Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:02:26 (850)

1996-11-06 14:02:26# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:02]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil koma inn í þessa umræðu og þakka stjórnvöldum sérstaklega fyrir skjót viðbrögð. Það sýnir sig að þegar mikil vá steðjar að, stöndum við saman og hér hafa menn greinilega í þessari umræðu viljað standa að því að brugðist verði við sem skjótast og að íbúar á Austurlandi verði fyrir sem minnstum truflunum í sínu daglega lífi. Og það er náttúrlega alveg ljóst eins og menn hafa nefnt í þessari umræðu að brugðist verður við þannig að menn geta haldið uppi óbreyttum eða þokkalegum samgöngum. Ég heyri að menn vilja gjarnan að að því verði staðið þannig að menn komist sem best leiðar sinnar þó svo leiðin lengist eins og komið hefur fram.

Nú hefur hæstv. forsrh. borið okkur þau boð að gos sé hafið aftur þannig að við sjáum hugsanlega ekki alveg fyrir endann á því hvað náttúruöflin eru að færa okkur núna. Við verðum því væntanlega að bíða aðeins og sjá. Ef ekki verða stóráföll finnst mér það góð tíðindi að vegtenging geti hugsanlega verið komin á eftir tvö mánuði þannig að truflun verði hugsanlega ekki svo mikil af þessum náttúruhamförum að íbúar Austurlands verði fyrir miklum skakkaföllum.