Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:25:28 (798)

1996-11-05 15:25:28# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:25]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og bent var á fyrr í dag má sjá á samsetningunni í sölum Alþingis á þessari stundu að nú er verið að ræða um fjölskyldumál og eitthvað sem tengist jafnrétti kvenna og karla. Í salnum eru svo til einungis konur, reyndar hv. þm. Gísli Einarsson líka sem er greinilega að undirbúa sig undir umræðuna, en karlarnir tveir sem eru hérna inni, fyrir utan hv. þm. Gísla Einarsson, eru annars vegar hinn virðulegi forseti vor og hins vegar hæstv. félmrh. Þetta segir ýmislegt um það annars vegar hverjir það eru sem í raun sinna fjölskyldumálum í þinginu og hins vegar kannski líka eitthvað um það hverjir það eru sem gegna virðulegum embættum á Alþingi.

Það er líka eitt annað sem er dæmigert fyrir umræðu um fjölskyldumál í þinginu. Það er að sjálfstæðismenn gufa upp, þeir hverfa gersamlega eins og dögg fyrir sólu og enginn er sjáanlegur í námunda við ræðupúltið enda væntanlega stórhættulegt að fara að taka til máls um þessi mál. Það má líka vel vera að þeir hafi fengið nóg af umræðunni á landsfundinum að lokinni þessari miklu flugeldasýningu um jafnréttismál og þeir ætli sér ekki að tala um þetta meir það sem eftir er næstu áratugina. En nóg um sjálfstæðismenn.

Ég vil byrja á að fagna því að þessi tillaga er loksins komin til umræðu en eins og kom fram í framsögu hæstv. félmrh. náðist ekki að mæla fyrir þessari tillögu í vor. Í raun er sagan á bak við hana mun lengri því hún sækir að hluta til efni sitt í tillögu sem fyrrv. félmrh., Rannveig Guðmundsdóttir, lagði fram í sinni ráðherratíð en sú tillaga var unnin af landsnefnd um mál fjölskyldunnar sem var skipuð í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur ef ég man rétt.

Það er líka rétt sem kom fram áðan í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að það er sjónarsviptir að fjölskyldusjóðnum úr tillögunni. Tillagan hefur verið töluvert þynnt út frá því sem hún var þegar hún kom úr höndum landsnefndar um ár fjölskyldunnar en sú nefnd var sett saman af mjög, ég vil segja, fjölhæfum hópi. Það var stór hópur sem kom að þeirri vinnu og mjög mikil og fagleg vinna var lögð í þessa tillögu á sínum tíma og í þá vinnu sem fór fram í landsnefndinni. Og fjölskyldusjóðurinn, sem nú hefur verið tekinn út, var mjög mikilvægur liður í þeirri viðleitni að koma markmiðum fjölskyldustefnunnar á í raun. Ég get tekið undir þær áhyggjur, sem hafa komið fram hjá þeim sem hafa talað á undan mér, að það er vissulega áhyggjuefni ef hinar raunverulegu aðgerðir til að koma stefnunni á eru teknar út. Það getur verið mjög hættulegt mál. Ég hefði viljað sjá hugmyndina um fjölskyldusjóðinn áfram inni í tillögunni og tek undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um það að freista þess að gera brtt. þar um þegar þar að kemur.

En þrátt fyrir að fjölskyldusjóðinn vanti eru mjög dýrmætir þættir með í þessari tillögu sem eru vissulega skref í rétta átt svo framarlega sem þeir komast einhvern tímann í framkvæmd. Vegna þess að eins og við ræddum töluvert um í umræðunni um stöðu jafnréttismála þá eru allir orðnir mjög þreyttir á að fá endalausar markmiðssetningar og endalausar aðgerðaáætlanir án þess að það sé raunverulega unnið að því að koma þeim í framkvæmd.

En góð atriði eru inni í tillögunni og má nefna mörg. Það eru t.d. almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu sem eru sett fram í II. kafla tillögunnar. Að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar og leikskólar, starfi í samvinnu við fjölskylduna. Fræðsla um stofnun heimilis verði aukin og unnið verði gegn upplausn fjölskyldna m.a. með fjölskylduráðgjöf. Að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum. Að heilbrigðisþjónustan taki mið af þörfum fjölskyldunnar sem heildar og tryggt sé að fjölskyldur geti notið stuðnings til að annast aldraða og sjúka. Öldruðum verði gert kleift að taka þátt í samfélaginu svo lengi sem auðið er. Að tekið verði mið af þörfum fjölskyldunnar við skipulag umhverfis, þjónustu, útivistar og umferðaröryggis. Að fjölskyldur fatlaðra njóti nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Að fjölskyldur nýbúa fái nauðsynlegan stuðning til að festa rætur í íslensku samfélagi. Að vernd gagnvart ofbeldi verði efld jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn og svo mætti lengi telja.

[15:30]

Þetta eru mjög göfug og góð markmið. En vilji hæstv. ríkisstjórn gera þetta allt saman að markmiði sínu þá fer ég að verða nokkuð bjartsýn á að hún muni styðja þær fjöldamörgu tillögur sem liggja fyrir þinginu sem m.a. við í þingflokki Alþb. og óháðra höfum lagt fram og snúa að því að bæta og tryggja stöðu fjölskyldunnar, bæta stöðu launafólks, starfsöryggi og fleiri atriði sem vissulega snúast fyrst og fremst um að bæta lífsafkomu og öryggi og aðbúnað fjölskyldunnar.

Ég verð að segja eins og er að ég efast því miður um að þessi markmið séu einlæg hjá hv. ríkisstjórn. og þá þarf ég ekki annað en horfa á annan tillöguflutning hér í þinginu, t.d. þá grein sem snýr að því að efnahagslegt grundvallaröryggi fjölskyldunnar sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum. Við vitum að það er langt í land að svo sé. Og eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á áðan er mikil fátækt til í íslensku samfélagi. Við getum líka tekið atriði eins og kynbundið launamisrétti, en enn hefur ekki sést vilji hjá hæstv. ríkisstjórn til að koma með raunhæfar aðgerðir til að taka á því vandamáli. Við höfum margoft rætt um húsnæðismál fólks og það óöryggi sem fólk býr við, einkum ungt fólk sem er t.d. að koma úr námi sem getur ekki staðið bæði í húsnæðiskaupum og að borga niður námslán. Þetta er það sem ungu kynslóðinni í dag er boðið upp á. Það þarf ekkert að fjölyrða um þetta. Það hefur margoft verið rakið hér í umræðu um þau mál að fjölskyldufólk fer langverst út úr þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið í annars vegar málefnum t.d. Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hins vegar í húsnæðismálunum sem gerir það að verkum að fjölskyldufólki hefur verulega fækkað í námi. Ég á eftir að sjá að hæstv. ríkisstjórn eigi eftir að geta tryggt þessi markmið sín í framkvæmd og eigi eftir að vinna í verki að því að þessum markmiðum verði náð. Ég vona að það verði. En þá hlýtur það að birtast í öðrum tillögum sem verða lagðar fram til að ná þessu fram.

Eins vildi ég í lokin benda á að hér er talað um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur verið rædd í sölum Alþingis. Þarna er um að ræða dæmigert mál sem ríkisstjórnin þarf að taka á vegna þess að þarna er um að ræða ágreining á milli annars vegar atvinnurekendasamtakanna og hins vegar samtaka launafólks. Sá ágreiningur verður ekki leystur því miður með samráði á milli þessara aðila og þar þarf hæstv. félmrh. að taka af skarið. Spurningin er nú: Kemur hann til með að sýna vilja sinn í verki og mæla fyrir því að þessi samþykkt ásamt fleirum sem snúa að starfsöryggi launafólks verði fullgiltar.