Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:30:54 (818)

1996-11-05 16:30:54# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:30]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í þessa umræðu. Ég get ekki látið hjá líða, af því að það voru svo skýr áköll eftir karlmönnum í salinn, að benda á að nú hefur karlmönnum fjölgað svo í salnum að þeir eru tvöfalt fleiri en konurnar sem eru hér og lýstu svo eindregið eftir karlþingmönnum í salinn. (Gripið fram í.) Ég hygg, hæstv. forseti, að það hafi nú verið þannig að menn hafa verið við þau störf sem þeir þurfa að sinna hver í sínu horni og fylgst með umræðunni. Ástandið er ekki verra en það.

Ég vil taka undir að það getur verið ástæða til þess að lagfæra þessa þáltill. að einhverju marki. Ég treysti fullkomlega félmn. til að taka á því máli. Ég veit að nefndin gerir það í samráði og sátt við hæstv. félmrh. (SJS: Hann ræður engu um þetta.)

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með að þáltill. skuli liggja fyrir um málefni fjölskyldunnar. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir að koma þessu máli nú fram. En ég er ekki sáttur við að í umræðunni komi hvað eftir annað fram eins og hér í dag, að þetta mál sé aðeins mál kvenna eins og var rætt um og karla saknað. Þetta mál er bæði mál karla og kvenna. Að mínu mati vantar töluvert í umræðuna um fjölskylduna ef sjónarmið karla koma hvergi fram. En þau gera það í þessari þáltill. Þar eru sjónarmið fjölskyldunnar og hún samanstendur af konum, körlum og börnum.

Hlutverkaskipan hefur verið hefðbundin um langt skeið en þó eru breytingar á síðustu fjórum til sex áratugum gífurlegar. Flestir sem hér eru inni muna eftir því þegar var verið að fara með skömmtunarseðla til þess að fá úthlutað margaríni og því um líku. Flestir muna eftir því þegar heimilisfaðirinn var til sjós og móðirin heima og gætti barna og bús og börnin fóru á bryggjuna til að sækja fisk í soðið þegar ástandið var þannig að það var aðeins hægt að taka út á krít í verslunum. Það er ekki lengra síðan en 1955--1956 og sem betur fer hafa orðið gífurlegar breytingar og þær góðar. En það er þó ekki svo að það sé ekki hægt að gera betur.

Það var ekki mjög stór hluti kvenna sem vann utan heimilisins á sjötta áratugnum ef menn muna svo langt aftur. En þróunin hefur verið sú að konur hafa tekið þátt í umbreytingum á þjóðfélaginu og einnig að þær hafa orðið að vinna utan heimilisins og samfélagsbreytingarnar, eins og ég sagði áðan, eru gífurlegar, mjög miklar. Hlutverk eru samt enn þá nokkuð hrein. Það er ekki mikið um að konur séu í bílaviðgerðum. Það er ekki mikið um að konur séu í dekkjaskiptingum o.s.frv. Og ekki er heldur mikið um að karlar vinni við útsaum en það þykir þó ekki til skammar í dag. Það þótti í eina tíð.

Nú þykir enginn heimilisfaðir maður með mönnum nema hann geti eldað mat og það helst veislumat, sérfræðingur í að grilla og því um líkt. Fyrir aðeins tíu árum síðan þótti það ekkert sérstakt að heimilisfaðirinn sæist með svuntu. Svona eru breytingarnar orðnar. Karlar baka. Karlar bóna. Karlar skúra og ala upp börn. Þeir búa einir með börnum sínum og farnast vel sem betur fer. Ég þekki þetta í mörgum tilvikum.

Ég vil taka undir innihald þáltill. þessarar sem er að setja fjölskylduna í hærri sess, skilgreina réttindi og skyldur sambúðarfólks, vinna gegn fordómum, efla forvarnir og veita vernd gegn ofbeldi. Allt er þetta hluti almennra mannréttinda. En ég minni á að í íslensku þjóðfélagi hefur lengi tíðkast að vinna langan vinnudag. Sú hefð markast af einhæfu atvinnulífi um aldir, þar sem unnið var í skorpum bæði til sjávar og sveita. Þessi vinnumáti hefur vitaskuld breyst síðustu áratugi eftir því sem íslenskt hagkerfi hefur færst nær því sem gerist í nágrannalöndum og ýmiss konar þjónustustörf skipta sífellt meira máli. Nýjar vinnutímareglur af Evrópska efnahagssvæðinu leyfa ekki lengur svo langan vinnutíma.

Lág taxtalaun hér á landi eru efnahagslegt vandamál. Þau leiða til þess að ýmsir sem eru á þessum launum eiga vart fyrir mat, hvað þá að þeir geti nýtt sér þá eðlilegu þjónustu sem nútímaþjóðfélag veitir. Jafnframt verður þetta til þess að ýmsar starfsstéttir fá viðbætur við laun sem ekki er samið um í kjarasamningum. Þetta skapar óöryggi, vitaskuld verulegt óöryggi fyrir launafólk í landinu og hefur ásamt öðru stuðlað að því að launajafnrétti er ekki eins og skyldi. Það að lægstu taxtar skulu vera svipaðir og lágmarksframfærsla er ósvinna. Hér bera vitaskuld margir ábyrgð. Og af því að kjör í Danmörku voru nefnd, þá er tímakaup í dönskum iðnaði um 97% hærra en í íslenskum iðnaði. Tekjur hjóna árið 1993 voru um 39% hærri í Danmörku en á Íslandi. Danskur byggingarverkamaður hefur 28% hærri ráðstöfunartekjur en sá íslenski. Þessar tölur sem komu fram í skýrslu forsrh. um laun og lífskjör á Íslandi, í Danmörku og víðar segja mikið af sögunni.

Þessi síðasti hluti ræðu minnar lýsir í hnotskurn kuldalegu umhverfi fjölskyldunnar á Íslandi. Það verður að búa fjölskyldunni betri kjör og enn þá er langt í land. En þessi þáltill. er mikilvægt skref á leiðinni til þess að búa fjölskyldunni betri kjör.

Ég vil aðeins koma betur inn á launamál því að þau varða fjölskylduna auðvitað hvað mestu. Ég er hér með launaseðil. Ég er með launaseðil fyrir vikuvinnu þar sem launin eru samtals 8.283 kr. Þegar búið var að taka húsnæðiskostnaðinn og annað af viðkomandi aðila sem fór frá Húsavík og á annan stað til að vinna, stóðu eftir vikuna 9 kr. Heilar 9 krónur voru lagðar inn á reikning. Þetta er það sem við eigum við að búa í dag og þetta eru vandamál sem þarf að laga.