Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:21:31 (814)

1996-11-05 16:21:31# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég má til með að bregðast aðeins við orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar vegna þeirra orða sem hann lét falla um fyrri ríkisstjórn, þátt Alþfl. í henni o.s.frv. Gæti það verið, hv. þm., að einmitt í erfiðum aðgerðum á miklum samdráttartímum hafi Alþfl. gert sér grein fyrir mikilvægi þess að stjórnvaldsaðgerðir séu skoðaðar samræmt frá hverju ráðuneyti til þess m.a. að gera sér grein fyrir hvaða ákvörðun beri að taka fyrir fjölskylduhópa, fyrir fjölskyldusamsetningu, fyrir einstaka hópa eða stærri hópa? Þekkir þingmaðurinn þá reynslu stjórnarliða þegar gerðar eru breytingar á t.d. skattkerfinu eða aðrar breytingar í tengslum við fjárlög byggt á útreikningum frá ráðuneytum og þingmenn stjórnarliðs fallast á t.d. slíkar tillögur í ljósi útreikninga en þegar upp er staðið og þegar til framkvæmda kemur kemur í ljós að staðan er allt önnur. Ég gæti nefnt t.d. tvö slík dæmi, annað sem ég og þingmaðurinn erum sjálfsagt þolendur bæði í og nefni þar ekknaskattinn fræga sem engan grunaði að hefði þau áhrif sem reyndist miðað við útreikninga. Og ég gæti nefnt vaxtabætur frá síðasta kjörtímabili sem reyndust hitta hópa fyrir sem alls ekki var miðað við í útreikningum. Þetta eru líka hlutir sem er mjög mikilvægt að við horfumst í augu við hvort heldur við höfum átt hlut að máli, verið í ríkisstjórn eða ekki. Ég hef hugsað mér að horfast alltaf í augu við þær ákvarðanir sem ég hef tekið þátt í og hef aldrei vikið mér undan þeim þó að þær hafi kannski reynst verri en ég átti von á.