Fíkniefnaneysla barna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:24:24 (857)

1996-11-06 14:24:24# 121. lþ. 19.1 fundur 68. mál: #A fíkniefnaneysla barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör félmrh. Það er alveg rétt að það er erfitt að taka einhverja umræðu um þessi mál í stuttum fyrirspurnatíma enda er spurningin afmörkuð og sett fram við mjög alvarlegar aðstæður. Ég er mjög ánægð að heyra að vandinn er ekki svona stór þó hins vegar, við snöggt yfirlit á þessum upplýsingum, sjáum við að þær tölur sem hér koma fram eru auðvitað alvarlegar tölur vegna þess að jafnlítið land og okkar ætti að eiga möguleika á því að setja á þannig vinnu að hægt væri að afstýra vandanum betur í okkar þjóðfélagi en í stórum þjóðfélögum annarra landa. Ég er að koma heim frá þingi Sameinuðu þjóðanna og þar valdi ég að fylgjast með málum í svokallaðri þriðju nefnd. Eitt af stóru málunum þar var hvernig tekið er á fíkniefnavandanum úti um allan heim og ólík sjónarmið komu náttúrlega upp. Í tengslum við umræðu sem var í þessari nefnd var haldin eins konar ráðstefna félagasamtaka og þar var fólk sem á alþjóðlegum vettvangi hefur reynt að skoða hvernig er hægt að taka á málum. Sá boðskapur sem kom fram á þeirri ráðstefnu hjá fólki sem hefur starfað til margra ára að þessum málum og skoðað þennan vanda, er að það verði að taka á honum á sveitarstjórnarstigi. Það verði að taka á honum á grunnstiginu og að félagasamtök, sveitarstjórnir með stuðningi stjórnvalda séu þau einu sem eigi möguleika á þessu. Og hugsandi um foreldraröltið sem hefur tíðkast í sumum stærri bæjunum þar sem reynt er að hafa samstarf við viðkomandi bæjaryfirvöld um að taka á því þegar upp hafa komið hópar sem setjast að á hinum og þessum stöðum og foreldrar að leita að ungum börnum sínum til að vita hvort þau séu á þessum hræðilegu stöðum, þá er það augljóst að ríkisvaldið þyrfti að styðja sveitarstjórnir í að taka á þessum málum.