Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:54:06 (846)

1996-11-06 13:54:06# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), JHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:54]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Miklir atburðir hafa gerst á landi voru síðasta sólarhring. Náttúruhamfarir austur á Skeiðarársandi minna enn á ný við hverju má búast þegar ægikraftar elds og íss eiga hlut að. Þó fór betur í þetta sinn en svartsýnustu spár reiknuðu með í gær. Guði sé lof og guði sé lof að ekki hlaust manntjón af.

Vitaskuld mun ekki fara hjá því að þessir atburðir setji svipmót á mannlíf á Austurlandi, einkum þó í Austur-Skaftafellssýslu á næstu mánuðum og ekki einungis þar heldur einnig annars staðar á landinu því að blessunarlega erum við ein þjóðarheild með ríka samkennd, ein þjóð í einu landi.

Virðulegur forseti. Það er kunnara en frá þurfi að skýra að landleiðin austur frá Hornafirði hefur mikla annmarka að því er varðar þungaflutninga og þarf raunar ekki að hafa mörg orð þar um. Æki sem vega t.d., eins og nú er algengt, 40--50 tonn og fara hvort heldur um þjóðveg númer eitt, um svokallaða Breiðdalsheiði, eða fjarðaleið bjóða mikilli hættu heim í slæmum veðurskilyrðum um hávetur. Hjá þessu verður þó ekki komist að sinni ef halda á uppi því þjónustustigi sem menn þekkja og vilja viðhalda.

Virðulegur forseti. Það þolir enga bið að hefja endurbyggingu vega og brúa svo fljótt sem verða má og ljúka bráðabirgðatengingu á sem allra skemmstum tíma og ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh. af þessu tilefni. Miklir hagsmunir eru í húfi og ég legg á það áherslu að þessi ótíðindi megi á engan hátt verða til að skerða framkvæmdafé til annarra áformaðra vegaframkvæmda í kjördæminu.

En fleira kemur til. Ég get varla hugsað þá hugsun til enda ef atburðir þessir hefðu t.d. gerst í upphafi sumarleyfisvertíðar. Hvað hefði slíkt þýtt fyrir unga og oft efnahagslega vanmáttuga atvinnugrein, ferðaþjónustuna, sér í lagi á Suðausturlandi þar sem fjöldi fólks byggir orðið afkomu sína á þjónustu við ferðamenn?

En hversu mikilvægt sem það nú annars er að koma hringveginum aftur í samband, þá bera þessir geigvænlegu atburðir okkur skýr skilaboð. Og þau skilaboð eru að í framhaldi af enduropnun hringvegarins verði farið í að kanna og taka til gagngerrar endurskoðunar þær leiðir sem færar eru að leggja aðra vegi til Austurlands. Hér á ég við styttingu á vegalengdinni milli Reykjavíkur og Mið-Austurlands um 240 km norðan jökla og þær hugmyndir sem Trausti Valsson kom með á fundi austfirskra sveitarfélaga í sl. ágústmánuði.

Og að allra síðustu. Landbrot við Jökulsá á Breiðamerkursandi, Kötlugos eða Suðurlandsskjálfti gætu mögulega orsakað næsta rof á hringveginum. Hugum því í tíma að bættu öryggi með fleiri mögulegum tenginum milli þessara landshluta.