Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:07:28 (796)

1996-11-05 15:07:28# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki oft sem ég er með beinar upphrópanir varðandi mál úr þessum ræðustól en ég kýs að gera það núna. Mikið óskaplega er ég glöð yfir því að við erum loksins að ræða þessa tillögu. Fjölskyldumál eru afar sjaldan á dagskrá Alþingis og þá meina ég fjölskyldumál í víðu samhengi. Við erum allt of sjaldan að tala um fjölskylduna. Við tölum um sérstök afmörkuð mál. Við tölum um fæðingarorlof og vinnutíma, félagsþjónustu og öldrunarþjónustu, leikskóla og grunnskóla, menntastefnu, háskóla, lánasjóð, vímuefni og sjálfsvíg, atvinnuleysi og húsnæðismál, heilbrigðismál og sjúkrastofnanir. Allt þetta ræðum við hér í þessum sal undir ýmsum formerkjum, utandagskrárumræðu, tillögum, frumvörpum en kastljósið er afar sjaldan á fjölskylduna sem slíka.

Og sjá, virðulegi forseti. Í dag ræðum við fjölskylduna og hverjir eru þá í þingsal? Konur, konur, konur. (Félmrh.: Ekki eingöngu.) Velkomnar til umræðu, konur, við hæstv. félmrh. Pál Pétursson.

Það hafa orðið gífurlegar breytingar í okkar þjóðfélagi á nokkrum áratugum og satt best að segja hefur það komið í ljós að mjög víða er að finna öryggisleysi vegna þess að í einhverju er ábótavant, í einhverju af þeim málum og málaflokkum sem ég greip hér niður áðan án þess að það væri á nokkurn hátt faglega farið inn í þau málefni sem snerta stöðu fjölskyldunnar. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná árangri með velferðarþjóðfélag okkar þarf umhverfi fjölskyldunnar að vera í lagi og þess vegna þurfum við að þekkja þarfir fjölskyldunnar á hverjum tíma. Þegar ég segi fjölskyldan, þá er ég að meina pabbi og manna og barnið eða börnin og afi og amma, stórfjölskyldan, vegna þess að ef vandkvæði eru í félagslegu umhverfi eða varðandi þjónustuþörf einhvers af þessum fjölskyldumeðlimum byrja þeir erfiðleikar sem oft leiða til upplausnar eða annarra alvarlegra vandamála í fjölskyldu. Þess vegna er svo mikilvægt að ræða fjölskyldumál og samræmda fjölskyldustefnu sem hingað til hefur ekki verið sett af stjórnvöldum. Að nokkru marki hefur opinber fjölskyldustefna verið sett í sveitarstjórnum og það er mjög mikilvægt en mikilvægast er að ríkisstjórn setji sér opinbera fjölskyldustefnu og vinni samkvæmt henni og ákveði það að slík samræmd fjölskyldustefna sé grunnurinn sem gengið er út frá.

Það er nefnilega þannig að þegar ákvarðanir eru teknar í hinum ýmsu ráðuneytum í málefnum sem varða fjölskylduna er hvert ráðuneyti fyrir sig að skoða stöðuna í ráðuneyti sínu út frá sínum fjárhagslega ramma og möguleikum sínum varðandi þær skyldur sem viðkomandi ráðuneyti er lagt á herðar í málum fjölskyldunnar. En sáralítið er skoðað að hvaða leyti aðgerðirnar hitta fjölskylduna og valda erfiðleikum í umhverfi hennar ef aðgerðir eru neikvæðar.

Ég minnist þess að þegar við ræddum næstum því nákvæmlega sömu tillöguna sem flutt var af mér sem þingmannamál eftir að hafa reynt að bera það fram sem stjórnartillögu sagði virðulegur félmrh. að hann mundi koma með almennilega opinbera fjölskyldustefnu, hann mundi koma með aðra og betri tillögu vegna þess að þessi væri væmið kjaftæði á blaði. Þar sem ég stend dettur mér í hug: Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Vegna þess að sú tillaga sem hér er flutt og kynnt og var vel kynnt með góðum orðum, er næstum nákvæmlega sama tillaga og ég hef flutt að öðru leyti en því að búið er að veikja hana örlítið þar sem er búið að fella út úr tillögunni fjölskyldusjóðinn sem á að standa fyrir fjölskyldurannsóknunum sem er grunnurinn að því að við getum á hverjum tíma brugðist við þeim aðstæðum sem skapast í fjölskyldumálum. Ég geri mér alveg grein fyrir því af því að ég hef átt sjálf við það að stríða að íhaldið hefur nú rekið félmrh. til baka með mikilvægan þátt í þessari tillögu og að því leyti er það að fella út fjölskyldusjóðinn uppgjöf af hálfu félmrh.

Að öðru leyti fagna ég því að tillagan skuli komin fram vegna þess að þar er að finna mjög góð markmið eins og áður var búið að koma fram og við munum að sjálfsögðu freista þess að flytja brtt. við þetta mál þannig að hugsanlega megi vekja þingheim til umhugsunar um hvað það þýðir að hafa fjölskyldusjóð sem tekur á þessum málum. Það er nefnilega búið að draga vígtennurnar úr tillögunni með því að fella sjóðinn út því að hann mundi standa fyrir ýmiss konar tilraunastarfsemi þar sem reynt er að styðja og styrkja þróunarverkefni. Hann stendur fyrir fjölskyldurannsóknum og hann stendur fyrir nýjungum á sviði heilbrigðisþjónustu og það nægir að minna á Samvist sem er samstarfsverkefni Reykjavíkur og Mosfellsbæjar með stuðningi ríkisins en fjárhagur þess verkefnis hefur einungis verið tryggður fyrstu tvö árin og það var einmitt fjárhagsleg staða nefndar um Ár fjölskyldunnar sem gerir það kleift að hleypa þessu verkefni ... (Félmrh.: Þetta er tilraunaverkefni.) Tilraunaverkefni, ég er að tala um tilraunaverkefni og tilraunastarfsemi af ýmsu tagi.

Þegar litið er á tillöguna og vegna orða minna áðan um að tillagan sé komin fram að nokkru óbreytt fyrir utan fjölskyldusjóðinn er það mjög mikilvægt að þegar fyrri tillagan kom fram var hún send út til umsagnar fjölmargra aðila, eiginlega allra þeirra sem gætu haft skoðun á málinu, til að tryggja að þegar og ef það næðist að stjórnvöld horfðust í augu við mikilvægi þess að setja sér fjölskyldustefnu og ef sú tillaga kæmi fram og inn til félmn. lægju mikilvægar upplýsingar fyrir. Því fullyrði ég það, virðulegi forseti, að þegar félmn. verður búin að fá tillöguna til sín til umfjöllunar, þá getur hún á mjög skömmum tíma afgreitt hana þannig að hér verði afgreidd frá þinginu tillaga um að stjórnvöld marki sér opinbera fjölskyldustefnu.

Lokaorð mín í þessari framsögu, virðulegi forseti, eru þau að það er jafnmikilvægt að í kjölfarið á því að þáltill. er samþykkt, þá hefjist vinnan við að stjórnvöld marki stefnuna sjálfa samkvæmt tillögunni því að tillagan er fyrsta skrefið í mjög, mjög mikilvægu ferli.