Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:20:54 (823)

1996-11-05 17:20:54# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:20]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fremur sléttri og ágætri ræðu hæstv. félmrh. fékk ég svona kipp fyrir hjartað þegar hann upplýsti það hér úr þessum stól að nær allir sem tekið hafa húsbréf væru komnir í vandræði. Þetta þóttu mér mikil tíðindi. (Félmrh.: Greiðsluerfiðleikalán.) Þetta þóttu mér vera tíðindi og munu þetta vera nokkuð margir tugir milljarða sem hafa verið veitt í húsbréf og nokkrir tugir þúsunda Íslendinga hafa tekið þessi lán. Nú inni ég hæstv. félmrh. eftir því við hvað hann átti og hvort húsbréfakerfið í gegnum tíðina frá því það var lögtekið leiki menn svo grátt sem hann lýsti. Ég óttaðist það frá upphafi að allt of há lán yrðu til þess að mjög stór hluti ungs fólks, sem færi færi í húsbréfakerfið lenti í vandræðum. Mér finnst að hæstv. ráðherra hafi staðfest það. Nú vil ég inna hæstv. ráðherra eftir þessu og spyrja hvort húsbréfakerfið eins og það stendur í dag sé sú gildra að þeir sem ganga inn í það kerfi og taka lán eigi það í vændum að lenda í miklum vandræðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hann aðhafist í þessu mikla vandamáli sem hann lýsti hér í ágætri ræðu.