Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 14:30:29 (791)

1996-11-05 14:30:29# 121. lþ. 17.5 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[14:30]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og stuðning sem kom fram í máli manna og vinsamlegar ábendingar. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að stefnan í þessum málum hefur verið eða var afskaplega tilviljana- og brotakennd, t.d. gætti verulegs ósamræmis á milli ráðuneyta um framkvæmd á þessari stefnu. Það sem gerðist hins vegar á árunum 1991 og 1992 var það að fjmrn. veitti forgöngu starfi, samstarfi ráðuneyta þar sem farið var í að skoða reglugerð og lög og niðurstaðan var að breyta reglugerðinni eins og kemur fram í greinargerð með frv. En áfram var unnið að málinu og það var eindregin niðurstaða viðkomandi forustumanna ráðuneytanna að það þyrfti að breyta lögunum til þess að ná fyllra samræmi í stefnunni í þessu máli.

Það eru ekki mörg ár síðan fyrsta eignaskrá ríkisins kom út, líklega þrjú ár eða svo, og það er kannski sérkennilegt að hugsa til þess að ríkið skuli fram að þeim tíma ekki hafa haft neina skrá, enga heildarskrá yfir eignir ríkisins. Reyndar þarf sú skrá að vera í sífelldri endurskoðun og hún er það núna, á tölvutæku formi. Það kom hins vegar í ljós þegar eignaskráin var skoðuð að þar eru fjölmargar eignir sem menn höfðu kannski ekki alltaf áttað sig á að voru til á viðkomandi stöðum og auðvelt að færa þær á milli ráðuneyta og nota eðlilega frá einum tíma til annars.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja frá því líka að í þessu frv. er ekki verið að leggja til að draga úr þjónustu við fólk á tilteknum svæðum á landinu, síður en svo. Það er einungis verið að laga til í eignamálum ríkisins, leigumálum og reyna að selja þær eignir sem ríkið þarf ekki að hafa á eignaskrá sinni.

Hv. þm. Ágúst Einarsson ræddi um niðurgreiðslur á lánum til þeirra sem hugsanlega keyptu þessar íbúðir. Frá því er að segja að það þarf lög til þess að fjmrh. geti samið um kjör sem eru betri en gerist og gengur á markaðnum. Ástæðan fyrir því að þessi leið er farin er auðvitað sú að flestar íbúðir sem eru álíka gamlar og þær sem til sölu verða eru veðsettar, og þá með lánum sem eru á lægri vöxtum en fást í dag, og það var reynt að líkja eftir því sem gengur og gerist á samsvarandi íbúðum. En þess ber að geta að vaxtakjörin hljóta að sjálfsögðu að hafa áhrif á kaupverð íbúðanna. Það þekkja allir sem í slíkum viðskiptum eiga að þeim mun lægri sem vextirnir eru sem bjóðast á eftirstöðvum íbúðanna þeim mun hærra á kaupverðið að verða. Ef hins vegar á að bjóða þessar íbúðir til sölu á venjulegum kjörum þá þarf ekki að fara nákvæmlega eftir þessu ákvæði. Þetta er það ákvæði sem má nota þegar íbúðir eru skuldlausar en við slík skilyrði er oft erfitt fyrir kaupendur að ganga til kaupanna.

Annað atriði sem hv. þm. ræddi var hækkun á húsaleigunni. Það er reyndar svo þegar nefnt er ártalið 1999 að það er í reglugerðinni en ekki í sjálfum lagatextanum. Það má að sjálfsögðu líta til þess. Hugmyndin var að gera þetta í áföngum og ég tel ekki að það sé stórmál hvort það á sér stað á einu eða tveimur árum. Það sem hins vegar skiptir máli er að aðlögun að markaðsverði á húsaleigu á hverjum tíma eigi sér stað á allra næstu árum. Hvort það verður 1. janúar 1999 eða fyrr eða síðar eða hvernig áfangarnir verða teknir er ekki það sem skiptir öllu máli heldur hvert markmiðið er og að menn einsetji sér að ná því á tilteknum tíma.

Síðan var spurt um það hvort leitað hefði verið til viðkomandi aðila og ég skil það svo að það hafi verið leitað til þeirra sem leigja í viðkomandi húsum. Það var ekki að því er ég best veit gert með beinum hætti en að þessu máli komu fulltrúar allra ráðuneyta og þeir hafa eðli máls samkvæmt mjög góð sambönd við þá sem búa í húsum ríkisins enda eru mjög tíð samskipti á milli ráðuneyta --- viðkomandi ráðuneyta og þeirra sem leigja í húsunum, t.d. vegna viðhalds húsanna og vegna annarra hluta. Þannig að auðvitað gera fulltrúar ráðuneytanna sér mjög glögga grein fyrir vilja og hugmyndum þeirra sem búa í viðkomandi húsum. Og af því að hv. þm. minntist á fámennustu byggðarlögin, af hverju mætti ekki selja þar, þá hefur verið bætt við 4. gr., þ.e. in fine, í lok greinarinnar, segir núna orðrétt, með leyfi forseta: ,,Með sama hætti er ráðherra heimilt að selja slíkt húsnæði í byggðakjörnum með færri en 1.000 íbúa ef þeir sem í húsnæðinu búa óska eftir kaupum.`` Ég hygg að þetta hafi komið inn í frv. að tillögu meiri hluta nefndarinnar þannig að þetta svarar væntanlega þeirri spurningu.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurðist fyrir um það hvort ríkisstofnanir hafi kannað það hvort viðkomandi ríkisstarfsmenn hefðu hug á að kaupa. Ég get ekki svarað því öðruvísi en ég hef þegar gert. Að þessu máli komu þeir fulltrúar úr ráðuneytunum sem eru, mér liggur við að segja, í daglegum samskiptum við viðkomandi aðila og þeir hljóta að gera sér nokkuð glögga grein fyrir því við hvaða skilyrði leigjendur vilja kaupa. Ég held að lagabreytingarnar í þessu frv. séu sniðnar að tillögu þeirra, eftir að hafa kannað málið, en ég efast um það að sendir hafi verið út spurningalistar eða hver og einn spurður. Ég hygg að þetta hafi ekki verið sent opinberum starfsmönnum eða félögum þeirra enda eru þetta ekki samningsbundin kjör manna. Og ég tel það fráleitt ef menn ætla að blanda því saman. Ég hef tekið undir það sem Kvennalistinn hefur stundum sagt að það ætti að koma í veg fyrir duldar greiðslur til einstaklinga og ef einhvers staðar er hægt að koma slíku við þá er það einmitt með því að hafa leigukjör til opinberra starfsmanna ósambærileg við það sem aðrir verða að búa við á viðkomandi stöðum. Hér er því beinlínis verið að ganga í þá átt að samræma leigukjör þeirra sem taka hús á leigu en eru opinberir starfsmenn að þeim leigukjörum sem öðrum bjóðast á staðnum. Þeir sem hafa búið úti á landi, en það hef ég gert, þekkja þennan mismun sem er víða mjög mikill. Þess eru dæmi að maður sem skiptir um starf leigi húsnæði sitt og fari yfir í húsnæði sem t.d. er í eigu banka á viðkomandi stað af því það eru miklu betri kjör í slíku húsnæði. Það sýnir að þarna er mikill munur á sem í vissum tilvikum er ekki tekið tillit til. Auðvitað á að skattleggja þennan mun, þetta eru hlunnindi, skattlögð hlunnindi, en miklu betri aðferð er að uppræta þennan mun og að því er stefnt og því hefur í sjálfu sér ekki verið mótmælt. Ég held að það sé ekki nokkurt stéttarfélag sem mun rísa upp til handa og fóta.

Ástæðan fyrir því að farið var í þetta á sínum tíma voru ekki hagsmunir viðkomandi embættismanna heldur fyrst og fremst hagsmunir ríkisins, því það var ekki hægt að koma embættismönnum á staðina, og þá um leið hagsmunir þess fólks sem þar bjó. (Gripið fram í.) Og það á fyrst og fremst að líta á slíka hagsmuni en ekki að tengja þetta tekjum eða kjörum einstakra embættismanna (Gripið fram í.) Ja, það verður bara að koma í ljós. Ég hygg að það sé í mörgum tilvikum afskaplega ósanngjarn samanburður á milli manna í nákvæmlega sömu vinnu, annars vegar ef um er að ræða niðurgreidda húsaleigu og hins vegar kannski fólk sem þarf að búa í eigin húsnæði. Þess vegna hafa á undanförnum árum, og það hefur ekkert með þessa löggjöf að gera, þessi kjör verið jöfnuð með því að húsaleigan hefur smám saman verið hækkuð og t.d. er það nú svo að húsaleiga tekur tillit til stærðar húsnæðis. Þetta hefur framkallað það m.a. að embættismenn hafa verið með í ráðum þegar verið er að kaupa húsnæði á vegum ríkisins, við skulum t.d. taka nýjar stöður eins og dómarana sem settir hafa verið upp í nýjum héraðsdómstólum úti á landi þar sem hefur verið lagt til húsnæði. Þeir hafa auðvitað verið með í ráðum þegar húsnæðið er keypt. Það hefur haft verulega þýðingu upp á síðkastið að mönnum hefur verið bent á að reglurnar eru þannig að eftir því sem húsnæðið er stærra þeim mun hærri er leigugreiðslan. Þetta hefur auðvitað orsakað það að embættismenn kjósa kannski fremur að vera í hæfilega stórum íbúðum en ekki, eins og oft var áður þegar um fast verð var að ræða, að reyna að búa við sem allra rýmst skilyrði hvað þetta snertir. Það hefur því þegar verið unnið heilmikið í þessum málum og ég held að langflestir, ef ekki allir, séu sammála um að þetta er þjóðþrifamál sem hér er á ferðinni. Hins vegar þarf, eins og hefur komið fram í umræðunum, að kanna allar hliðar málsins og hafa nægilegan aðlögunartíma, okkur liggur ekkert gífurlega mikið á. Það er mjög mikilvægt að Íslendingar finni fyrir því að það sé ekki verið að hygla sumum á meðan aðrir þurfa að búa við eðlileg skilyrði. En nokkuð hefur borið á því að mönnum finnst ósanngjarnt að embættismenn ríkisins búi við betri skilyrði, betri kost en þeir sem eru daglaunamenn og búa við hliðina á þeim. Þetta þekkja þeir sem hafa búið úti á landi og er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir slíkt.

Það var spurt um hvað meint væri með ,,þar sem eðlilegur markaður hefur skapast``. Það verður eiginlega að lesa 2. og 3. gr. saman. Í 2. gr. segir, með leyfi forseta: ,,Þar sem eðlilegur húsaleigumarkaður er ekki fyrir hendi skal þó miða húsaleigu við ...`` o.s.frv. Hér er auðvitað einhver ákveðin viðmiðun sem menn verða að meta á hverjum tíma og þarf að koma fram í reglugerð. Og í 3. gr. segir, með leyfi forseta: ,,Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins innan þeirra svæða, þar sem eðlilegur markaður hefur skapast ...`` o.s.frv. Þessu er reynt að svara með tölunni 1.000, byggðakjarna upp á 1.000. En þegar verið er að fjalla um þessi mál þá hygg ég að til grundvallar sé lagt hvort framboð og eftirspurn er eftir húsnæði og tiltölulega stöðugt verð, bæði á leigu- og fasteignamarkaði. Þar er um að ræða markaðsviðhorf en þar sem hús hafa kannski ekki selst í langan tíma eða þá að of mikið framboð er en enginn kaupir, þá þurfa menn að gæta sín og ég tel að fullkomlega sé tekið tillit til þess í frv. enda á ekki að ríkja neinn flumbruskapur. Ef einhver heldur að þeir menn, sem eru taldir upp í grg. frv. á bls. 2, úr ráðuneytunum, séu með flumbrugang í þessum efnum þá held ég að það sé á misskilningi byggt. Ég ætla ekki að lesa nafnalistann en þetta eru allt menn sem eru gamalgrónir í ráðuneytunum og þekkja mjög vel samskipti við þá sem búa í húsnæði ríkisins.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé ástæðulaust fyrir mig að teygja lopann frekar um þetta frv. Ég óska eftir því að nefndin skoði það sem allra best og hef ekkert á móti því ef nefndin eða nefndarhluti kemur með góðar brtt. því lengi getur gott batnað.