Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:40:03 (840)

1996-11-06 13:40:03# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá málshefjanda að þarna varð mikið tjón og meira en við óttuðumst í fyrstu en minna en við óttuðumst þegar fram leið og ég tala nú ekki um eftir að hlaupið hófst með þeim ógnarkrafti og ósköpum sem öllum er kunnugt.

Það er rétt að taka fram að ég tel að nú liggi fyrir að hönnunarforsendur mannvirkjanna á Skeiðarársandi hafi staðist vel og reyndar betur en búast hefði mátt við miðað við ógnarkraft hlaupsins. Fjártjón er nú metið á um 1.000 millj. kr. +/- 200 millj. og er þá tekinn með kostnaður við raflínur og staura, ljósleiðara og auðvitað varanlegar vegbætur og líka kostnaður við bráðabirgðaaðgerðir. Það er rétt að hafa það í huga því að mönnum hefur sjálfsagt gengið illa að leggja saman tölur en það hefur vantað þann þátt, kostnaðinn sem fellur á til bráðabirgða.

Gígjukvíslarbrúin er farin eins og menn vita, 400 metra brú, og árfarvegur hennar er um þessar mundir 1,5 km á breidd og mjög djúpur, eyrarlaus farvegur. Skeiðarárbrúin stendur að mestu, tæpir 200 metrar farnir. Brúin yfir Sæluhúsavötn virðist halda, a.m.k. að verulegum hluta og síðan aðrar brýr sem umræddar hafa verið. Það eru auðvitað á þessu stigi miklir fyrirvarar um burðarþol stöpla og annarra burðarvirkja í mannvirkjum þar sem þau hafa hingað til aðeins verið skoðuð úr þyrlum.

Það er ljóst að bráðabirgðaviðgerðir verða hafnar strax og færi gefst og nú er við það miðað að bráðabirgðavegtengingu megi ná á innan við tveimur mánuðum. Það er ekki talið fært að vera með nákvæmari ágiskanir en þetta á þessu stigi. Mokstursdögum á norðurleið verður fjölgað í fimm í viku þar sem umferðarþunginn mun að verulegu leyti færast þangað. Einkaaðilar í skipa- og flugvélarekstri hafa þegar brugðist fljótt og vel við, ýmist þegar tilkynnt bætta þjónustu eða að þeir væru að undirbúa aukna þjónustu á þessu svæði.

Spurningum um framhaldið, hina varanlegu mannvirkjagerð, er ekki rétt að reyna að svara á þessu stigi máls en þó má nefna að brýr af þeim styrkleika sem þarna voru mundu hafa dugað og staðið af sér öll flóð sl. 58 ár. Það er rétt að menn hafi það í huga og það hlýtur að hafa áhrif á allar ákvarðanir í framhaldinu.

Ég átti í morgun fund með bæjarstjóra og öðrum forustumönnum bæjarstjórnar í Höfn í Hornafirði og gerði þeim grein fyrir þeirri stöðu sem nú er uppi og þeim ráðagerðum sem menn hafa á endurgerð og tengingu á vegasambandi á þessu svæði.