Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:36:45 (828)

1996-11-05 17:36:45# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn tók við heimilunum í landinu á kafi í skuldum. Það ætti fyrrv. félmrh. að vita. Gjaldþrotið skapast ekki á rúmu ári. Þeir sem eru að verða gjaldþrota, og eru vissulega allt of margir, hafa ekki safnað skuldum á mínum starfstíma í félmrn. Meðaltekjur þeirra sem leituðu til ráðgjafarstofu voru 146 þús. og það eru ekki atvinnulausir eða öryrkjar sem hafa 146 þús. í meðaltekjur. Auðvitað væri einfaldast að strika út skuldir fólks og það væri auðvitað mest gaman að því en það er hins vegar ekki ábyrg stjórnsýsla.

Hv. þm. spurði um tímamörk á starfstíma fjölskylduráðs. Ég þakka henni fyrir að vekja athygli á þessu því ég hafði ekki tekið eftir þessu. Þetta er lapsus í frv. Ég vil biðja hv. félmn. að kíkja á það mál. Ég tel eðlilegt að fjölskylduráð sé skipað að nýju eftir hverjar kosningar. Mér finnst það vera eðlileg regla á svona nefndarskipun. Það er rétt líka að það er ófrágengið hvernig jafnréttisáætlun harmóneri við fjölskylduáætlun. Þetta hefði verið tiltölulega einfalt ef frv. hefði verið í upphaflegri mynd eins og ég ætlaði því en það er ekki búið að ganga frá því en verður að gera þegar áætlanirnar eru sendar að láta þær ekki stangast á.

Ef hv. þm. læsi fjárlagafrv. þá sæi hún að til málefna fatlaðra eru ætlaðar á árinu 1997 2.213 millj. samtals sem er 190 millj. kr. meira heldur en var á fjárlögum þessa árs.