Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 20:02:31 (783)

1996-11-04 20:02:31# 121. lþ. 16.4 fundur 25. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (markmið laganna o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[20:02]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum ræða málið út frá almennum forsendum. Ég vil ekki taka eina tegund þar sérstaklega út úr þó við höfum þetta dæmi vegna þess að það er sýnilegt vandamál. Ég fullyrði að t.d. víða á Austurlandi þar sem ég þekki vel til eru að verða stórkostleg slys vegna útbreiðslu þessarar tegundar sem hefur skotið þar rótum, dreifst þangað eða verið dreift og Skógrækt ríkisins hefur verið óbeinn dreifingaraðili í mörgum tilvikum sem opinber stofnun. Þetta er að leiða til stórfelldra vandræða. Menn þurfa að horfast í augu við slíka hluti. Horfast í augu við þá og taka á þeim. Ég fullyrði að það getur orðið mikið bakslag fyrir þær nauðsynlegu aðgerðir til gróðurverndar og til uppgræðslu og ræktunar ef menn horfast ekki í augu við þennan vanda sem er alþjóðlegur. Við erum ekkert einir á bát um hann. Þessi umræða er alþjóðleg umræða sem er viðurkennd sem vandamál og hluti af spurningunni um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sérkenna gróðurlenda víða um heim. Ef við viljum taka af raunsæi á málum, eigum við að reyna að sameinast um aðferðir sem geta orðið ásættanlegar. Við eigum ekki að afhenda t.d. opinberum stofnunum sjálfdæmi í sínum aðgerðum þar sem varið er almannafé. Við eigum ekki að afhenda þeim sjálfdæmi. Við eigum að koma þar við mælikvörðum sem þurfa auðvitað að vera ásættanlegir en ganga ekki út frá því að eitthvað sé sjálfgefið í þessum efnum, að það þurfi ekki aðgæslu í sambandi við þetta sem margar aðrar athafnir. Ég tel að hæstv. umhvrh. hafi haft fyllilega rétt fyrir sér með því að setja þetta tiltekna dæmi í mat. Hann valdi að gera það í krafti laganna um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki rétt að því hafi verið hafnað af umhvn. að slíkum aðferðum yrði beitt. Þvert á móti var á það vísað í nál. En það var ágreiningur um hvort ætti að fella það sértækt inn í lögin.