Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:04:33 (809)

1996-11-05 16:04:33# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:04]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða um efnahagsmálin um leið og rætt er um stöðu fjölskyldunnar. Það tengist að sjálfsögðu, það gera sér allir grein fyrir því. En það er merkilegt að það skuli þá ekki vera gert í þeim tilvikum þar sem við höfum tekið hér fyrir mál sem snerta fjölskylduna, þegar verið er að ræða um hreina aðför að öldruðum, að öryrkjum, að barnafjölskyldum landsins eins og var í fjárlögum þessa árs og í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Og það er einkennilegt þegar verið er að ræða um úrlausnir og mótun opinberrar fjölskyldustefnu --- en það mál sem síðasta ríkisstjórn og þeir ráðherrar sem þá sátu í félmrn. komu á laggirnar, þeir létu vinna þetta plagg og það var heldur betra en þetta er --- að hv. þm. skuli lýsa sérstakri ánægju sinni með það að stjórnarandstaðan skuli ætla að samþykkja þetta mál. Hvar í ósköpunum hefur hv. þm. verið? Ég veit ekki betur en þetta hafi verið sérstakt baráttumál allra þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu og við erum sjálfum okkur samkvæmir í pólitík, að sjálfsögðu.

Að láta reikna það út fyrir sig að skattar hækkuðu upp í 50% um aldamótin. Hugsanlega. Undir hvaða formerkjum og eftir hverju var farið þegar þeir reiknimeistarar sem reiknuðu það út fyrir ríkisstjórnina að hugsanlega þyrfti að hækka skatta upp í 50% um aldamót ef hún gerði ekki neitt. Það hefur orðið 10 milljarða tekjuaukning á tveimur árum, er reiknar með, í tíð þessarar ríkisstjórnar og það hefur ekki gerst með gífurlegum skattahækkunum.

Ég er dálítið hissa á þessum málflutningi. Og síðast en ekki síst er hér önnur könnun, af því að það er verið að draga þær upp um þessa sérstöku hamingju Íslendinga, hérna er önnur könnun sem segir okkur það að 10% íslenskra barna eru með þunglyndiseinkenni og 20% íslenskra barna á fermingaraldri hafa hugsað um sjálfsvíg. Hvers vegna skyldi það vera? Ætli það séu ekki einhver tengsl þar á milli að það er bágt efnahagsástand á fjölmörgum heimilum hér?