Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:55:41 (804)

1996-11-05 15:55:41# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:55]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að það er ekki einungis þessi ríkisstjórn sem hefur stuðlað að stöðugu efnahagsástandi á Íslandi. Ég vil minna á það að þjóðarsáttin sem sett var fram í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar átti verulegan hlut að máli í því sambandi. En ég hef ekki heyrt það frá stjórnarandstöðunni að hún vilji auka halla ríkissjóðs en það er ágætt að það komi fram ef það er vilji síðasta ræðumanns.

Varðandi fjármagnstekjuskattinn þá var sú leið sem farin var sameiginleg niðurstaða fulltrúa úr öllum þingflokkum og fulltrúa ASÍ --- sameiginleg niðurstaða. Og það var sú leið sem núv. ríkisstjórn fór. En síðan vilja allir hlaupa undan merkjum.

Það er alrangt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að ég hafi sagt að allir séu hér afar hamingjusamir. Það er alrangt, ég sagði það aldrei. Ég vitnaði hins vegar í könnun, lífskjarakönnun, sem sýnir að í samanburði milli 15 OECD-landa varðandi lífshamingjuna er Ísland í 2. sæti. Það eru bara Danir sem eru örlítið ánægðari með lífið en Íslendingar. Í þetta var ég að vitna og ekkert annað. Og ég ætla að vona að hv. þm. fari ekki að gera manni upp slíkar skoðanir eins og hér var gert áðan.