Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:37:19 (861)

1996-11-06 14:37:19# 121. lþ. 19.2 fundur 79. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:37]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrirspurnina en vil lýsa furðu minni á því hvers vegna hæstv. félmrh. telur sig ekki geta bundið hendur annarra ríkisstjórna í þessu máli. Hann ber ábyrgð á því að móta stefnu í málefnum flóttamanna og hvernig Íslendingar hyggist í framtíðinni taka á móti flóttafólki annars staðar frá. Það eru 25--30 millj. manna á flótta frá heimilum sínum í heiminum í dag annaðhvort innan sinna eigin landa eða utan þeirra. Það er einfaldlega siðferðileg skylda okkar að hjálpa þar. Koma að því verki. Til þess þarf auðvitað að vinna verkið vel eins og gert hefur verið núna í ár við móttökuna á Ísafirði. Til þess þarf auðvitað stefnu og við þurfum einfaldlega að ákveða hvað við höldum að við getum tekið á móti mörgum flóttamönnum á hverju ári bæði innan svokallaðs kvóta og einnig hvernig við ætlum að huga að málum þeirra sem leita hér hælis af öðrum ástæðum.