Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:09:28 (811)

1996-11-05 16:09:28# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:09]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi hv. ungi þingmaður ætti að koma með einhverjar tillögur og úrræði um aðhald í ríkisrekstri því að það eru fleiri sem gefa út bæklinga og staðreyndir heldur en ríkisstjórnin. Seðlabankinn hefur líka gert það þar sem hann bendir á að það hafi í raun og veru ekkert verið gert til þess að draga úr ríkisrekstri. Það er reiknað með 10 milljarða tekjuaukningu sem er látin borga þennan halla og þó að það sé einn milljarður þar í afgang, þá er það nú ekkert kraftaverk. En sá árangur og sá samdráttur sem hefur þó orðið í ríkisrekstri, á hvers kostnað hefur hann verið og hvernig er forgangsraðað? Það hefur verið fyrst og fremst á kostnað þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og þeirra fjölskyldna sem búa við fátækt. Það er algjör óþarfi að endurtaka þau orð sem hafa komið frá þingmönnum eins og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem fór yfir það í tölum hversu margir það eru sem hér búa við kjör sem teljast vera langt undir fátæktarmörkum. Og það eru tekjur þessa fólks sem hafa verið verulega skertar í tíð þessarar ríkisstjórnar og áform eru um að gera betur. Þarna hefur hv. þm. verk að vinna.