Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:05:10 (788)

1996-11-05 14:05:10# 121. lþ. 17.5 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:05]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. ríkisstjórnarinnar, um breytingu á lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, var rætt nokkuð á síðasta þingi. Það fékk umfjöllum í hv. efh.- og viðskn. og fór ekki út úr nefndinni til 2. umr. í lok þinghalds í vor. Það var ágreiningur í nefndinni um þetta mál og ekki að ástæðulausu. Frv. lætur lítið yfir sér en það eru nokkur atriði í því sem eru mjög gagnrýnisverð.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um það að ef ríkisstarfsmenn kaupi húsnæði sem málið fjallar um, þ.e. embættisbústaði, þá eigi þeir kost á því, eins og segir í lögunum, að fá lán frá ríkissjóði á sérstökum kjörum. Í þessu felst að ríkissjóður lánar allt að 30% kaupverðs. Lánin séu verðtryggð með 3% vöxtum og til allt að 15 ára, segir í 4. gr. frv. sem hæstv. ráðherra fjármála var að tala hér fyrir.

Herra forseti. Það er gjörsamlega ótækt að verið sé að binda í lög niðurgreidda vexti eins og gert er í þessu frv. Niðurgreidd vaxtakjör heyra, til allrar hamingju, til undantekninga í okkar hagkerfi. Það eru helst nokkur dæmi um það í félagslega húsnæðiskerfinu þar sem allt aðrar forsendur eru til grundvallar en hér er lagt upp með. Íslenskt þjóðfélag hefur á síðustu árum verið að þróast hratt út úr því óheilbrigða fyrirkomulagi þegar niðurgreidd lán voru almenn regla í okkar hagkerfi. Það hafa í sjálfu sér allir verið sammála um þá stefnumörkun þannig að það skýtur mjög skökku við að verið sé að setja sérákvæði í lög um ívilnandi vexti við þessar aðstæður. Ég er ekki á móti því að koma til móts við þá embættismenn sem hér eiga hlut að máli því þeir hafa oft búið við tiltölulega lága húsaleigu og það er ekki mikil sanngirni í því að gera óeðlilega röskun á högum þeirra við kaup húsnæðis. Ég hefði viljað að sú leið hefði verið farin að hafa lánshlutfall hærra og lánstíma lengri. En það er grundvallaratriði í mínum huga, herra forseti, að ekki sé lögbundið af hálfu ríkisins annað en markaðsvextir við sölu eigna eins og er í þessu tilviki.

Annað atriði sem er mjög gagnrýnisvert í þessu frv. er það að fram kemur að hækka eigi húsaleigu á fámennum stöðum um 33%--50%. Þessi hækkun á að koma til framkvæmda í ársbyrjun 1999 eða eftir rúm tvö ár. Það hefur verið og er ein af ástæðum fyrir þessu frv. gagnrýni m.a. Ríkisendurskoðunar á óeðlilega lága húsaleigu á eignum ríkisins þannig að það er eðlilegt að húsaleiga sé hækkuð þar sem það á við. Vitaskuld á að gera það skynsamlega og í þrepum. En að gera það með svona stökkum eins og rætt er um í frv., 33%--50% hækkun á húsaleigu í einu þrepi eftir rúm tvö ár, er slæm aðferðafræði, herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefði betur notað tímann í sumar til að fara yfir þetta mál og lagfæra þá galla sem eru á því.

Þriðji þátturinn sem er gagnrýnisverður í frv. er sú staðreynd að embættisbústaðir eru einkum nýttir af læknum, dýralæknum, skattstjórum, sýslumönnum, starfsmönnum Pósts og síma, sem aðrar reglur munu þá gilda um frá næstu áramótum, auk annarra opinberra starfsmanna. Þess má geta að embættisbústaðir presta, sem eru ef til vill einna fyrirferðarmestir í eigu ríkisins, eru ekki í þessum lögum vegna þess að umsýsla þeirra fer um prestssetursjóð og sérstök lög gilda um þann sjóð.

Útfærsla frv. getur einmitt kallað á röskun í þjónustu við landsbyggðina. Hv. efh.- og viðskn. leitaði álits aðila að frv. á sínum tíma og þar kom m.a. fram í umsögn til nefndarinnar frá Stefáni Þórarinssyni, héraðslækni Austurlands, að hann hefur áhyggjur af frv. og telur, með leyfi hæstv. forseta: ,,að hætta er á að fyrirhugaðar breytingar geti torveldað læknismönnun á Austurlandi í framtíðinni.`` Einnig er í umsögn Stefáns bent á að þetta geti torveldað samninga sem þurfi að gera í framtíðinni við læknastéttina. Vitaskuld eiga þessar ábendingar við víðar en á Austfjörðum. Menn þekkja vel að í hinum dreifðu byggðum landsins hefur oft reynst erfitt að manna þjónustustöður ríkisins á landsbyggðinni, einkum á stærri stöðum, og nauðsynlegt getur verið að ríkið eigi íbúðarhúsnæði í þeim tilvikum. Stefna frv. getur gengið í þveröfuga átt án þess að skoða þessi mál í víðara samhengi.

Ámælisvert er, herra forseti, og kom í ljós við upprunalega umræðu og skoðun frv., og hefur ekkert breyst samkvæmt þeirri greinargerð sem fylgir frv. núna, að ekki hefur verið haft samráð við þær stéttir sem málið varðar, t.d. lækna, dýralækna eða aðra opinbera starfsmenn. Það er sjálfsagt þegar svona breytingar eru gerðar að kallað sé til samráðs um þann þátt.

Fjórða atriðið sem ég vil gagnrýna varðandi frv. er að ívilnandi sala embættisbústaða er einungis í byggðakjörnum þar sem eru fleiri en 1.000 íbúar. Það er almenna reglan sem er sett hér upp. Embættismenn í fámennari byggðarlögum mundu ef til vill einnig eiga kost á því að kaupa embættisbústaði sem þeir búa í. Hér getur því verið um mismunun að ræða en ekki er gerð nein tilraun í frv. til að meta áhrif af sölu þessara bústaða á fasteignamarkaði og fasteignaverð á einstökum stöðum.

Það er því meginniðurstaða mín um þetta frv. að það er ekki nógu vel kannað og ekki nógu vel útfært og getur kallað á alvarlegar afleiðingar, einkum í smærri byggðarlögum. Ég er síður en svo á móti því að gerð sé gangskör að því að taka á fyrirkomulagi varðandi embættisbústaði ríkisins. Eins og hæstv. fjmrh. gat um var gert ráð fyrir að þetta frv. gæti náð til um 120 íbúða en um 400 íbúðir eru í eigu ríkisins. Því þarf vitaskuld að vanda löggjöf varðandi þennan þátt og hefði sumarið betur verið nýtt til að fara yfir þá þætti sem voru gagnrýndir í efh.- og viðskn. í vor og hefðu leitt til þess að nefndin hefði klofnað ef málið hefði gengið lengra til þinglegrar meðferðar. Að mínu mati eru atriði sem þarf að lagfæra í frv. og Alþingi getur vitaskuld gert það. Ég vil hins vegar gjarnan fá afstöðu hæstv. fjmrh. gagnvart þeim gagnrýnisatriðum sem ég nefndi.

Það er í fyrsta lagi: Af hverju er lögfest sérstök niðurgreiðsla á vöxtum, 3% vextir í frv.? Hvaða rök hefur fjmrh. fyrir slíkri útfærslu? Hverju svarar hann með hina miklu hækkun á húsaleigu á fámennum stöðum, 33%--50% hækkun húsaleigu sem á að taka gildi eftir tvö ár? Mundi hann ekki telja skynsamlegt að gera þetta í áföngum? Ég óska svars hæstv. fjmrh. Og einnig vildi ég fá svar við því af hverju ekki var leitað álits ýmissa embættisstétta sem málið gæti varðað, sem hafa áhyggur af sinni stöðu --- læknar, dýralæknar og aðrir sem þyrftu að skoða þetta mál í samráði við. Vitaskuld viljum við ekki kalla á röskun með þessari útfærslu, eins og frv. getur hugsanlega leitt til. Af hverju var ekki haft samráð við þær starfsstéttir sem málið hefði hugsanlega varðað? Eins og ég skil málið, og eins og fjmrh. lagði það fram, fæ ég ekki séð að það hafi verið gert. Síðasta spurning mín til hæstv. ráðherra er sú: Af hverju er miðað við 1.000 manns? Hvernig er sú tala fundin og telur hann ekki að frv. geti haft veruleg áhrif á fasteignamarkað og fasteignaverð á einstökum stöðum á landinu og hefur verið hugsað fyrir öllum þeim þáttum sem tengjast því máli? Ég tel málið alls ekki vera þannig úr garði gert að hægt sé að mæla með því að svo komnu máli. Ég treysti því hins vegar að ráðherra sjái að sér þegar hann skoðar málið betur og að hv. þingnefnd sem fær málið til meðferðar muni þá endurmeta einstaka þætti þess.