Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 19:43:15 (780)

1996-11-04 19:43:15# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[19:43]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sá misskilningur hafi ekki komið upp í þingsalnum, hvorki við fyrri umræðu um þetta mál né heldur nú að sá sem hér stendur vilji ekki, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson orðaði það, beita greinandi aðferðum til þess að átta sig á því hvort aðferðir í landgræðslu og skógrækt séu skynsamlegar eða ekki. Þetta hef ég aldrei sagt á þessum vettvangi. Ágreiningurinn stendur einfaldlega um það að ég bendi á það að landgræðslu og skógrækt og lögum um þau fyrirbæri er gert að glíma við stærsta umhverfisvanda Íslands og umhvrh. hlýtur fyrstur manna að vera reiðubúinn til þess að taka á því vandamáli í ljósi þess vægis sem það hefur á Íslandi. Er vandamálið þannig vaxið að við eigum að fjalla um það á sama tíma og við erum að fjalla um förgunarstöðvar fyrir eitraðan eða hættulegan úrgang? Er þetta mál, landgræðsla og skógrækt, þannig vaxið að við eigum að setja það undir sama hatt og förgunarstöðvar fyrir hættulegan og eitraðan úrgang? Eigum við að beita sömu löggjöf á landgræðslu og skógrækt sem glímir við mesta umhverfisvanda Íslands eins og við beitum við umhverfisspjöll? Málið snýst nefnilega um það að ákveða á hvaða vettvangi eigi að glíma við þennan vanda og ég segi alveg hikstalaust að lögin um mat á umhverfisáhrifum eru ekki réttur vettvangur fyrir þetta vegna þess að það er afskaplega erfitt, og ég hef margbent á það í umræðunni, að höndla vandann fyrir þá sem eru framkvæmdaaðilar laganna um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstjóri hefur afskaplega veika stöðu til að vega og meta hvort landgræðsluáætlanir, skógræktaráætlanir eða jafnvel friðunaráætlanir eru með þeim hætti að af þeim orsakist umtalsverðar neikvæðar breytingar á umhverfi eða ekki. Hins vegar væri hugsanlega hægt að styrkja Landgræðsluna og Skógræktina, jafnvel búa til einhvern nýjan farveg fyrir áætlanagerð þessara stofnana og styrkja þennan þátt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur hér lýst að hann hafi mikinn áhuga á að styrkja.

[19:45]

Við megum ekki gleyma því að lögin um mat á umhverfisáhrifum höfðu þann tilgang, og það kom skýrt fram í greinargerð með frv. á sínum tíma, að koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Ég held að eins og haldið hefur verið á framkvæmd málsins, hvernig heimildarákvæðið hefur verið notað, þá sé verið að veita þessu málefni, þ.e. landgræðslu og skógrækt í rangan farveg. Ég hika ekkert við að segja það hér og nú að landgræðsla og skógrækt eru eðli málsins samkvæmt jákvæðar framkvæmdir. Þær eru eðli málsins samkvæmt jákvæðar framkvæmdir á Íslandi öllum öðrum Evrópuríkjum fremur. Hvers vegna eigum við þá að höndla þetta vandamál alveg sérstaklega eins og einhverja stórkostlega umhverfishættu? Í því er fólgin mótsögn, virðulegi forseti, sem við hljótum að geta forðast. Ég er ekki þar með að segja að ekki þurfi að gæta varkárni við slíka áætlanagerð, hreint ekki.

Ég vil hins vegar mótmæla því að það sé rangt sem ég hef haldið fram, að sumir náttúruverndarmenn sem titla sig þannig og hafa fulla heimild til þess, vilji standa vörð um gróðurlendið eins og það er nú. Það er ekki rangt. Ég hef reyndar ekki flokkað hv. þm. Hjörleif Guttormsson undir þessa sveit manna. En það er ekki bara að þessi sveit manna sé til, hún er áberandi og hávær. Hún skrifar greinar í blöðin. Það er mjög almennt að þetta fólk tali um svokallaðan frumgróður og það vill ekki að skógræktar- og landgræðsluáætlanir breyti frumgróðrinum. Og hver er nú þessi frumgróður ef ég mætti spyrja? Það sem iðulega er minnst á er lynggróður. Það má ekki breyta lyngmó. En, virðulegi forseti, lyngmóar á Íslandi eru á stóru landsvæði alls ekki frumgróður heldur gróður sem hefur komið upp eftir að búið er að níðast á landinu í margar aldir. Eigum við að taka annan gróður sem skógræktaráætlanir gætu hugsanlega breytt? Það er þessi blendingur af fjalldrapa og birki, þetta kræklótta birki sem vex út um allt land. Er það frumgróður? Megum við ekki rækta upp hreinræktað íslenskt birki vegna þess að það ýtir burtu frumgróðrinum svokallaða sem er enginn frumgróður? Það liggur bara ljóst fyrir að við höfum gengið það nærri landinu að hér er á stórum flákum afskaplega lítill frumgróður. Frumgróðurinn er horfinn. Landgræðslu- og skógræktaráætlanir miða að því að endurvekja þennan frumgróður. En þær miða líka að því að auka fjölbreytni íslensks gróðurlífs. Við höfum flutt inn tegundir sem hafa þrifist hér vel og hafa ekki rutt burtu neinum öðrum gróðri. Með því erum við að auka fjölbreytileikann. Við erum ekki að gera það reyndar með náttúrulegum aðferðum nema menn líti svo á að maðurinn sé hluti af náttúrunni. Ég lít þannig á að maðurinn hafi fulla heimild til að auka fjölbreytileika náttúrunnar með sínum eigin aðferðum.

Hér var talað um að við þyrftum að gæta þess að skaða ekki líffræðilegan fjölbreytileika náttúrunnar, en þá verðum við að taka afstöðu til þess hvaða ástand við erum að meta. Íslenskt vistkerfi í dag er ekki dæmigert fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Það er dæmigert fyrir líffræðilegan fábreytileika. Og vegna þess að íslenskt gróðurfar er dæmigert fyrir líffræðilegan fábreytileika höfum við skilgreint hið fábreytilega gróðurkerfi og hina miklu gróðurrýrnun sem hér hefur átt sér stað sem mikið umhverfisvandamál, langstærsta umhverfisvandamál þjóðarinnar. Þess vegna segi ég að það er ekki sæmandi að taka á þessu mikla umhverfisvandamáli í gegnum þessi lög. Það er heldur ekki auðvelt eða ekki hægt held ég að taka á vandamálinu með þessu verkfæri sem við höfum hér, þ.e. lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar er það hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að auðvitað eiga landgræðsluáætlanir og skógræktaráætlanir að falla inn í skipulag, falla að skipulagslögum. Það er hárrétt.

Áðan var sagt að menn yrðu að gæta þess að breyta ekki svipmóti landsins til lengri tíma. Ég ætla ekkert að snúa út úr þessu orðalagi. Ég ætla aðeins að undirstrika að það er tilgangurinn með landgræðslu og skógrækt að breyta ásýnd landsins og svipmóti til lengri tíma.

Mig langar til að vitna aftur í dæmi sem ég varð vitni að og sá í Røros í Noregi. Þar var skóglendi ekki ósvipað íslenskum birkiskógi enda er þar land í nokkuð mikilli hæð yfir sjávarmáli þó það sé tiltölulega sunnarlega. Þar var land vaxið birki. Síðan var ráðist þar í námugröft þar sem skógurinn var notaður til að sprengja málmgrýti, sprengja bergið sem var forsenda þess að það væri hægt að nýta þessar námur. Þetta var láglaunasvæði og bændurnir sem þarna réðust til vinnu við málmvinnsluna höfðu ekki það há laun að þeir urðu að lifa af öðrum framfærsluaðferðum, þ.e. þeir urðu að halda bú líka. Þar af leiðandi hreinsaðist upp skóglendi á víðu svæði og landið sem þar kom í ljós, beitilandið sem þar opnaðist, varð nauðbeitt á skömmum tíma. Þarna hvarf frumgróðurinn á mjög skömmum tíma. Og hvað var eftir þegar ég kom og skoðaði þetta land? Það var lynggróður að mestu leyti. Norðmenn tóku þetta mál hins vegar föstum tökum og eru að græða þetta land upp, þessa lyngmóa. Þar sá maður uppgræðslu á öllum stigum. Að sjálfsögðu olli þessi uppgræðsla grundvallarbreytingu á þeim gróðri sem þar var orðinn eftir að námavinnslan hafði unnið sín spjöll. Það er í sjálfsögðu eitthvað í líkingu við þetta sem við ætlum okkur að vinna með landgræðslu og skógrækt. Við ætlum okkur að breyta ásýnd landsins mjög verulega. Við ætlum okkur að breyta svipmóti landsins til lengri tíma.

Hér var vikið að því að lögin hafi ekki verið notuð til að hindra framkvæmdir við landgræðslu og skógrækt, landgræðslu einkum og sér í lagi. Það kann að vera, virðulegi forseti, að það sé nokkuð djúpt í árinni tekið. En lítum á hvernig farið hefur á Hólasandi. Hólasandur er dæmigerður fyrir auðn sem ekki er náttúruleg auðn þó við höfum víðáttumikil svæði á öræfum landsins sem eru náttúrlegar auðnir og eflaust vil ég taka undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þær eru mikils virði sem náttúrufyrirbæri. En Hólasandur er ekki dæmi um það því vitnisburður er um að þarna hafi verið þykk og mikil gróðurþekja frá fyrri tíð. Í umhverfismatinu á Hólasandi er gert ráð fyrir að nota lúpínu sem uppgræðsluplöntu. En Landgræðslan er gerð ábyrg fyrir því að hún berist ekki út fyrir uppgræðslusvæðin. Og fyrir utan uppgræðslusvæðið, hvaða land er það? Það er m.a. Mývatnssvæðið þar sem lúpína vex nú þegar og hefur vaxið í áratugi. Hún vex niður við Mývatn og hefur vaxið þar í langan tíma. Ellegar við erum að tala um bakka Laxár sem nefnd er sérstaklega í mati skipulagsstjóra. Þangað má ekki berast lúpína en hún er þar fyrir. Hvernig á nú að gera Landgræðsluna ábyrga fyrir skilyrðum eins og þessum? Hvaðan á fræið að berast ef það berst? Á að færa sönnur á það að lúpínufræið hafi borist af landgræðslusvæðinu en ekki af lúpínu sem vex við Mývatn eða við Laxá? Þetta er ekki framkvæmanlegt. Auðvitað eru ákvæði sem þessi, sem ekki eru framkvæmanleg í reynd, þar sem verið er að gera menn ábyrga fyrir því sem ekki er hægt að sanna, hindrun. Þetta er hindrun. Fyrir svo utan hitt að það er náttúrlega verið að leggja þarna í mikinn kostnað af Landgræðslunni. Það er verið að leggja mikinn kostnað á Landgræðsluna. Því hljóta menn að meta þennan kostnað í ljósi þess hvað er í húfi. Auðvitað er mikið í húfi ef við erum að setja uppistöðulón yfir gróðurlendi sem við teljum mikils virði því það hverfur. Þá er mikið í húfi. En er eins mikið í húfi ef við ætlum okkur að breyta t.d. víðáttumiklu mólendi í skóg sem þar var bersýnilega áður? Eigum við þá að eyða miklum peningum í að vega og meta hvort sá skógur sé ásættanlegur eða ekki? Og hvernig ætlum við að meta það? Ég hefði gaman af að heyra hvernig menn ætla að meta það. Ef menn grípa til friðunarráðstafana eða skógræktarráðstafana sem breyta landinu mjög verulega, á hvaða forsendum ætla menn þá að meta það? Það verða skrautlegar röksemdafærslur mætti segja mér og mikið borgandi fyrir þær. Það eru margir sérfræðingar sem gætu verið á fullum launum við að velta því fyrir sér hvort slíkt flokkist undir skemmdarstarfsemi eða ekki.

Það sem ég vil einkum og sér í lagi koma á framfæri við þessa umræðu er að okkur hv. 4. þm. Austurl. greinir ekki á um það að fara þurfi með varkárni í nýtingu t.d. nýrra plantna. Okkur greinir ekki alls ekki á um það. Okkur greinir hins vegar á um að það sé eðlilegt að beita þessum lögum til þess. Ég sé fyrir mér hundrað erfiðleika ef við förum þá leið. Þeir eru byrjaðir að sýna sig og eiga eftir að sýna sig miklu meira. Við eigum að breyta þessu og við eigum að taka á þessari áætlanagerð með skipulagningu innan skipulagslaga á einhvern hátt en einkum og sér í lagi innan laganna um landgræðslu og skógrækt og styrkja þann þátt sem veit að áætlanagerð og koma þannig í veg fyrir að nokkurt slys eigi sér stað við þennan mikilvæga málaflokk sem lýtur að því að bæta úr um stærsta umhverfisvanda Íslands.