Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:38:47 (862)

1996-11-06 14:38:47# 121. lþ. 19.2 fundur 79. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:38]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og einnig hæstv. félmrh. fyrir greið svör. Ég tel að ástæða sé til að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hann muni gera á ári hverju tillögu um að taka á móti tilteknum hópi flóttamanna einfaldlega vegna þess að ég held að það sé rétt, sem fram hefur komið, að við höfum auðvitað mikla siðferðilega skyldu til að koma til aðstoðar því fólki sem er á hrakningi vegna aðstæðna í þeirra heimalöndum. Þess vegna held ég að þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra sé mjög þýðingarmikil og ég held að Alþingi eigi að sýna vilja sinn í verki í þeim efnum.

Ég held að reynslan frá Ísafirði sýni okkur að við erum mjög vel undir það búin að taka á móti hópi flóttamanna eins og þar. Reynslan af móttökunni á Ísafirði hefur, eins fram kom í máli hæstv. ráðherra, að öllu leyti verið mjög góð. Það er gott fyrir okkar þjóðfélag að auka það með komu erlendra ríkisborgara sem færa okkur nýja þekkingu, nýja reynslu og gera þjóðfélag okkar á allan hátt miklu æskilegra til búsetu. Þess vegna held ég að það séu margvísleg rök sem mæla með því að við tökum á móti erlendum flóttamönnum. Fyrst og fremst vegna þeirra siðferðilegu skuldbindinga sem við hljótum að hafa gagnvart fólki sem stendur höllum fæti í heiminum.