Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 15:59:45 (806)

1996-11-05 15:59:45# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:59]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afar merkilegur málflutningur að fjölskyldumál megi ekki fara út í einhver hörð efnahagsmál ,,a la`` karla heldur eigi að vera mjúk. Ég mótmæli þessu algjörlega. Það er ekki hægt að slíta fjölskyldumálin frá efnahagsmálum. Hvernig í ósköpunum á að gera það? Fjölskyldan er ekkert einangrað fyrirbrigði sem hangir í lausu lofti. Að sjálfsögðu eru efnahagsmál afar tengd fjölskyldumálum. Hver ætlar að mótmæla því?

Það er mjög ánægjulegt að heyra það að stjórnarandstaðan ætlar að tryggja að þetta mál, sem hæstv. ráðherra Páll Pétursson hefur lagt fram, fari í gegn.

Eins og allir muna, og það hefur verið rifjað upp afar oft fyrir okkur framsóknarmönnum, þá stefndum við að 12.000 störfum á þessu kjörtímabili. Það stefnir núna í það að þau verði 13.500 sem er afar jákvætt. Meira að segja er það þannig víða um landið að það er varla hægt að fá fólk til starfa því, vantar fólk til starfa, því miður.

En ég vil óska þess, og ég veit að hv. þm. ætlar að koma upp í áframhaldandi andsvar, að það verði þá útskýrt hvernig er hægt að slíta efnahagsmál úr tengslum við fjölskyldumál. Hvers lags málflutningur er það? Að sjálfsögu er mikilvægt að hafa stöðugt efnahagsástand hérna og lága vexti fyrir fjölskyldurnar. Það er grundvallaratriði varðandi afkomu fjölskyldnanna.