Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:23:42 (815)

1996-11-05 16:23:42# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þessa hluti verður að ræða út frá efni máls í hverju einu tilviki og tilvikunum samanlagt. Ef menn ætla að meta aðgerðir og frammistöðu einstakra ríkisstjórna verður að skoða hvað þær hafa gert og við getum alveg farið yfir það. Ég nefndi nokkur dæmi um breytingar og aðgerðir á síðasta kjörtímabili sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir, að vísu áður en hv. ræðumaður tók þar sæti sem ráðherra ef ég man rétt, að mestu leyti sem ég tel vera afar óhagstæðar fjölskyldunum í landinu og ég stend við það.

Ég tel t.d. að almenn komugjöld og sjúklingaskattar í viðskiptum fólks við heilbrigðiskerfið séu óæskilegir vegna þess að þeir innleiða þá hættu að efnahagur fólks fari að valda aðstöðumun hvað það snertir að njóta þessarar þjónustu. Ég segi sama um skólagjöld. Undirstöðuþættir menntunar í landinu eiga að mínu mati eins og heilsugæslan að standa öllum til boða á jafnréttisgrundvelli án efnalegs aðstöðumunar. Það á að vera þannig.

Ég nefni sérstaklega breytingar á námslánakerfinu. Ég veit að vísu að það var umdeilt og erfitt mál fyrir Alþfl. en það þýðir ekki fyrir Alþfl. annað en horfast í augu við það að hann ber fulla pólitíska ábyrgð á því að hafa sett vexti á námslán og hafa tekið upp eftirágreiðslu námslána og hafa þyngt endurgreiðslukröfurnar sem allt til samans er að valda því að staða þeirra námsmanna sem koma úr námi á næstu árum og fara að borga af námslánum er mjög erfið þegar allt upp í 7%, ekki af ráðstöfunartekjum heldur brúttótekjum, fara í endurgreiðslu námslána í tekjutengda afborgun. Hvað þýðir það? Það þýðir það að kannski 11--12% af nettóráðstöfunartekjum þessa fólks fer í þann þátt einan að endurgreiða námslánin. Svo kemur allt hitt, húsnæðið og börnin og allt það sem þetta fólk þarf að reyna að sjá fyrir. Þetta eru dæmi um pólitík, um þætti sem menn verða að þora að ræða hreinskilnislega, ekki til þess að leita af sökudólgum heldur til þess að átta sig á því hvernig þessi mál liggja og hvernig þetta kemur við fjölskyldurnar. Það er að mínu mati fjölskyldustefna sem mark er takandi á að ræða um hlutina efnislega og ég vildi að við hefðum til þess nokkra daga að fara t.d. yfir það hvernig búið er að ungum barnafjölskyldum í landinu.