti miklu lengri tíma til að ræða þessi mál til fullnustu. E.t.v. gefst okkur tækifæri til að ræða jafnréttismál undir dagskrárlið á morgun þar sem ég mun mæla fyrir fjölskyldustefnu.

Það þarf að bregðast við og eyða þeim mismun sem viðgengst í landinu með ákveðnum aðgerðum. En ég verð að endurtaka að það er ekki á valdi stjórnvalda einna, það þarf viðhorfsbreytingar. Það er alveg hérrétt sem hefur komið fram að viðhorf breytast ekki með því einu að óska eftir breytingum. Það þurfa að fylgja athafnir.