Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:57:35 (848)

1996-11-06 13:57:35# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:57]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Með opnun hringvegarins með mannvirkjum á Skeiðarársandi fyrir 22 árum var ritaður sérstakur kafli í sögu landsins, sérstakrar sögu sameiningar landsmanna. Þá styttust fjarlægðir og jukust möguleikar um land allt og það er mikið í húfi að bregðast við.

Miðað við þær fréttir sem hæstv. forsrh. sagði, má velta fyrir sér stærðum. Efnismagnið sem kom upp í gosinu í Vatnajökli fyrir tveimur vikum er talið vera um 0,4 rúmkílómetrar. Það þýðir um 300--400 millj. rúmmetra af gosefni á tæplega tveimur vikum. Það er ámóta magn og kom upp á fimm mánuðum í eldgosinu í Heimaey 1973. Þetta magn bræddi vatn sem var tíu sinnum meira að magni eða um 3.000 millj. rúmmetra, eitt Þingvallavatn. Þingvallavatn er um 3 rúmkílómetrar svo að menn geta kannski gert sér þessar stærðir í hugarlund. Og ef nú er hafið öflugt gos aftur þá þýðir það ekkert annað en að áfram rennur í Grímsvatnaketilinn, að vísu með þeim breyttu formerkjum að leiðin er opin niður á sandinn. Það skapar kannski minna vandamál en hægt væri að búast við ef ekki væri opin sú leið sem nú hefur opnast. Þannig að þó að það sé áhyggjuefni að byrjað er að gjósa á ný, dregur þessi staðreynd úr þeim áhyggjum.

Það er hins vegar mikið fagnaðarefni að þó að hér sé um að ræða hraðasta hlaup sem skráð er í sögu landsins, þá brást ríkisstjórnin enn skjótar við og byrjaði að skipuleggja þegar í gær enduruppbyggingu. Auðvitað eru menn í biðstöðu eins og staðan er núna en þó er ástæða til að fagna þeim viðbrögðum.