Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:36:10 (779)

1996-11-04 19:36:10# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:36]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en ætla aðeins að leggja orð í belg. Hér er hreyft afar mikilvægu máli um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum og það er ekki nýtt mál eins og hér hefur komið fram. Það hefur verið flutt áður af hv. flutningsmanni og framsögumanni fyrir málinu í dag.

Mér finnst umræðurnar hafa verið afar fróðlegar af hálfu beggja þeirra aðila sem hér hafa talað, þ.e. frsm. og hv. 4. þm. Austurl., og þær vangaveltur sem tengjast málum af því tagi sem er raunverulega kveikjan að flutningi þessa frv.

Ég held að almennt megi segja og það sé viðurkennt að landgræðsla og einnig skógrækt eigi miklu fylgi að fagna með þjóðinni. Það eru mál sem við viljum öll leggja áherslu á að stíga stærri skref en við höfðum gert a.m.k. nú um sinn við það að græða upp landið hvort heldur að stöðva landeyðingu, landgræðslu eða fegra landið og auðga það með skógi og jafnvel gera skóg að atvinnugrein með nytjaskógrækt. Allt er þetta mál sem unnið er að.

Vissulega er það rétt sem hefur komið fram í umræðunni að aðgerðir af þessu tagi breyta landi, breyta umhverfi. Um það er ekki ágreiningur heldur. Auðvitað er tilgangurinn með því líka að fegra land eða bæta en ekki spilla. En ég hygg þó að vissar framkvæmdir á þessu sviði geti verið þess eðlis að það þurfi að fara varlega og það þurfi að huga að málum mjög gaumgæfilega hvort sem við gerum það með mati á umhverfisáhrifum eða einhverjum öðrum matsaðferðum, það skal ég ekki segja um, en við höfum valið okkur þennan farveg að setja lög um mat á umhverfisáhrifum og veltum síðan vöngum yfir því hvort skógrækt og landgræðsla eigi að falla skilyrðislaust eða í undantekningartilfellum eða alls ekki undir slíka löggjöf.

Ég verð að láta það koma fram vegna ummæla hv. frsm. þar sem hann sagði að lögin hefðu verið notuð til þess að hindra framkvæmdir eða í það minnsta tefja framkvæmd og auka kostnað að mér er ekki kunnugt um það þann tíma sem ég hef setið í umhvrn. að lögin hafi verið notuð til þess að hindra framkvæmdir á þessu sviði. Ég vil líka leyfa mér að fullyrða að lögin hafi ekki heldur leitt til þess að tefja framkvæmdirnar á þessu sviði. En þau geta auðvitað leitt til aukins kostnaðar vegna þess að við viljum skoða hvað við erum að ráðast í. Þá er ég ekki að tala um landgræðslu eða skógrækt sérstaklega heldur þarf viðhorfið almennt til þessara laga að vera þess eðlis að matið er hluti af þeim kostnaði sem til verður við framkvæmd mála hverju sinni. Ég nefni bara í því sambandi lítið dæmi sem lagt var fyrir mig nýlega varðandi sorpbrennslu eða sorpeyðingu. Búið var að áætla kostnað við framkvæmdina upp á 10 millj. Síðan kemur mat á umhverfisáhrifum, segir viðkomandi, og það er upp á 1,5 millj kr. og það eykur kostnað við framkvæmdina um 1,5 millj. Hún kostar nú ekki lengur 10 millj. heldur 11,5 millj. Þá velti ég fyrir mér: Kostaði hún þá einhvern tíma 10 millj.? Var það ekki bara röng kostnaðaráætlun? Var ekki kostnaðaráætlun 11,5 millj.? Var ekki matið á umhverfisáhrifum hluti af kostnaðinum við þessa framkvæmd? Ég held að við þurfum að komast inn í þann hugsunarhátt. Auðvitað eigum við að reyna að halda þessum kostnaði niðri eins og öllum öðrum kostnaði við framkvæmdir, hvaða framkvæmdir sem það eru og reyna að gera það á sem hagkvæmastan hátt. En við megum ekki líta á þetta sem einhvern óskyldan utanaðkomandi kostnað sem komi í viðbót við eitthvað annað. Það er bara hluti af framkvæmdinni. Þegar við höfum komist inn í þann farveg með a.m.k. þær framkvæmdir sem ganga fyrir sig ár fram af ári, segjum t.d. vegaframkvæmdir eða hafnarframkvæmdir eða eitthvað slíkt sem við erum að vinna stöðugt í og erum alltaf í gangi, þá á þetta alls ekki að tefja framkvæmdir. Þá er þetta hluti af undirbúningsframkvæmdinni og er bara í þeim ferli sem verkið allt er í. Einn þáttur verksins er mat á umhverfisáhrifum.

Þetta vildi ég setja fram sem hugleiðingu af minni hálfu í það mál sem hér er til umræðu og kannski undirstrika ég held að það hafi líka komið fram í máli mínu þegar þetta var til umræðu á síðasta þingi, að þau viðhorf kynnu að vera uppi í einstaka tilvikum að mat á umhverfisáhrifum sé nauðsynlegt. Þó að ég sé almennt þeirrar skoðunar að landgræðsla, uppgræðsla og skógrækt séu þess eðlis að við getum litið á það sem bætur á umhverfi og nauðsynlegar framkvæmdir í mörgum tilfellum og eigi ekki að þurfa að fara í öllum tilvikum í mat á umhverfisáhrifum þá geti verið uppi í einstökum tilvikum slíkar ástæður eða aðstæður að mat sé nauðsynlegt. Ég hygg að okkur flutningsmann greini ekki á um það efni, heldur öllu fremur í hvaða farvegi slík skoðun eigi að vera, hverjir eigi að annast hana og hvenær hún fari fram og hvaða meðferð slík skoðun fái við undirbúning framkvæmdanna.

Ég held að landeyðingin og uppblásturinn sé e.t.v. eitt af stærstu umhverfisvandamálunum sem við Íslendingar eigum við að glíma. Við eigum e.t.v. við ýmis verkefni að glíma og þurfum að takast á við þau eins og aðrar þjóðir. En ég held að þetta sé kannski það stærsta og þess vegna þurfum við að búa þannig að löggjöf að við getum tekið á þessu mikla vandamáli og glímt við það af fullum krafti án þess að það tefji framkvæmdir eða auki umtalsvert kostnað. Ég undirstrika viðhorf mitt að ég tel að mat á umhverfisáhrifum eigi að vera hluti af framkvæmdum en ekki sem einhver aukaaðskot að málinu sem séu til þess eins fallin að tefja og skemma fyrir, síður en svo, heldur sé mikilvægur þáttur í framkvæmdunum og ef undirbúningnum er rétt hagað og hann er á réttum tíma eigi hann ekki heldur að kosta mikið.