Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:48:16 (833)

1996-11-05 17:48:16# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi húsbréfakerfisins voru afföll og ég skýrði það hér áðan af hverju svo var. Núorðið tala menn lítið um afföll í húsbréfakerfinu. Og það er undarlegt, af því að það eru aðallega framsóknarmenn sem tala um að það séu miklir gallar á húsbréfakerfinu, af hverju þeir afnema það ekki núna þegar þeir eru komnir til valda.

Varðandi 86-kerfið þá var það Ríkisendurskoðun sem dæmdi kerfið gjaldþrota vegna þess að það kostaði svo mikið fyrir ríkissjóð. Og einnig þurfti fólk að bíða eftir þessum lánum. Þetta var varla fjölskylduvænt fyrir fólkið. Það þurfti að bíða kannski í tvö, þrjú og fjögur ár eftir að fá lánið þegar það sótti um. Það varð stundum að selja þessi lánsloforð sem það fékk með miklum afföllum. Lánshlutfallið var líka miklu lægra þá en það er nú í húsbréfakerfinu þannig að fólk þurfti að taka skammtímalán í bönkum, sífellt að endurnýja þau með ærnum kostnaði sem er ekkert annað en afföll. Ég held að þær raddir séu að þagna hér í þessum sal, nema hjá einstaka framsóknarmönnum, um að 86-kerfið hafi verið til góðs og þjónað sínum tilgangi. Ég heyri ekki nokkurn mann tala, ekki félmrh., ekki einu sinni framsóknarmenn núna þegar þeir hafa völd til þess, um að það væri rétt að leggja niður húsbréfakerfið og taka upp gamla 86-kerfið.