Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:42:17 (800)

1996-11-05 15:42:17# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:42]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Ég tel afar jákvætt að við séum að ræða um opinbera fjölskyldustefnu. Þessi þáltill. var að miklu leyti unnin í tíð síðustu ríkisstjórnar eins og komið hefur fram en komst þá ekki í gegnum þingið. Það er von mín að núv. ríkisstjórn geti komið henni í gegn enda um afar mikilvæga þáltill. að ræða. Hún er mjög brýn vegna þess að við höfum ávallt horft á fjölskylduna í of einangruðu ljósi. Við höfum ekki horft á fjölskylduna sem heild. Séreinkenni fjölskyldna á Íslandi eru að vinnudagur hér er lengri en víðast hvar annars staðar og þá á ég við hjá báðum foreldrum. Milli 80 og 90% íslenskra kvenna vinna utan heimilis, annaðhvort hluta dagsins eða allan daginn, og meðalvinnuvikan er lengst á Íslandi allra Norðurlanda og er 47,5 vinnustundir. Finnland kemur í næsta sæti með 41,5. Aðrar Norðurlandaþjóðir liggja talsvert langt fyrir neðan okkur. Þetta ástand hefur skapað óeðlilegt álag á fjölskylduna sem draga þarf úr af öllum mætti. Laun eru einnig því miður afar lág á Íslandi og framleiðni tiltölulega lítil. Nú standa fyrir dyrum kjarasamningar og er það von mín að þetta mál verði skoðað sérstaklega, þá á ég við langan vinnutíma og lág laun. Bæði Vinnuveitendasambandið og stéttarfélögin hafa sett þessi mál á oddinn fyrir næstu kjarasamninga og er það afar vel.

En það er spurning hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert í málefnum fjölskyldunnar almennt. Það er nefnilega ýmislegt þegar að er gáð. Með aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum má segja að stuðlað hafi verið að lágum vöxtum og lágri verðbólgu. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt fyrir fjölskylduna. Það getur enginn neitað því. Lágir vextir lækka vaxtabyrði heimila og stöðugt efnahagsástand með lágum vöxtum og lítilli verðbólgu gerir fyrirtækjum kleift að blómstra þannig að atvinnuleysi minnkar. Atvinnuleysi hefur líka farið minnkandi og er nú undir 4%. Það er eitt af grundvallaratriðum að hafa vinnu því að fjölskyldur þar sem t.d. annað foreldrið er atvinnulaust um lengri tíma verða fyrir verulegum skakkaföllum. Minnkandi atvinnuleysi er því mikilvægt öllum íslenskum fjölskyldum. Með stöðugu efnahagsástandi geta heimili líka frekar gert fjárhagsleg plön, séð fram í tímann hverjar greiðslur verða o.s.frv.

[15:45]

Það hefur verið gætt afar aðhaldssamrar stefnu í ríkisfjármálum. Stefnt er að hallalausum fjárlögum og þetta er að sjálfsögðu gert til þess að reyna að verjast því að þurfa að hækka vexti. Og ef maður horfir fram í tímann þá er ljóst að ekki verður þörf á að hækka skatta hér um aldamótin eins og við hefðum annars þurft að gera. Það er búið að reikna það út að við hefðum þurft að hækka tekjuskattinn upp í 50% ef ríkisstjórnin hefði ekki gætt aðhaldssamrar stefnu í ríkisfjármálum. Þetta er mikilvæg staðreynd fyrir allar fjölskyldur í landinu.

Það er einnig ljóst að kaupmáttur fjölskyldna hefur verið að aukast um 8--9% á síðustu tveimur árum. En það er tvöfalt meiri aukning kaupmáttar en búist er við að jafnaði í Evrópulöndum OECD. Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar mun kaupmáttur aukast um 15--16% frá árinu 1995 til aldamóta. Jaðarskattar hafa einnig verið lækkaðir nokkuð t.d. með því að dregið hefur verið úr tekjutengingu barnabótaaukans. Það er nefnd að störfum sem er að skoða það að lækka jaðarskatta enn frekar og einnig er ljóst að það er vilji til þess að skoða það að taka fjármagnstekjuskattinn svokallaða í skattalækkanir að einhverju leyti í framtíðinni.

Núverandi ríkisstjórn hefur einnig sett upp Ráðgjafarstofu heimilanna sem veitir ókeypis ráðgjöf fyrir fólk um fjármál sín, aðstoð við að semja við lánardrottna o.s.frv. og þetta hefur verið afar mikilvægt fyrir margar fjölskyldur, að greiða úr vandamálum þeirra með ráðgjöf.

Það er einnig búið að hækka lánshlutfall úr 65% upp í 70% í húsnæðiskerfinu og þetta hefur auðveldað einhverjum fjölskyldum húsnæðiskaup. Sveigjanlegri lánstími húsbréfa hefur einnig komið þar við sögu. Þannig er búið að framkvæma ýmis úrræði í skuldamálum sem geta og hafa forðað sumum heimilum frá gjaldþroti sem hefur verið mikilvægt fyrir fjölskyldur.

Ríkisstjórnin hefur einnig með þeirri þáltill. sem hér er lögð fram ákveðið að kanna sérstaklega stöðu og afkomu barnafjölskyldna og tel ég þar um brýnt mál að ræða.

Einnig hefur verið komið inn á það hér að skapa feðrum aukinn rétt til sjálfstæðs fæðingarorlofs. Ég er því hjartanlega sammála að það sé mjög brýnt fyrir jafnréttismálin og fjölskyldumálin en ríkisstjórnin hefur einmitt verið að skoða það núna síðustu daga að koma á slíku sjálfstæðu fæðingarorlofi karla.

Almennt má segja að íslenska fjölskyldan hafi það nokkuð gott. Lífskjarakannanir sem hafa verið framkvæmdar hér á landi sem annars staðar sýna að lífskjörin hér á landi eru áþekk því sem best gerist á Vesturlöndum. Rannsóknir sýna að Íslendingar eru almennt ánægðir með sína stöðu. Þeir eru í 2. sæti af samanburði 15 OECD-landa. Það eru einungis Danir sem eru örlítið ánægðari með lífið en Íslendingar. Þar sem Íslendingar eru almennt talað svona ánægðir með lífið þá má draga þá ályktun að fjölskyldur hér á landi séu þokkalega vel staddar þó að sjálfsögðu megi ávallt gera betur. Það má að sjálfsögðu ekki slá slöku við heldur reyna að stuðla að enn betra fjölskyldulífi og það er einmitt gert með þessari þáltill., það á að skoða fjölskylduna í heild og stjórnvaldsaðgerðir sem beinast að henni.

Framsfl. mun stuðla að því að bæta hag fjölskyldna bæði með því að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu og einnig með aðgerðum á sviði atvinnumála eins og við höfum allir verið að gera. Stuðla að bættri skuldastöðu heimilanna, auknu jafnrétti kynjanna og síðast en ekki síst með þessari þáltill. sem við leggjum fram hér í dag.