Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:56:55 (821)

1996-11-05 16:56:55# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:56]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félmrh. fyrir að leggja þessa tillögu fram. Heiti hennar er í tveimur pörtum. Seinni hluti þess er miklu mikilvægari en fyrri hlutinn því að í fyrri hlutanum er aðeins talað um að móta opinbera fjölskyldustefnu. Það segir nú kannski ekki mikið en seinni hlutinn segir: ,,og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.`` Í því orðalagi er stefnumörkun á þann veg að stefnt sé að því að vernda kjör fjölskyldunnar og styrkja hennar stöðu.

Mikið hefur verið rætt um það að undanförnu að lífskjör Dana og Íslendinga séu á þann veg að Danir hafi það mun betra en við þessa stundina. Ég rengi ekki þessar niðurstöður. Ég tel þær réttar. En ég vil minna á það í þessum sal að við vorum alllengi meðhöndlaðir sem dönsk nýlenda. Og þó að það hafi verið á pappírunum sett upp sem við værum hluti af Danaveldi þá vorum við meðhöndlaðir sem dönsk nýlenda. Mér vitanlega er aðeins eitt dæmi til um það í öllum heiminum að fyrrverandi nýlenda hafi betri kjör en þjóðin sem hafði hana sem sína nýlendu. Í öllum tilfellum öðrum held ég að staðan sé sú að nýlenduveldið gamla hafi betri lífskjör en fyrrv. nýlenda.

Bandaríkin hafa betri lífskjör en Bretar. Það er eina dæmið sem ég veit um að nýlenda sé komin það hátt að hún sé búin að koma sér betur fyrir en herraþjóðin. Ef menn hafa önnur dæmi, væri fróðlegt að heyra þau í umræðunni. En því segi ég þetta að menn mættu gjarnan minnast þess að það skakkaði heilli öld hvað barnadauðinn á Íslandi varði lengur en barnadauðinn í Danaveldi fyrir utan Ísland. Það segir kannski sína sögu um það sem við tókum við á sínum tíma um seinustu aldamót og ekki síður hitt að gerður var 50 ára samningur af hálfu Dana um það að landhelgin við Ísland skyldi aðeins vera þrjár sjómílur. Menn geta svo metið hvort sú aðgerð hafi verið hugsuð til að auðvelda Íslendingum lífsbaráttuna eftir að þeir fengu heimastjórn.

[17:00]

Þetta segi ég ekki til að deila á þá þingmenn sem hafa getið um þetta atriði, að lífskjör Dana séu betri en Íslendinga, en ég segi þetta til þess að undirstrika að það væri mikil sjálfsblekking ef menn héldu að innlend stjórn í landinu hafi orðið til þess að breikka það bil sem var á milli þessara tveggja þjóða. Það hefur verið að dragast saman frá því að þeir réðu hér einir öllu.

Ég vil aftur á móti vekja athygli á því að hér hefur verið rætt um skattamál og að við vildum ekki að skattar færu yfir 50%, það hefur heyrst í þessum sal. Ef við tölum um jaðarskatta og raunverulega skatta þá eru skattarnir komnir upp í 80--90%. Það er hinn kaldi veruleiki á hæstu jaðarsköttum sem hægt er finna, í okkar skattkerfi. Og það er ein stærsta ástæðan fyrir niðurbroti fjölskyldnanna vegna þess að þó að við höfum kannski ekki staðið mikið að ráðgjöf þá hafa þó sveitarfélögin verið með ráðgjöf þar sem fólk hefur mætt í viðtöl og sagt: Hvað eigum við að gera í þeirri stöðu sem við erum? Og þá hefur verið hægt að reikna það út af nokkurri nákvæmni af slíkum starfsmanni við hvaða aðstæður skynsamlegast er að ráðleggja skilnað. Hjónaband er vissulega tilfinningasamband en það er líka efnahagslegt samband um ákveðnar forsendur, um sameiginlegan fjárhag að vissu leyti, og þegar hægt er að fara á skrifstofu hjá sveitarfélögunum og láta reikna út, í flestum tilfellum karlinn, að hann sé bara óarðbær ef þetta er reiknað út miðað við tekjur og framlög, það sé halli á því að halda þessu áfram, þá er það náttúrlega dálítil kaldhæðni örlaganna að það skuli vera svo í okkar samfélagi að við tölum annars vegar um það að vilja varðveita fjölskylduna og hins vegar að standa þannig að skattuppbyggingunni að með því að leggja á jaðarskattana séum við í sumum tilfellum komin upp í 80--90%.

Ég held þess vegna að það sé rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, að það verður náttúrlega að ræða þessi mál í rólegheitunum út frá þessu sjónarmiði. Og þegar ég segi þetta þá er ég ekki að tala um það að ég telji að þeir sem þurfa einir að sjá um sín börn séu ofsettir af því sem þeir hafa. Ef niðurstaðan yrði sú að við sameinuðumst um það að rýra þeirra kjör til réttlætis fyrir fjölskylduna þá held ég nú að við værum ekki að vinna þarft verk með tillögunni og það má enginn skilja orð mín á þann veg að ég leggi það til. Hins vegar er það dálítið mikil kaldhæðni að við virðumst svo sjaldan telja börnin með. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að vera persónuafsláttur hjá hverjum einstaklingi sem hefur náð vissum aldri. Þá á að vera persónuafsláttur í tekjuskattinum á þeirri forsendu að hann þurfi eitthvað að hafa fyrir sig til þess að geta lifað. Þetta eru gild rök. Og ef það eru hjón þá er persónuafsláttur fyrir karlinn og persónuafsláttur fyrir konuna. Svo kemur að barninu, það er enginn persónuafsláttur fyrir það, ekki nokkur. Þannig að ef hjónin ætla að vinna sér inn meiri peninga þá er það gert út á að það sé enginn persónuafsláttur til staðar. Þetta er umhugsunarefni vegna þess að það er ekki síður skylda heimilisins að framfæra börnin heldur en að framfæra makana.

Ég er sannfærður um að sú tillaga sem hér liggur fyrir hlýtur að verða skoðuð mjög vel út frá þessu sjónarmiði. Og eins og sagt er hér efst á bls. 2:

,,Að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.``

Ég held að menn verði að skoða þennan þátt alveg sérstaklega í tengslum við skattana og jaðarskattana því það væru góð tíðindi ef það væri staðreynd að skattarnir væru ekki nema 50% miðað við það sem þeir eru. En þeir eru bara miklu meiri með því að leggja jaðarskattana við og menn verða að snúast gegn þessu.