Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:28:25 (817)

1996-11-05 16:28:25# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að og ég og hv. þm. verðum sem fyrst saman í ríkisstjórn og getum farið að snúa ofan af þeim vitleysum sem er nú verið að gera á ýmsum sviðum og veitir ekki af og verður það ærinn starfi, sérstaklega ef þeir fá að sitja lengi í viðbót, þessir herrar sem nú gera það.

Herra forseti. Þó að ég hafi út af fyrir sig farið varnaðarorðum um að menn tækju of mikið mark á tillögu af þessu tagi þó í þeim fælust fögur orð nema gerðir manna samtímis endurspegluðu einhvern vilja til þess að leysa úr vandamálum fjölskyldunnar geri ég ekki þar með sagt lítið úr því að það sé einhver samræmd stefna við lýði og það sé unnið eftir einhverjum leikreglum þegar málefni fjölskyldunnar eiga í hlut. Ég er t.d. alveg sammála því að það er mjög mikilvægt þegar verið er að hreyfa við einstökum þáttum, við skulum segja í skattkerfinu, að jafnan sé hugað að því hver er útkoma þeirrar breytingar fyrir fjölskyldurnar og þá ekki bara eitthvert eitt allsherjarmeðaltal fyrir allt landið og miðin, heldur sé til að mynda skoðað hvernig kemur þetta við barnafólk með meðaltekjur og þar fyrir neðan. Ég hef átt sæti í efh.- og viðskn. í allmörg ár og ég hef oft og iðulega beitt mér fyrir því þar þegar verið er að koma inn með einhverja sakleysislega pakka um að krukka lítið eitt í þetta og skerða hitt svona og svona að menn létu sér ekki nægja einhverjar brúttótölur um að þetta sparaði 100 millj. eða þetta sé ekki nema 0,3% skerðing á meðaltalinu, heldur svari menn þeim spurningum t.d. hvernig kemur þetta við fjögurra eða fimm manna fjölskyldu með 100 þús. kr. heimilistekjur, hvernig kemur þetta nákvæmlega við hana? Þá kemur oft ýmislegt annað út úr dæminu en menn eru að fela í þessum meðaltölum.

Ég bendi t.d. á að ef inn í tillöguna væri sett ákvæði sambærilegt við það sem gildir um stjfrv. að jafnan skuli meta kostnaðaráhrif þeirra þá væri sett inn ákvæði í opinbera fjölskyldustefnu um að jafnan skuli meta áhrifin af einstökum stjórnvaldsaðgerðum, breytingum í skattamálum o.s.frv. á hagi fjölskyldnanna, og þá nokkurra dæma en ekki bara meðaltalsins. Ég er svo sannarlega tilbúinn til þess að við í meðförum þingsins skoðum það að betrumbæta þetta plagg þannig að það hafi virkilegt gildi.