Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 18:06:36 (767)

1996-11-04 18:06:36# 121. lþ. 16.2 fundur 98. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[18:06]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram um frv. Eins og fram hefur komið hjá hv. þm., sem tekið hafa til máls, er sannarlega um stórt og viðamikið mál að ræða enda sýnir það sig kannski líka að það hefur tekið sinn tíma í meðferð þingsins þó að það kunni að vera rétt sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. að umhvn. sem slík hafi ekki gefið sér mikinn tíma til þess að vinna að þessu máli sérstaklega fyrir e.t.v. forgangsröðun eða áhersluatriði af hálfu ráðherra eða stjórnarmeirihluta um það hvaða mál hefðu forgang. Ég kem aðeins að því nánar á eftir.

Ég ætla fyrst að segja út af orðum hv. 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssonar, að það er rétt sem hann benti sérstaklega á að það þarf að skoða réttindamálin. Ég vil greina frá því að varðandi ákvæði til bráðabirgða sem breytt var í vor um raflagnahönnuði höfum við verið að fjalla um það mál í umhvrn. hvernig því máli verður skipað. Sérstakur starfshópur með aðild þeirra sem málið varðar vinnur að tillögugerð og því máli miðar vel. Ég vona að niðurstaða verði í því nú á næstu vikum eða fyrir áramót eins og gert var ráð fyrir en þar komu náttúrlega að bæði fulltrúar Rafiðnaðarsambandsins og tæknifræðinga, verkfræðinga, félags byggingafulltrúa og Skipulags ríkisins og síðan hefur komið beiðni frá iðnfræðingum sem hafa beðið um aðild að nefndinni líka og það verður einnig tekið tillit til þess og þeir hafðir með í ráðum. Ég vona að tekið verði á þessu máli eins og best getur farið og það á auðvitað við um aðra aðila sem svipað kann að vera háttað með og hv. þm. gerði að umræðuefni í ræðu sinni. Hann er ekki hér í salnum eins og er en hann hefur líka stöðu til þess að fylgja málinu eftir í umhvn. eins og hann benti á.

Ég vil lýsa ánægju minni með að hv. 4. þm. Austurl. er sammála mér og það er svo sem ekkert nýtt að hann hefur lagt áherslu á að þetta sé mikilvægt mál. Ég man eftir því í umræðum á síðasta þingi um störf umhvn. að það kom ítrekað fram í viðræðum mínum við hv. þm. að hann lagði áherslu á að þetta væri mikilvægt mál sem þyrfti að vinna fram og ég fagna því að mér virðist vera áhugi á því að afgreiða nú málið. Auðvitað þarf það sinn tíma og ég vil ekki að orð mín séu túlkuð þannig að ég setji tímaþvingun á þingið eða á hv. nefnd. Ég bið um að nefndin leggi sig fram um það að afgreiða málið eins hratt og mögulegt er. Mín ósk er sú að það gerist fyrir áramót. Þannig er frv. sett upp og með gildistöku 1. sept. 1997 og þess vegna væri mjög æskilegt að það kláraðist fyrir áramótin. Þetta er fyrsta málið sem ég mæli fyrir sem umhvrh. á þessu hausti þannig að þetta er væntanlega fyrsta málið sem berst frá ríkisstjórn til nefndarinnar svo að ég vil undirstrika að það er ekki annað mál í augnablikinu sem ég legg áherslu á að fái ítarlega og skjóta meðferð og framgöngu af hálfu nefndarinnar en þetta og bið þingmenn að hafa það í huga. Vissulega er rétt að í lok síðasta þings voru áherslur ráðherra með öðrum hætti. Ég ætla ekki að svara fyrir aðra eða fyrrv. ráðherra en ég lagði áherslu á það í lok seinasta þings að afgreiða önnur mál og það yrði þá að bitna á þessu þó ég hefði gjarnan viljað að það gæfist tími til þess að afgreiða það líka. En það er liðin tíð og þýðir ekki að tala um það mál heldur að við leggjum nú áherslu á að klára málið. Mikil áhersla er lögð á afgreiðslu málsins af hálfu sérstaklega sveitarstjórnaryfirvalda og ég vil undirstrika að það hefur verið gott samstarf við Samband ísl. sveitarfélaga og fulltrúa sveitarfélaganna við frumvarpsgerðina og stafar sjálfsagt að hluta til af því að það er verið er að færa ákveðin verkefni til þeirra sem þeir hafa fullan hug á því og vilja til þess að takast á við. Það vil ég að menn hafi í huga og undirstrika einmitt þann þáttinn sem einnig kom mjög fram í máli hv. 4. þm. Austurl.

Varðandi svæðaskipulagið og þá vinnu sem þar er í gangi ef ég kem aðeins fyrst að því og spurningum hv. þm. um viðhorf mitt til þess að taka á því máli með öðrum hætti en gert hefur verið þá vil ég segja, ef ég skildi orð hans rétt, að ég er sammála honum og ég tel alveg ótvírætt að það eigi ekki að breyta um stefnu í málinu í miðri á. Ég held að ég hafi skrifað það nánast þannig eftir hv. þm. og ég tel að við eigum að klára það mál í þeim farvegi sem það er, þ.e. þá tillögugerð sem þar er í burðarliðnum. Ég hef nýleg átt fund með formanni og starfsmanni nefndarinnar um svæðisskipulag á miðhálendinu og ég vonast til þess að það verði fljótt upp úr áramótum, að öllum líkindum því miður líklega ekki fyrir áramót héðan af, en það verði fljótt upp úr áramótum sem sú ágæta nefnd skilar inn tillögu sinni um svæðisskipulagið. Þá fer það auðvitað til umsagnar.

Ég verð að vitna til þess sem svar við spurningu hv. þm. um hverjir eigi aðild að málinu sem segir í lagatexta, með leyfi forseta: ,,íbúum og öðrum sem hagsmuna eigi að gæta á viðkomandi svæði``, að ég tel þegar segir hér íbúar og aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, hljóta íbúar að vera allir íbúar viðkomandi svæða og þeir sem hagsmuna eiga að gæta á viðkomandi svæði vera svo vítt að mér sýnist það ekki verða skilgreint öðruvísi en það geti átt við alla landsmenn í því efni. Ég leyfi mér að setja það fram sem skoðun mína og að sjálfsögðu verður þetta eins og fleira skoðað vel í nefndinni. Ég á ekki von á því að menn sjái tilefni til þess að þrengja þetta að málið varðar fjölmarga. Það vil ég líka undirstrika að sú nefnd sem nú er að störfum þó að það sé skilgreint í lögum hvernig hún er skipuð og hverjir sitja í nefndinni, hefur átt fundi með fjölmörgum öðrum aðilum sem hún telur að málið varði, eins og fulltrúum hinna ýmsu félagasamtaka sem njóta útivistar á miðhálendinu svo að ég nefni það sérstaklega. Hún hefur átt fund með fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem ekki eiga aðild að nefndinni og boðaði til fundar í Reykjavík ekki fyrir löngu. Að vísu má segja áhyggjuefni hvað þeim fundi var sýndur lítill áhugi eða fáir mættu á hann. Ég held að það hafi verið milli 80 og 100 aðilar sem voru boðaðir á þann fund en 11 eða 12 mættu. Það vekur þá spurningu eða umhugsun um það sem hv. þm. veltir líka fyrir sér hver er áhugi almennings fyrir málum af þessu tagi sem eru ekki í eðli sínu mjög vinsæl eða beinlínis fallin til þess að kalla eftir einhverju vinsældafylgi ráðherra eða þingmanna en eru afar mikilvæg mál og nauðsynlegt að fái afgreiðslu af hálfu löggjafans. (Gripið fram í.) Ég missti nú af þessu frammíkalli, virðulegi forseti, enda veit ég ekki hvort mér ber endilega að vera að svara þeim. Ég sé að forseti hristir höfuðið, enda er frammíkallið ekki áréttað.

[18:15]

Síðan spyr hv. þm. um hugsanlega breytingu á áframhaldandi málsmeðferð því gert er ráð fyrir því í 26. gr. sem fjallar um skipulag miðhálendis, að hægt sé að koma á laggirnar nefnd af þessu tagi. Ég lít svo á að ekki sé verið að tala um þá nefnd sem nú er að ljúka störfum. Spurningin er hvort hér á að vera föst nefnd eða hvort það á að vera hægt að grípa til þess á síðari stigum, þegar og ef upp koma mál sem þarf að taka á, að skipa nefnd með þessu formi sem hér er og þá er spurningin hverjir eiga að eiga aðild að slíkri nefnd.

Ég tel að nokkuð vel hafi til tekist með skipan þeirrar nefndar sem nú er að störfum eins og að henni hefur verið staðið og með þeim vinnubrögðum sem hún hefur viðhaft, hafi málsaðilar, þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta, átt möguleika á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég velti því mjög fyrir mér hvernig hefði verið hægt að skipa nefndina að öðru leyti, hvernig hefði átt að velja fulltrúa þessara svokölluðu hagsmunaaðila. Við vitum að það er fjöldinn allur af frjálsum félagasamtökum sem hafa afmörkuð áhugasvið. Ég veit ekki hvort ég að vera að telja þau upp, t.d. fjórhjólaklúbb, snjósleðamenn, skotveiðimenn, mörg ferðafélög og áhugamenn um ýmsa þætti náttúruverndarmála sem sjálfsagt geta talist hagsmunaaðilar eða áhugasamir málsaðilar í það minnsta. Ég veit ekki hvernig á að velja aðild þessara aðila að slíkri nefnd. Ég held að það sé torvelt mál. Hins vegar er nauðsynlegt að nefnd sem vinnur þessi verkefni leiti eftir álitum frá þessum aðilum. Ég segi líka að ég er ekki ósáttur við þá skipun sem er á nefndinni, þ.e. að þær héraðsnefndir eða sveitarfélög sem hlut eiga að máli skipi nefndina því að það má nefna að ef t.d. Hafnfirðingar eða Keflvíkingar ættu að eiga aðild að þessari nefnd, má þá ekki spyrja af hverju ættu t.d. ekki Akureyringar að eiga aðild að henni. Það er sjálfsagt hægt að svara því að það gerist í gegnum fulltrúa héraðsnefndar Eyjafjarðar. Þó er það e.t.v. álitamál hvernig það gerist. Hann ber jú sín mál síðan væntanlega undir héraðsnefndina, sá fulltrúi sem situr í skipulagsnefndinni. Við skulum ekki gera lítið úr því

Við getum tekið annað dæmi. Við getum tekið t.d. Þórshöfn eða Raufarhöfn sem vill svo til að eiga ekki aðild að nefndinni vegna þess að Norður-Þingeyjarsýsla á ekki land að miðhálendinu þannig að héraðsnefnd Norður-Þingeyinga á ekki fulltrúa í miðhálendisnefndinni. Er réttur þeirra þá ekki fyrir borð borinn? Ættu þeir ekki að eiga aðild að þessari nefnd eins og fulltrúar höfuðborgarsvæðisins sem mér finnst þó að hafi verið ofar í hugum manna í það minnsta en þessir þarna á norðausturhorninu eða Ísfirðingar svo ég nefni eitthvert annað sveitarfélag. En þetta er kannski ekki aðalmálið, ekki mál málanna. Mér finnst að við þurfum að velta því vel fyrir okkur ef væntanleg ný nefnd á að vera skipuð með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frv. Ég er tilbúinn til að hlusta á skoðanir eða sjónarmið í því efni, en ég er ekki með tillögur um annað form eða breytingar á því.

Hv. þm. spurði ofurlítið um 29. gr. og landsskipulagið. Það má e.t.v. til sanns vegar færa að þar sé ekki ítarlega um fjallað, enda held ég reyndar að landsskipulagið sé --- það má kannski segja að það sé ofurlítið ný hugsun í þessu ferli hjá okkur --- að það sé ekki fullmótað eða verulega mótað hvernig á að standa að þessum þáttum. Í greinargerð eða athugasemdum við 29. gr. segir svo sem ekki mikið meira en kemur fram í greininni sjálfri. Þar segir þó, með leyfi forseta:

,,Fjölmargar stofnanir á vegum ríkisins standa fyrir framkvæmdum sem ná til landsins alls og er því nauðsynlegt að samræmis sé gætt milli áforma um landnot slíkra framkvæmda og skipulagsáætlana sveitarfélaganna.``

Hér er því kannski fyrst og fremst um að ræða stefnumótandi hugmynd eða framkvæmd um að móta landsskipulagið, en hugmyndir eða útfærsla er ekki nákvæmlega skilgreind enn þá. Af þessu má kannski ráða að það sé spurning hvort það var tímabært að setja þetta inn í frv. öðruvísi en hafa á því skýrari skoðanir eða afstöðu til þess hvernig það eigi að byggjast upp. Þetta er sett fram svona og ég tel að það sé a.m.k. mikilvægt fyrsta skref sem með þessu móti er stigið í frv. og væntanlegum lögum. Og varðandi áhersluatriði um skipulagsstigin, get ég af því að ég var spurður sérstaklega um skoðun á því, tekið undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. þm. þó að ég telji ekki að það sé aðalatriði.

Ég sé, virðulegur forseti, að tími minn er alveg að hlaupa frá mér og ég er þó ekki farinn að svara hv. 15. þm. Reykv. miklu, en ég á einhverja smástund hugsanlega eftir til að koma aftur í ræðustól. Ég vil á þessum örfáu sekúndum sem eftir eru þakka honum fyrir undirtektir hans við málið í heild og mikilvægi þess að það nái fram að ganga. Ég tel að umhverfismatið þurfi betri tíma og hv. 4. þm. Austf. velti því fyrir sér líka hvort ekki væri tímabært að hefja á því endurskoðun. Ég held að að þessu frv. samþykktu og með þessi lög í höndum séum við mjög vel í stakk búin til að takast næst á við lög um mat á umhverfisáhrifum og hef boðað það eins og ég gerði í ræðu minni áðan að hefja endurskoðunarvinnu þannig að slíkt frv. gæti komið fyrir næsta þing. Þá getum við líka álitið að málið hafi fengið meiri reynslu en nú er. Og af því að hv. þm. 4. þm. Austf. sagði: ,,Eitt ár á nú að skapa reynslu.`` Eitt ár á ekkert nú að skapa reynslu. Það á að skapa viðbótarreynslu við þau tvö ár sem þegar eru liðin þannig að við höfum þrjú ár til þess að meta málið.

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að nýta tíma minn aftur til að svara nokkrum spurningum sem ég á ósvarað.