Fíkniefnaneysla barna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:22:42 (856)

1996-11-06 14:22:42# 121. lþ. 19.1 fundur 68. mál: #A fíkniefnaneysla barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta upp hér og vitna til þeirra frétta sem voru í ríkissjónvarpi og útvarpi fyrir nokkrum dögum síðan. Ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem Barnaverndarstofa safnaði og var verið að dreifa og er náttúrlega ekki nokkur vegur á stuttum tíma að renna yfir þær. En ég rek mig þó strax í fullyrðingar lögreglunnar í Reykjavík þar sem segir að enginn undir 16 ára aldri hafi verið handtekinn á síðasta ári eða hefur verið handtekinn það sem af er þessu ári. Enginn 15 ára eða yngri dæmdur vegna fíkniefnamála á árinu 1995, hvorki fyrir sölu né neyslu. En í dómum sem hafa fallið á 15 og 16 ára börn er þess í fæstum tilvikum getið í dómsorði að um áfengisneyslu eða neyslu annarra vímuefna hafi verið að ræða heldur fyrst og fremst afbrotið sem framið hefur verið. Og samkvæmt upplýsingum og samstarfi sem ég hef átt við Útideild Reykjavíkur eru þar nú þegar í meðferð sjö eða átta 15 ára unglingar sem flokkaðir eru sem síbrotamenn, 15 ára gamlir.