Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:04:51 (851)

1996-11-06 14:04:51# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), Flm. EgJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:04]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hygg að þær fréttir sem hæstv. forsrh. hefur borið hingað um að hafið sé nýtt eldgos eigi m.a. skýringar í þeirri kenningu Sigurðar Þórarinssonar að þegar eldstöð hefur létt á sér eins og gerst hefur núna við Gríms\-vötn, geti það orðið til þess að eldur komist upp á nýjan leik. Ég tek undir það sem hv. þm. Árni Johnsen talaði um að bót er að nú er orðinn opinn farvegur niður á Skeiðarársand undir Skeiðarárjökul.

Það hefur ekki komið fram í þessum umræðum og ekki í sambandi við þær kostnaðartölur sem hér hefur verið brugðið upp, að ekki er gert ráð fyrir því að gróður verði endurvakinn á Skeiðarársandi. Ég vek þó athygli á því að það getur hæglega þurft að gera, m.a. til þess að tryggja þar greiða leið í norðlægum áttum þegar sandfok getur átt sér stað, hliðstætt því sem gert hefur verið á Mýrdalssandi og í því felst auðvitað mikill kostnaður.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa málefnalegu umræðu sem ég veit að mun efla okkur í því að ná fram þeim árangri í samgöngumálum um Skeiðarársand sem við þörfnumst svo mjög um þessar mundir.