Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:47:45 (820)

1996-11-05 16:47:45# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að fjalla um fullgildingu á alþjóðasamþykkt nr. 156 sem síðasti ræðumaður drap á og taka undir þær spurningar sem hún setti fram.

Fyrir þingmenn sem hér sitja og þekkja kannski ekki þessa tillögu, þá er hún á þessa lund:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.``

Þessi tillaga um starfsfólk með fjölskylduábyrgð er þess eðlis að Ísland getur staðfest hana í dag þar sem Ísland hefur uppfyllt öll þau markmið sem tillagan setur fram nema eitt, nema eitt lítið markmið. Og þetta er 8. gr. samþykktarinnar, en það er fyrst og fremst skuldbindingin sem felst í þeirri grein sem komið hefur í veg fyrir fullgildingu. Hún kveður, virðulegi forseti, á um að aðildarríki samþykktarinnar tryggi að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar. Takið eftir, hv. þingmenn. Hún kveður á um að aðildarríki samþykktarinnar tryggi að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar. Og þetta er svo einfalt og sjálfsagt mál að það er ótrúlegt að þetta litla ákvæði hafi verið þess valdandi að Ísland getur ekki fullgilt þessa samþykkt eins og hin Norðurlöndin hafa gert, þrátt fyrir að öll önnur atriði í samþykktinni séu uppfyllt af okkar hálfu. En hér á Íslandi þarf atvinnurekandi ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar.

Atvinnurekandi á Íslandi getur kallað starfsmann til og sagt: ,,Þér er hér með sagt upp störfum.`` Og starfsmaðurinn sem trúir að hann hafi sinnt störfum sínum vel, hvort heldur það hafi verið í eitt ár, 10 ár eða 20 ár, spyr: ,,Og hvers vegna?`` Og það er nóg fyrir atvinnurekandann að segja: ,,Af því bara.`` Þetta er hið íslenska umhverfi launamanns. Þetta er það umhverfi sem hefur skapað ótta og angist margra á vinnumarkaði þegar harðnar á dalnum. Fólk veit að ef það sýnir ekki ákveðna þjónkun og undirgefni í vinnu sinni og gerir það sem ætlast er til, hvort sem það er of langur vinnudagur eða eitthvað annað. Kannski er gengið fram hjá einhverjum atriðum sem sjálfsögð eru í umhverfi starfsmannsins, en hann þorir ekki að bregðast við vegna þessa. Og fyrir fólk með fjölskylduábyrgð skiptir mjög miklu máli að fjölskylduábyrgðin sem slík, umönnunin, sé ekki ástæða uppsagnar. Þetta höfum við hvatt ráðherra til og reyndar flutt inn í þing sem þingmannatillögu. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, að ráðherrann segi að ríkisstjórnin ætli að skapa skilyrði. Annaðhvort fullgildir maður samþykktina eða ekki vegna þess að um árabil hefur verið reynt að koma því á, á samráðsvettvangi aðila vinnumarkaðarins, að þessi samþykkt verði tekin inn í kjarasamninga því það eru tvær leiðir: Að taka hana inn í kjarasamninga eða setja hana í lög. Og það er alveg ljóst að vinnuveitendur vilja ekki taka hana inn í kjarasamninga. Þess vegna er annaðhvort að fullgilda hana og setja þetta í lög eða horfast í augu við að á Íslandi á það áfram að vera þannig að fólk með fjölskylduábyrgð getur lent úti á köldum klaka.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna mikilvægan þátt í athugasemdum eða umsögnum sem komu um tillöguna þegar hún var send út og er svo mikilvægt að hafa núna þegar við förum að vinna með stjórnartillöguna. Það er að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var staðfestur af ríkisstjórn í október 1992. Þegar Ísland fór á fund nefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd sáttmálans hér á landi, gagnrýndi nefndin Ísland, einkum í ljósi velmegunar á Íslandi, fyrir það að engin heildstæð barnastefna eða fjölskyldustefna væri til í landinu og auk tillagna um úrbætur komu fram margar athugasemdir frá nefndinni sem ég ætla ekki að tilgreina hér. Í lokaathugasemdunum mælist barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna til þess að tryggðar verði fjárveitingar að því marki sem framast er unnt í ljósi 4. gr. barnaréttarsramningsins þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.``

Og auðvitað var það vegna þess að okkar flokkur gerði sér grein fyrir þörfinni á því að setja samræmda fjölskyldustefnu, sem að þessu máli var unnið á sínum tíma í félmrn.

Það hefur komið fram að heildarsýn í málefnum fjölskyldunnar skortir og ekki hefur verið reynt að greina velferðarkerfið að marki með tilliti til þeirra verkefna sem fjölskyldunni er ætlað að takast á við á hverjum tíma og hvernig hið opinbera kemur til móts við þarfirnar. Miðað við Norðurlöndin er t.d. miklu meiri stofnanaþjónusta fyrir aldraða og minni heimaþjónusta þó að stofnanir séu dýrari kostur og þrátt fyrir að aldraðir vilji búa heima sem lengst. Hér kom fram í umræðunni: Hvað er fjölskyldan? Er hún pabbi, mamma, börn og bíll eða er hún eitthvað annað? Er það einn pabbi með eitt barn og ein mamma með tvö börn? Hvar koma tvær aldraðar systur sem búa saman inn í slíka stefnu? Að sjálfsögðu erum við að tala um allan þennan hóp vegna þess að jafnvel þegar pabbinn og mamman búa ekki saman eða að öldruð móðir eða aldraður faðir býr við þær aðstæður að þjónustu skortir, skapast erfiðleikar í fjölskyldunni sem stendur að þeim aldraða. Ef fatlað barn er í fjölskyldunni og þjónustu skortir, skapast erfiðleikar í þeirri fjölskyldu og jafnvel getur það verið eitthvað sem kemur til kasta afa og ömmu. En t.d. í málefnum fatlaðra hafa verið sett lög --- m.a. í tíð Alþfl., svo dregið sé fram eitthvað af því góða sem gert var á stjórnartíma Alþfl. á erfiðu samdráttartímunum --- um málefni fatlaðra þar sem er lögð höfuðáhersla á stoðþjónustu í stað stofnanaþjónustu. Það er m.a. þjónusta sem á virkilega að taka upp í málefnum aldraðra.

Við erum ung þjóð. Hér eru hlutfallslega fleiri börn en víða annars staðar. Við verjum hlutfallslega minnstu til félags- og heilbrigðismála og börn eru mikið ein síns liðs hjá okkur. Slysatíðni barna er há og aðstæður heimilanna hafa breyst í kjölfar breytts samfélags. Konur bera sem fyrr meiri ábyrgð á málum fjölskyldunnar eins og hefur komið fram, bæði í jafnréttisumræðunni og víðar. Allt eru þetta mál sem við verðum að taka á, breyta og lagfæra. Og það er mjög gott að hér hafa komið fram ýmsar ábendingar sem félmn. á að sjálfsögðu að taka og skoða og ekkert er því til fyrirstöðu að komið verði með margar tillögur til viðbótar við þessa stjórnartillögu.