Lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:01:36 (773)

1996-11-04 19:01:36# 121. lþ. 16.3 fundur 80. mál: #A lífræn og vistræn framleiðsla íslenskra afurða# þál., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:01]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka umræður sem um mál hafa orðið og þakka jákvæðar undirtektir. Ég tel að málið eigi að geta gengið fram á þessum tíma, fram til ársins 2003. 20% markmiðið er nefnilega ekkert geysilega hátt markmið þar sem svo verulegur hluti framleiðslu á Íslandi er þegar orðinn vistrænn. Það er sitt hvað lífræn framleiðsla og vistræn framleiðsla. Það má t.d. segja að mikið af fiskeldi okkar sé vistrænt og það þarf einungis útfærslu á þeim málefnum til þess að það verði viðurkennt. Það má segja að íslenskt lambakjöt sé mjög nálægt því að vera vistrænt en það vantar mikið á að það sé lífrænt. Á því er verulegur munur og það er kannski töluvert í land með að svo geti orðið. En ég held að það sé ekkert fjarri lagi að þetta gæti orðið vistrænt án kannski mjög mikilla aðgerða og ég vil bara nefna að þar sem t.d. er alger lífræn neysla eins og í Skaftholti sem ég nefndi áðan í minni ræðu, eru áhrifin ákaflega merkileg.

Áhrifin eru nefnilega þau að ekki hefur þurft að kalla til lækni vegna veikinda hjá fólkinu sem þar er um u.þ.b tveggja ára skeið. Þar er einskis annars neytt en lífrænt framleiddrar vöru. Mér þykir það ákaflega merkilegt og ég held að sé ástæða til að hafa orð á því hér.

Ég held að það sé hægt að ná markmiðum og aðgerðum til stuðnings t.d. þannig að stuðningur á grundvelli opinberra áætlana þarf ekki endilega að vera í formi beingreiðslna. Það getur verið um að ræða kvóta og skatta eða framseljanlegar mengunarheimildir sem miða að því að takmarka notkun aðfanga, það getur komið inn í. Og reglugerðir sem miða að því að takmarka óæskilega búskaparhætti eins og sinubruna eða óhóflega notkun áburðar eru meðal aðferða til þess að ná fram æskilegum umhverfismarkmiðum. Ég held að þarna séu atriði sem menn geta skoðað. Og ég held að að komi aldrei til miðað við þá reglugerð sem er um lífræna framleiðslu, að menn ganga ekki til þess að stimpla einhverja vöru. Það verður ekki gert nema að vel athuguðu máli. Miðað við þörfina í heiminum ættu mál að vera þannig fyrir íslenskan landbúnað að hann ætti að geta aukið framleiðslu, hann ætti að ná fótfestu á erlendum markaði og ég fullyrði það að íslenskt lambakjöt mun ná fótfestu á erlendum markaði þegar við erum í stakk búin til að vinna vöruna eins og kaupendur vilja fá hana.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir undirtektirnar. En aðeins til þess að svara hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni varðandi stefnu Alþfl., vil ég benda á það að frá 1992 hefur orðið veruleg breyting á framsetningu stefnumiða Alþfl. varðandi landbúnaðarmál og það mun koma berlega í ljós á flokksþingi sem verður haldið um næstu helgi hversu miklar breytingar hafa orðið á síðustu tveim, þrem árum varðandi framsetningu stefnu.

Ef við horfum svo aftur á það sem lýtur að GATT, varðandi markaðinn og varðandi hagnaðarsjónarmið og neytendasjónarmið, þá hef ég staðið í þessum stól og barist fyrir því að ekki væru settir jafngífurlegir skattar, gífurleg gjöld, verndargjöld á ýmsar vörur, eins og grænmeti sem er með óheyrilega háum sköttum. Ég er sannfærður um að það er ekki til góðs fyrir íslenska framleiðendur til lengri tíma litið. Ég hef sagt það hér að það getur þurft að beita ákveðnum verndaraðgerðum en það eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í því og það er það sem ég vil segja í þessum málum. Það getur vel verið að við séum ósammála um það, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, en ég veit og fann það að við erum sammála um meginhugsunina sem er í þessari þáltill. og ég vil þakka fyrir undirtektirnar.