Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:21:41 (778)

1996-11-04 19:21:41# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:21]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er endurflutt af hv. flm., Tómasi Inga Olrich, frv. til breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta frv. hefur legið fyrir umhvn. þingsins frá því á síðasta þingi og fengið þar nokkra umræðu og umfjöllun.

Ég tel ástæðu til þess í tilefni þessa endurflutnings og þessarar umræðu að fara örfáum orðum um nokkur sjónarmið sem tengst geta þessu máli. Þetta mál varðar að formi til það sem við ræddum fyrr á þessum fundi um endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum sem ég tel að sé tímabært að fara yfir og gera þar á breytingar og fella að skipulagslöggjöf en það höfum við þegar rætt og ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu. En það eru nokkur grundvallaratriði sem hv. flm. setur fram í þessu þingmáli sem ég vil fara örfáum orðum um til þess að gera grein fyrir mínum sjónarmiðum að þessu leyti. Ég tel mig alveg skilja hugsun 1. flm. og hef hlustað af athygli á hans mál eins og ég reyni jafnan að gera þegar hann flytur sitt mál hér eða annars staðar vegna þess að hv. þm. leggur sig yfirleitt fram um að rökstyðja mál sitt út frá sínu sjónarhorni og hans mál finnst mér eiga athygli skilið þó maður sé ekki endilega sammála málflutningnum eða þeim ályktunum sem hv. þm. dregur í einstökum atriðum.

Í ýmsum greinum erum við þó sammála og ég held áhugasamir báðir um málaflokkinn, virðulegur forseti, þannig að ég met það við hv. þm. að koma sínum sjónarmiðum á framfæri hér einnig í þessu máli.

Ágreiningur er nokkur um þetta efni okkar á milli, 1. flm. og mín, virðulegur forseti. Ég ætla að gera svolitla grein fyrir því hér. Sjónarmið frv. sem fram er reitt með frv. er það að tilteknar aðgerðir sem leita til breytinga á umhverfi hljóti út af fyrir sig að vera jákvæðar eðli máls samkvæmt. Það er það sem hv. flm. gefur sér. Það finnst mér nokkuð langt gengið þó ég taki fyllilega undir þau efni sem varða það vandamál sem felst í gróðureyðingu, uppblæstri o.s.frv., og þá jákvæðu þætti og þá jákvæðu viðleitni sem birtist í aðgerðum til mótvægis við þetta. Um það er ekki ágreiningur. En hins vegar skiptir það miklu að eðlilega og þá út frá forsendum sem samkomulag kann að vera um að bestu manna yfirsýn skulum við segja til að nota fornt ákvæði laga, að ganga fram sem sagt í endurheimt landgæða og aðhlynningu að gróðurlendi þannig að gætt sé langtímasjónarmiða, vistvænna sjónarmiða, getum við kannski sagt, að vinna með náttúrunni og taka tillit til þátta eins og líffræðilegrar fjölbreytni, verndunar tegunda og verndunar vistkerfa sem sérstök geta talist fyrir okkar land. Mér finnst það vera ástæðulaus þrenging í athugun mála og þar á meðal varðandi mat á umhverfisáhrifum að ætla að slá því föstu fyrir fram að ekki sé ástæða til þess að leggja hina almennu mælikvarða, sem eiga að liggja að baki slíkri yfirferð, með fræðilegum þáttum, með sjónarmiðum almennings sem koma inn í það ferli, með úrskurði og niðurstöðu varðandi áætlanir sem varða þessi efni sem frv. fjallar sérstaklega um. Ég tel að við þurfum að líta á aðferðina, mat á umhverfisáhrifum miklu víðtækara og almennara heldur en hv. flm. hefur tilhneigingu til að gera. Við eigum ekki að gefa okkur það fyrir fram að það sé engin ástæða til þess að beita þessum mælikvarða á aðgerðir sem varða endurheimt gróðurlendis, ræktunaraðgerðir með skógrækt o.s.frv. Við eigum að leyfa okkur þá aðferðafræði að skoða það með mælikvarða sem varðar ýmsa aðra þætti sem ekki þurfa að vera neitt neikvæðir í sjálfu sér litið á þá einstaka og afmarkað. Þetta á við um ýmsa framkvæmdaþætti sem eru felldir undir mat á umhverfisáhrifum burt séð frá því að niðurstaðan getur verið sú að það sé allt í lagi út frá samfélagslegum og almennum viðhorfum að þeir gangi fram. Ég mælti með því í sambandi við breytingu á skipulagslöggjöf að við legðum mælikvarðann um mat á umhverfisáhrifum, hann getur verið sniðinn með mismunandi hætti og það geta menn farið yfir þegar löggjöf er endurskoðuð um þau efni, á skipulagsáætlanir almennt séð. Áætlanir um ræktun, um landgræðslu og skógrækt eru aðgerðir sem væntanlega er ekki ágreiningur um að æskilegt er að lúti ákveðnu skipulagi og um slíkar áætlanir er ósköp eðlilegt að sé fjallað með sem víðtækustum hætti og beita til þess aðferðum ekki ósvipuðum þeim og gert er með ýmsa aðra þætti.

Það er nú svo, virðulegur forseti, að meginspurningin sem tengist þessu máli og þar á meðal aðgerðum varðandi landgræðslu og skógrækt, ég á þá ekki við skógvernd í almennri merkingu heldur skógrækt með innfluttum tegundum þar á meðal, að þær aðgerðir geta rekist á sjónarmið sem varða varðveislu á líffræðilegri fjölbreytni og því sem sérstakt er fyrir íslenskt gróðurlendi og íslenskt vistkerfi. Það er full ástæða til þess að reyna að stilla landsmenn saman í þessum málum, reyna að ná sátt í þeim ágreiningi sem uppi er varðandi aðferðafræði landgræðslu og skógræktar í landinu, sem nýtur mikils almenns stuðnings af eðlilegum ástæðum en hins vegar gagnrýni vegna þess að menn sjást sumpart ekki fyrir í þessum málum. Menn horfast ekki í augu við afleiðingar gerða sinna út frá þeim mælikvarða sem eðlilegt er að leggja á þetta. Og mér finnst það alveg yfirdrifin viðkvæmni í þessum efnum sem birtist hjá mörgum talsmönnum eða áhugamönnum um þessi efni og talsmönnum stofnana ríkisins sem varða þessi mál sem vilja bara slá því föstu að af því að þetta er gott málefni almennt séð þá má ekki þrengja þar neitt að, má ekki neitt um það fjalla út frá því að það gæti nú verið að það séu þarna þættir sem þurfi að athuga.

[19:30]

Það er líka einföldun hjá hv. flm., virðulegur forseti, að mínu mati að segja að sumir vilji standa vörð um gróðurlendið eins og það er í dag, þá væntanlega með því álagi sem á það er m.a. af völdum beitar. Það geta fundist slíkir. Ég er ekki í þeim hópi. Ég vænti þess að ég sé sannorður þegar ég fullyrði að ég átta mig á því að gróðurlendi hafa sína framvindu. Gróðurlendi sem hafa verið undir álagi beitar um langt skeið taka heldur betur við sér ef þau njóta friðunar og kannski er ein áhrifamesta aðgerðin til að fá fram gróðurbreytingu í landinu að stuðla að friðun á völdum landsvæðum og ná sátt milli beitarnota annars vegar og verndar hins vegar. Ég þekki mörg þau svæði á landinu þar sem sjá má stórkostlega breytingu og gróðurframvindu þar sem hefur tekist sátt um það að taka upp beitarnotkun á ákveðnu landsvæði og það er sannarlega ekki að standa vörð um óbreytt gróðurlendi þegar náttúran fær að fara sínu fram.

Hins vegar er margt sem varðar landgræðslu og skógrækt með aðfluttum tegundum þar sem menn þurfa að gæta að sér þar sem farið er út í beinar ræktunaraðgerðir eða monokultúr svo að notað sé erlent orð, þ.e. tiltölulega einsleita uppgræðslu eins og beitt er og getur átt full rök á sér að gera það. Þar þurfa menn að sýna varfærni, þar þurfa menn að horfa á aðgerðir sínar út frá sem víðtækustum mælikvarða bæði hvað varðar það að viðkomandi ræktun fari vel í landi, að ekki sé efnt til tvísýnu varðandi tegundir sem geta orðið svo aðgangsharðar að þær breyti svipmóti landsins til lengri tíma og geti orðið skaðvaldur í vistkerfi landsins til langs tíma þannig að menn fái ekki við ráðið í raun. Ég tel að það þurfi að gæta þarna varkárni og ákveðins hófs. Mér fannst í máli hv. þm. sem það gætti líka skilnings á því að það þyrfti aðgæslu varðandi notkun landgræðsluplantna og val á plöntum til landgræðslu. Það höfum við farið yfir í umhvn. og ég mun stuðla að því að endurflytja frv. um þessi efni sem ég hef flutt að gerðum breytingum á því til samræmis við þau sjónarmið sem sameinast var um í umhvn. á síðasta þingi varðandi mælikvarða í því. En ég vona að það geti orðið til þess að víðtækari sátt takist í þessum málum. Ég er í hópi þeirra sem vilja leggja sig fram um að stuðla að því og bera sáttarorð á milli fylkinga sem eru stríðandi í landinu vegna þess að menn líta nokkuð misjöfnum augum á hversu með skuli fara í sambandi við landgræðslu og skógræktarstarf. Ég tel líka að þeir sem að þeim góðu og þörfu málum vinna þurfi að leggja við hlustir og taka tillit til sjónarmiða sem eru sumpart valin neikvæð ummæli sem varða spurninguna um náttúrulegar auðnir landsins. Ég held að það hefði verið fróðlegt, virðulegi forseti, fyrir þingheim að heyra t.d. raddir á fundi Ferðafélags Íslands á laugardaginn var um þessi efni að því er varðar hálendið og sjónarmið þeirra sem okkur sækja heim varðandi gildi auðnanna. En ég tek fram að þá er ég að ræða um svæði á landinu sem eru kannski ekki til uppgræðslu fallin eða líkleg til þess að breyta um svip á náttúrulegan hátt þótt þau nyti friðunar en hafa verulegt gildi.

Hitt er svo almennt sjónarmið og þar tek ég heils hugar undir með hv. flm. að verndun gróðurlendis almennt og aukning, styrking gróðurlendis með skynsamlegum aðferðum er mjög þýðingarmikið alþjóðlegt mál en þar þarf einnig að taka tillit til sjónarmiða eins og verndunar líffræðilegrar fjölbreytni eins og svo er kallað og sett hefur verið í alþjóðlega samninga og við þurfum að gæta þess að fara ekki offari í þeim efnum. Ég vona að við getum náð ásættanlegri niðurstöðu en mér finnst að þetta frv. bæti ekki úr ef á að slá því föstu fyrir fram að það þurfi ekki að beita greinandi aðferðum og gagnrýnum aðferðum á aðgerðir varðandi landgræðslu og skógrækt eins og svo margt annað sem breytir svipmóti lands.