Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:51:41 (845)

1996-11-06 13:51:41# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:51]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Atburðir þeir sem orðið hafa á undanförnum vikum í Vatnajökli og nú á síðustu klukkustundum á Skeiðarársandi minna okkur einu sinni enn á náttúruöflin og það sem við Íslendingar þurfum að búa við eins og hér hefur verið sagt, ekki bara í dag heldur alla daga. Við þurfum að búa okkur eins vel undir það og kostur er að draga úr fjárhagstjóni sem af svona náttúruhamförum getur orðið. Mestu skiptir auðvitað að ekki verði manntjón, að okkur takist að verja mannslíf svo sem kostur er. Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. verður reynt að bregðast svo fljótt við sem mögulegt er til að koma á samgöngum á ný og bæta það tjón sem þarna hefur orðið. Þó það sé mikið, er það sem betur fer minna en okkur virtist í gær þegar við heyrðum fréttir og sáum fréttamyndir og okkur sem gátum farið þarna yfir virtist þegar við skoðuðum þessar miklu náttúruhamfarir.

Ég vil aðeins geta þess að ég hef fyrir örfáum mínútum átt viðtal við þjóðgarðsvörð í Skaftafelli, Stefán Benediktsson, sem tjáði mér að mannvirki þar hefðu ekki orðið fyrir neinum skaða utan smávegis á leiðargörðum í Morsárdal í kringum göngubrú sem þar er. Brúin stendur en væntanlega er eitthvert smátjón þar og litlar eða engar gróðurskemmdir nema þá þar í kring. Eins það sem einnig kom fram í samtali mínu við landgræðslustjóra að það hafa orðið nokkrar gróðurskemmdir á mikilli sjálfgræðslu sem þarna hefur orðið á söndunum á undanförnum árum, m.a. vegna breyttra búskaparhátta og vegna veðurfarsskilyrða. En þar hefur ekki verið lagt í uppgræðsluaðgerðir sem hafa verið kostaðar af opinberu fé þannig að það er ekki slíkur skaði. Það er auðvitað skaði að missa gróið land en það er eins og hér hefur verið sagt hluti af þeirri framvindu náttúrunnar sem við þurfum stöðugt að búa við. Mestu varðar að ráðast svo skjótt sem auðið er í úrbætur sem nauðsynlegar eru til þess að koma aftur samgöngum á við þann landshluta sem nú býr við miklu erfiðari samgönguskilyrði en áður var.